Í dag mun ég í fyrsta sinn bera grímu í mótmælaaðgerð. Ég mun bera slíka grímu hér eftir í aðgerðum, nema andlitið á mér þjóni sérstökum tilgangi.
Á morgun kem ég fram í þætti Sverris Stormskers á útvarpi Sögu og ræði aktivisma og anarkisma. Á fimmtudag kem ég fram á opnum Borgarafundi í Iðnó og tala um borgaralega óhlýðni og ábyrgð mótmælenda. Eftir það mun ég ekki tjá mig um mótmæli aðgerðasinna undir nafni, nema þá með því að vísa í eitthvað sem ég hef þegar sagt.
Ástæðurnar fyrir því að ég tek upp grímu og nafnleysi eru eftirfarandi.
-Ég dreg of mikla athygli frá aðgerðunum -og það gæti einnig virkað öfugt
Ég hef hingað til komið fram grímulaus sem talsmaður beinna aðgerða. Ég hef ekki komið fram sem talsmaður ákveðinna hópa nema í þeim tilvikum sem ég sjálf hef stofnað lítinn hóp í kringum eina tiltekna aðgerð, enda get ég ekkert talað fyrir hundruð manna sem ég þekki lítið eða ekkert, en fólk virðist ekki skilja muninn á þessu tvennu. Málgleði mín hefur orðið til þess að fólk álítur mig foringja og heldur að ég hafi vald til að gefa skipanir. Margir telja einnig að mínar skoðanir endurspegli skoðanir ‘hópsins’ jafnvel þótt hópurinn sé stundum 2-3 hundruð manns úr ýmsum áttum, sem eiga ekkert sameiginlegt annað en að vilja spillinguna burt.
Í hvert einasta sinn sem ég er með í, eða viðstödd aðgerð koma fjölmiðamenn til mín og vilja fá mig til að tala. Mér lætur vel að tala en ég tel neikvætt að persónugera aðgerðir á þennan hátt og ætla ekki að gefa frekari tilefni til þess. Ég vil ekki að eitthvað sem ég hef einhverntíma sagt eða gert, verði til þess að fólk hætti að hugsa um merkingu aðgerðarinnar og fari þess í stað að velta sér upp úr einkalífi mínu. En það er líka önnur og eigingjarnari hlið á þessu. Ég hef sterkar skoðanir og mikla tjáningarþörf. Ég skrifa mikið og tala mikið og þótt ég sé upptekin af pólitík í augnablikinu hef ég líka ástríðu gagnvart ýmsu öðru. Ég vil gjarnan geta komið fram opinberlega án þess að það fyrsta og kannski eina sem fólki detti í hug sé ‘mótmælandi’.
-Ég þarf að gæta að öryggi mínu og annarra sem tengjast mér.
Fólk sem hefur róttækar skoðanir og framfylgir þeim, eignast bæði stuðningsmenn og óvini. Ég þoli nafnlaus sms og ógnandi tölvupóst ágætlega en ég veit ekki hversu vel ég myndi þola alvöru árásir og það má búast við að hvítliðar fari fljótlega að láta á sér bera.
Jafnvel þótt ég þyldi það sjálf, get ég ekki boðið fjölskyldu minni og nágrönnum upp á að gera þau eða heimili þeirra að skotmörkum fyrir geðbólgu einhverra vitleysinga. Ég get heldur ekki boðið mínum nánustu upp á að óttast stöðugt um öryggi mitt og ég vil ekki þurfa að gera sérstakar varúðarráðstafanir ef ég fer út að kvöldlagi.
-Ég bý í eftirlitssamfélagi og vil ekki gefa nýjum aðgerðasinnum ástæðu til að halda að það sé æskilegt að vera eins áberandi og ég hef verið.
Sannleikurinn er sá að ég hef farið mjög óvarlega. Að bera grímu í aðgerðum og leyna nafni sínu þegar maður tjáir róttækar skoðanir, er eins og að nota hjálm á mótorhjóli. Ég hef ekki gert það og afleiðingin er sú að ég get reiknað með að lögreglan viti ALLT um mig, jafnvel sálræna hluti sem ég geri mér ekki grein fyrir sjálf.
Sá sem er áberandi í mótmælum getur gert ráð fyrir því að allt sem skiptir máli í lífi hans verði skráð og skeggrætt og þeir sem hann umgengst geta einnig orðið rannsóknarefni. Við höfum enga ástæðu til að ætla að símahleranir hafi verið aflagðar síðan á dögum kalda stríðsins eða að öðrum tegundum persónunjósna sé ekki beitt. Það er orðið of seint fyrir mig að komast hjá því að sæta eftirliti en það er engin ástæða til að fleiri taki áhættu á því.
Á morgun kl 13 tek ég þátt í aðgerð við Landsbankann í Austurstræti, til að þrýsta á um að Elín Sigfússdóttir verði látin víkja. Við fáum að fylgjast með táknrænum gjörningi í boði alvöru aktivista, fólks sem talar ekki bara um hlutina heldur framkvæmir líka. Þótt þetta sé áhættulaus og fjölskylduvæn aðgerð, mun ég setja upp grímu, og hvet alla þá sem vilja að beinar aðgerðir verði áfram hluti af mótmælamenningu á Íslandi, jafnvel þótt þeir stundi þær ekki sjálfir, til að mæta með klúta, trefla eða grímur fyrir andliti, til að sýna stuðning sinn.
Ég mun ekki hætta að taka þátt í aðgerðum og ég mun ekki hætta að rífa kjaft. Það eina sem breytist er að ég mun ekki koma fram með andliti og undir nafni.
Lýkur svo hér með nafngreindum skrifum mínum um aktivisma á Íslandi, góðar stundir
——————————————————-
Mikið skil ég þig vel. Ég ber virðingu fyrir þér og syni þínum fyrir það að þora. Ég er skræfa sem þori ekki.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.1.2009 kl. 01:32
——————————————————-
Áhugaverð lesning. Áhyggjuefni um leið. Líst ekki á þetta með grímurnar, en skil vandamálið kannski betur en margir aðrir.
Þetta vandamál er nokkuð lýsandi fyrir smáborgarahugsun þjóðarsálar okkar sem spilltir pólitíkusar, fjármálasvín og fjölmiðlarnir hafa spilað inná til að upptroðnings á ótrúlegum leikritum í þeim tilgangi að mergsjúga þjóðina.
Það eru eins og þeir séu að reyna að kokka upp ófriðarbál hér með því að axla enga ábyrgð. Nokkrar greinar um þessi mál:
Ekkert breytist í spilltasta greni landsins
Hvar á ég heima? Áhugaverð grein um pólitíska hugmyndafræði sem þarfnast skýringa.
Grímklæddir mótmælendur og þorpsfífl til verndar fjölskyldunni
Höfnum spilltum pakkaferðum alþingismanna
Ástþór Magnússon Wium, 7.1.2009 kl. 01:37
——————————————————-
Ef þú ert skræfa er tvennt í boði, að vera skræfa áfram eða hætta að vera skræfa.
Hugrekki merkir ekki að þora allt og verða aldrei hræddur. Hugrekki merkir að maður viðurkennir ótta sinn, tekst á við hann og yfirstígur hann. Stundum þarf maðurhjálp til þess, stundum þarf maður að fikra sig áfram varlega en þegar maður tekst á við ótta sinn hverfur hann.
Svo er líka langt frá því að allir þurfi að leggja sig í hættu. Einn virkasti aðgerðasinni á Íslandi hefur sjaldan tekið þátt í hörðum aðgerðum. Hann hefur hinsvegar séð um skipulagningu á ráðstefnum, haldið námskeið, útbúið mótmælaborða, flutt fólk og tæki milli staða, you name it.
. (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 01:42
——————————————————-
Spurningin er hvort það sé ekki of seint í rassinn gripið Eva mín. Það þekkja þig orðið allir á yfirbragðinu einu saman.
kv,
Svanur Gísli Þorkelsson, 7.1.2009 kl. 01:54
——————————————————-
Ég skil þig vel Eva að hætta að koma fram undir nafni. Það þarf ekki nema einn til 2 rugludalla til að valda þér eða einhverjum þér nákomnum skaða og það er nóg af fólki sem er til í að gera það eins og ástandið er í dag.
Hannes, 7.1.2009 kl. 02:02
——————————————————-
Ég vona að ástandið verði ekki blóðugt. Ríkisstjórn án trausts er gagnlaus það er tilganglaust að reyna að byggja upp bankakerfi sem engin treystir. Ég hef ekkert á móti aðgerðum þar sem bónusfánar eru hengdir á alþingishús eða öðrum leikrænum gjörningum. En þegar múgæsingin kallar fram líkamsmeiðingar og skemmdarverk finnst mér of langt gengið.
Ég vona bara að ríkisstjórnin fari að skilja að það er ekki hún sem hefur völdin. Ég held að það sé hægt að fá hana til þess að skilja það án þess að beita ofbeldi eða skemdarverkum. Ég vona bara að ég hafi rétt fyrir mér með það. Ég hinsvegar skil vel ástæður þína að vilja setja upp grímuna og lái þér það ekki.
Offari, 7.1.2009 kl. 02:12
——————————————————-
Ef 98% þjóðarinnar trúir á málstaðinn, er eitthvað að ef menn þurfa að fela ásjónu sína við það mótmæla kúgun og geræði. Hingað til hef ég haldið að þeir sem bera grímur hafi verið úr minnihlutanum [2%] sem hefur misnotað traust og velvild fyrirverandi umbjóðanda sinna. Það er ekki svo að þjóðin vilji skammtíma yfirborðsbreytingar. Hún vill langtíma grunnbreytingar til handa sér og sínum afkomendum. Að afloknum lýðræðislegum hreingerningum þegar þjóðin hefur húsbóndavaldið og þjónarnir kunna að þakka fyrir sig og biðjast afsökunar á mistökum sínu: gerræði og ójöfnuði, þá verður þeirra minnst með virðingu sem ekkert hafa að fela. Að fela sig á bak við grímu það er hliðstætt því að villa á sér heimildir og það er einmitt sá minnihluti sem ég tel að þjóðin sé að mótmæla.
Grímurnar trekkja ekki að þær hafa hingað til fælt frá.
Júlíus Björnsson, 7.1.2009 kl. 02:29
——————————————————-
Þú bregst Herði Torfa.
Ari (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 03:01
——————————————————-
Skil þig.
Er samt ekki alveg búin að gera upp við mig hvort ég sé sammála…
Ari: Afhverju dettur þér í hug að Eva sé að bregðast Herði? Hefur hún gert einhvern samning við hann eða?
Hulla Dan, 7.1.2009 kl. 05:15
——————————————————-
Sæl Eva.
Minni á til öryggis að þátturinn er í Dag, miðvikudaginn 7. jan. milli kl. 16 og 18. Ekki á morgun einsog þú hefur óvart sett hér inná síðuna rétt eftir miðnætti
Hlakka til að sjá þig.
Sverrir Stormsker, 7.1.2009 kl. 05:55
——————————————————-
Mér þykir það miður að lýðræðisbarátta geti ekki farið fram grímu laus á Íslandi, en gjörðir valdhafa sem hæst mótmæla grímum eru sjálfar grímuklæddar. Á Íslandi eru menn ekki skotnir en sendir í svaðið með ýmsum grímuklæddum fjármála gjörningum og stjórnvalds aðgerðum.
Gleymum því ekki að nú þegar bankar eru komnir í ríkis eigu þá sitja núverandi valdhafar allan hringinn í kringum borðið og við utan þess. Þeir hafa líf þeirra sem skulda hinn minnsta eyri í vasanum. Það tel ég grunn ástæðu þess að fleiri sjást ekki á götum úti og gera allt vitlaust. Þeir þora ekki því þeir óttast um hag sinna nánustu.
Megi réttlætið sigra að lokum, með eða án grímu
e.s vilji menn lesa um grímuklædda byltingarmenn sem áttu sér (að einhverju leyti) líf eftir byltingu, þökk sé grímunni, legg ég til að menn leyti uppi Zapatistana í Mexicó
http://en.wikipedia.org/wiki/Zapatista_Army_of_National_Liberation
og um Marcos leiðtoga þeirra sem alla tíð hefur verið grímuklæddur enda eru menn ekki á eitt sáttir hvort þar fer einn maður eða fleiri, eða hvort hann hafi verið felldur eða ekki
http://en.wikipedia.org/wiki/Subcomandante_Marcos
Kristján Logason, 7.1.2009 kl. 06:09
——————————————————-
Heilalausir halda þeir
hana megi buga
Grímulaus ei gengur meir
galdrar verða að duga
megi gæfan gefa oss
gagnist grímu skari
ríkisstjórnar riðuhross
rjúki burt og fari
Kristján Logason, 7.1.2009 kl. 06:41
——————————————————-
Ég skil þig fullkomlega Eva – styð þig 100% útfrá þessum forsendum sem eru yfirvegaðar og heilbrigðar.
Það sést best á þessum nafnlausu tröllum sem stela umræðunni sem er málefnaleg og þeyta henni í hyldýpi fáfræði. Það tekur mikinn tíma að svara tröllunum og ef maður gerir það ekki – þá fær maður yfir sig aðra holskeflu af ógeði, í stað þess er sennilega best að einbeita sér að því sem er miklu meiri þörf á en að svara tröllum: að vinna að breyttu og bættara samfélagi. Eina leiðin til þess er að gera alls sem í okkar valdi stendur til að koma réttum upplýsingum til almennings og mótmæla á skrilljón ólíka vegu.
Birgitta Jónsdóttir, 7.1.2009 kl. 08:00
——————————————————-
Ég styð ykkur með mínum táknræna hætti; væri sjálfur með hulið andlit ef ég ætti heimangengt.
Skorrdal (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 08:48
——————————————————-
Þú ert nú meiri konan – þú ert rökvís manneskja Eva mín, þú mátt eiga það.
Gangi þér vel, með eða án grímu.
Ólína Þorvarðardóttir, 7.1.2009 kl. 10:33
——————————————————-
Mikið skil ég ykkur vel en afhverju beinast mótmælin eingöngu gegn Landsbankanum? Hvar er verið að mótmæla sukkinu í Kaupþingi og afhverju er ekki verið að einblína á Baugsbankann Glitni sem Jón Ásgeir og félagar áttu jú. Skil þetta bara ekki alveg.
Anna Jónsdóttir (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 10:53
——————————————————-
Anna. Eitt í einu. Það er af nógu að taka. Elín þarf að fara. Birna þarf að fara. Jónas og Jón þurfa að fara. Ríkisstjórnin eins og hún leggur sig. Seðlabankinn. Það þarf að kjósa inn á alþingi.
Mér hefur sýnst nýja Kaupþing á Íslandi vera með skásta móti, miðað við viðbjóðin sem grasserar annars staðar. Er einhver sérstakur þar sem þyrfti að fara? Lúxemborgar málið er viðbjóður en það er erfitt að benda á tengsl við nýja Kaupþing. Kristján Arason er farinn og nokkrir fleiri.
Nonni, 7.1.2009 kl. 11:07
——————————————————-
Partur af þvi að mótmæla með vitrænum hætti er að nota grímur… þeir sem eru á móti slíku eru einmitt á móti því vegna þess að þeir vilja oftar en ekki ná í viðkomandi og ná fram hefndum.
Haldið þið að það sé tilviljun að td mbl hafni nafnlausum skrifum akkúrat á þessum tímapunkti, hefur eitthvað kallað á að stoppa slíkt af… nop
DoctorE (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 11:16
——————————————————-
Þegar ég heyrði með að blýlóðum hafi verið kastað inn um gluggan í verslun þinni.. að þá fór ég að hugsa.. að eins og staðan er í þjóðfélaginu í dag.. er varla hægt að fara í rótæk mótmæli án grímu.
Hvort sem maður fer í gagnagrunn lögreglu.. eða á mann er ráðist af hagfræðingum Seðlabankans og svæfingarlæknum og svo framvegis. Ömurlegt ástand.
AceR, 7.1.2009 kl. 11:37
——————————————————-
Hugtök eins og aktívismi, anarkismi, kommúnisti, kapitalismi, sósialismi og flreiri mætti telja, eru hugtök sem menn velja sér til skilgreiningar og þá oftast til niðurlægingar á mótherja sínum, hvot er til dæmis Geir Haarde KOMÚNISTI EÐA KAPITALISMI? Svarið er sennilegileag bara STALINISTI, því hann beitir mörgum sömu brögðum og stalín gerði við mótherja sína í hans valdatíð, nema hvað hann sendir þá ekki fyrir aftökusveit með byssur, heldur háskólamenntaða RUKKARA, sem taka menn af lífi fjárhagslega og leggja heilu fjölskyldurnar í rúst og gefur svo loforð um betri tíð framundan. NEI við erum búin að heyra þetta skynbrenglunarORÐ alltof oft „góðæri“ sem var einungis skynvilla blindra sjálgræðismanna og framapotara. Ég í hjarta mínu er sjálfstæðismaður, þeas ég vil sjálfstætt Ísland, með sjálfstæðan efnahag, við eigum svo mikla fjársjóði í þessu yndislega landi okkar sem gæti gert okkur öll svo rík, við gætum verið hér FRÍRÍKI með gnægð matar, orku og hreinu vatni, auk þess sem við ættum að vera búin að finna olíuna fyrir löngu á Brekasvæðinu.
Gengi þetta eftir þá þyrftum við bara 21 þingmann til að halda stöðugleika og reka batteríið, allir gætu keyrt um á Rang Rover eða þaðan af líkum drekum og við værum vonandi ánægð með lífið. Það eina sem ég hefði áhyggjur af er LETI, því það þýðir samt ekki það að við þyrftum að hætta að vinna NEI, bara ekki eins mikið.
LIFI FRJÁLST ÍSLAND, LIFI LÍÐRÆÐIÐ !!!
Jón Svavarsson, 7.1.2009 kl. 12:26
——————————————————-
Júlíus, það er margt að. Eitt er að ef þú kemur fram til að gagnrýna stjórnvöld er umsvifalaust staðhæft að þú sért „athyglissjúkur“ sért bara að blása mál upp til að fá athygli, og svo er leitað einhverra óskyldra hluta um þig til að höggva þig með.
Jafnvel börnin þín og fjölskylda verða fyrir aðkasti, og þá erum við ekki farin að fjalla um atvinnumöguleika þína. Það er nefnilega þannig á hinu litla Íslandi umfram önnur lönd og stærri að hér er það raunverulega svo að valdamenn hafa samband og ein einföld og ljót setning í símtali merkir að við fyrstu mögulegu endurskipulagningu verður þessi maður/kona sem dirfðist … látin fara. – Eða aðrir umsækjendur bjóðast alltaf sem ekki hafa kallað á vanþóknun stjórnvalda.
ANdlitið er tæknivæddum stjórnvöldum þitt skilríki, – Og enn erum við ekki farin að tala um eftirlitsmyndavélarnar, greiningadeildirnar og tæknina – sem auðvitað er megin ástæða þess að ungt fólk sýnir stjórnvöldum fingurinn með þessum táknræna hætti að bera ekki skilríki sitt „andlitið“ utaná sér í mótmælum.
A.m.k. 10 ár eru síðan íslenskur hugbúnaðarsnillingur kom í viðtal við Fréttir RÚV og greindi frá að hann starfaði við það í USA að þróa áfram eigin hugbúna sem hann seldi stjórnvöldum til að greina sjálfkrafa öll andlit á eftirlitsmyndavélum, jafnvel á flugstöðvum og verslunarkjörnum þar sem mikill fjöldi fólks gengi framhjá samtímis þar greindi hugbúnaðurinn á augabragði öll andlit sem myndavélin næmi og bæri saman við gagnagrunna. – Hvert ætli sú tækni sé komin nú?
Ég lít á andlitsleysið sem andóf við „greiningaþörf“ tækniherja stjórnvalda, – og svei mér þá ef ég styð hana ekki, sérstaklega vegna áhuga Björns Bjarnasonar á vopna- og tæknivæðingu lögreglunnar, Andlitslausir mótmælendur eru ekki að brjóta neitt af sér þó þeir kjósi að flagga ekki sér sjálfum.
Og svo eru það bræðurnir Klemenssynir og þeirra líkir … þeir gerðu nú sitt til að leiða okkur til skilnings um við hvað er að fást.
Helgi Jóhann Hauksson, 7.1.2009 kl. 13:00
——————————————————-
Ég vil ekki að eitthvað sem ég hef einhverntíma sagt eða gert, verði til þess að fólk hætti að hugsa um merkingu aðgerðarinnar og fari þess í stað að velta sér upp úr einkalífi mínu.
Einhvern vegin hef ég frekar grun um að fortíðin hafi bankað á dyrnar hjá þér góða.
trína (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 15:02
——————————————————-
Trína, hver ert þú?
Helgi Jóhann Hauksson, 7.1.2009 kl. 15:07
——————————————————-
Jæja ég plögga vísunni góðu aftur, hún tekur vel á málinu
The right to be a cuttlefish
And hide behind my ink
May not appeal to everyone
Despite what I may think.
But having anonymity
Is useful, you may note—
That’s why we pull the curtain closed
Before we cast our vote.
The bully likes a public vote,
Each person known by name,
If someone feels intimidated
Shame on them! For shame!
They ought to have the strength to stand
Behind the words they speak!
(That way the votes go to the strong,
And rarely to the weak.)
Behind the voting curtain, though,
The votes all weigh the same—
Unless there’s something wrong with that,
You need not know my name.
And so I stand on principle
For any nom de plume—
A right to be anonymous
Is one I will assume.
I do not judge the reasons
Why some like it out of sight;
For me it is enough to say
It is their perfect right.
DoctorE (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 16:12
——————————————————-
Þetta grímustúss er mér óskiljanlegt. En auðvitað eru til rugludallar og full ástæða til að fara varlega.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.1.2009 kl. 17:28
——————————————————-
Þetta grímustúss er mér fullkomlega skiljanlegt. Rugludallarnir eru út um allt í ríkisstjórninni, valdaklíkum þjóðfélagsins og lögreglu yfirvalda.
Björgvin R. Leifsson, 7.1.2009 kl. 20:19
——————————————————-
Þetta er bara af því að mótmælendur eru hjarðdýr, ekki sjálfstæðir einstaklingar sem kunna að mynda sér skoðun á eigin forsemdum. Mótmælendur þurfa að hlusta á fólk sem það heldur að „viti sannleikann“ svo það geti apað sannleikan eftir einhverjum því, mótmælendur bera grímur svo það sé enginn sem standi út úr hópnum, mótmælendur eru líka á móti því að fólk hafi aðra skoðun en það sjálft af því að það er ógnun við hópeðlið. Mótmælendur ráðast líka á þá sem hafa aðrar skoðanir af því að þeir ógna hópeðli mótmælenda.
Sum hjarðdýr segja Meeee, sum Voff Voff, sum hreifa sig í ákveðnum mynnstrum. Mótmælenda-hjarðdýr hrópa bara slagorð saman og elta þann sem er fystur inn á borgina, eða seðlabankann.
Þetta hópeðli sem er búið að vera í gangi hjá ykkur er að drepa almenna umræðu þar sem er horft á staðreyndir, ekki shokgildi. Þetta hópeðli hefur orðið til þess að mótmælendur mynna mig frekar á fólk á leiðinni á nornabrennur en á mótmæli (samanber hópinn með kyndlanna við Borg).
það er eins og staðreyndir skipti ekki máli bara ef þið fáið að sjá blóð eða einhvern stikna á brennunni.
Bjöggi (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 20:26
——————————————————-
Takk Eva og félagar.
Þið eruð hluti af minni þjóð, með grímu eða án.
Ásta B (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 20:59
——————————————————-
Spurning hvað það er sem verið er að fela með grímustússinu. Sá sem mótmælir með ofbeldi er auðvitað öruggari með sig í sínu daglega lífi ef hann þekkist ekki í aktivisma sínum. Ég flagga skoðunum mínum óhræddur, enda meiði ég engan, né skemmi veraldlegar eigur fólks með þeim.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.1.2009 kl. 21:56
——————————————————-
haha, fyndnast finnst mér samt að sjá nafnlaus komment sem gagnrýna það að fólk sé með grímur…. þvílík hræsni!
Guðjón (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 22:44
——————————————————-
Helgi Jóhann, ég hef upplifað hvað það getur þýtt að hafa muninn fyrir neðan nefið og sætt sig ekki við að fá að hafa skoðanir sínar og tjáningarfrelsi í frið. Ég hélt að þetta væri liðið undir lok með hruninu sem fellt var á þjóðina. Ég tel líka að ofurvandamál þjóðarinnar núna hafi lítið með venjuleg stjórnmál sem snúa um að hafa áhrif í heilbrigðum skilningi. Þetta er tímar þar sem 98% þjóðarinnar er í vörn gegn byltingu [eignarupptöku og valskerðingu] ofurtækisfærissinnanna. Sigursveigarnir 98% þjóðarinnar munu taka völdin í sínar hendur og hún varla fara refsa þeim sem fylgdu henni að málum. Eðli BeauroK-rata ójafnaðarstéttarinnar kemur fram hjá einstaklingum í öllum stjórnmálafélögumflokkum og stéttum. Hér áður fyrr voru margir orðaðir við íhald. En tækisfærissinnar eru lunknir við að troða sér inn allstaðar þar sem sem ójafnastefnu þeirra [tækifæri útvaldra: ég er guð] getur þrifist.
Hinsvegar tók ég eftir því að ákveðin góð boð komust til skila hjá grímuklæddum við Landsbankann. Það er ofstækinu sem hingað til hefur þótt sjálfsagt. 98% þjóðarinnar grímulaus er það ekki of stór biti til að kyngja? En ég get því ekki gert neitt við því þó sumir séu ekki eins sigurvissir. Grímuklæddir geta líka þjóðnað hagsmunun byltingasinnanna sem hafa framið efnahagsleg hryðjuverk á 98% þjóðarinnar: húsnæðismissir, atvinnumissir, tekjumissir, heilsumissir, ástvinamissir eru það ekki nóg af dæmum um hryðjuverk. Íslendinga búa yfir gífurlegum fjármunum bundnum í auðlindum og eru með hæstu nettó þjóðarlandsframleiðslu í heimi á einstakling um 500.000 kr. á mánuði [er svört vinna og einkavinna ekki meðtalin]. Ef laun hækka almennt um 100.000 minnkar nettó þjóðarframleiðslan ekki nema um 30.000 á einstakling. [470.000 kr.]
Jöfn tækifæri allra einstaklinga til lífskjara miðað við auðlindir og nettó þjóðarframleiðslu.
Júlíus Björnsson, 8.1.2009 kl. 02:33
——————————————————-
Grímurnar burt!!!!!! Þeir sem mótmæla eiga að gera það án þess að fela sig, enda málstaðurinn góður þ.e. ef ekki er farið út í skemmdarverk og skrílslæti
Katrín Linda Óskarsdóttir, 8.1.2009 kl. 11:46
——————————————————-
Sæl dóttir góð, Grímur eða grímulaus? Ég hef svo sem enga ákveðna skoðun á því en skil vel afstöðu þína. Sennilegt tel ég þó að best sé að koma til dyranna eins og maður er klæddur, ja nema maður sé nýstiginn upp úr baði. Hún frænka okkar sem við fylgdum til grafar fyrir stuttu, sagði mér eitt sinn frá mótmælum sem hún tók þátt í einhverstaðar niðri í bæ fyrir löngu síðan. Þau mótmæli fóru friðsamlega fram þó að blöðin segðu annað daginn eftir atburðinn. Samt sem áður beitti lögreglan þá því sem kallað var táragas og ég hef auðvitað ekki hugmynd um hvort um sama efni er að ræða og nú er notað, en mér skilst að sé hræðilegt að fá upp í augun. Í byggingavöruverslunum má fá grímur úr plasti sem smiðir nota við vinnu sína t.d, þar sem verið er að saga. Þó ég sé skki með sögina á lofti svona yfirleitt, hef ég notað slíkan grip og get fullyrt að slík gríma hlífir augunum vel. Það fást líka grímur til að verja munn og nef á sömu stöðum og ég held að þetta kosti ekki mikla peninga, þó að allir hutir kosti raunar offjár í dag. Hvernig var það annars með hann Guðmund nokkurn Jónsson oft kenndan við Byrgið? Átti hann ekki að hafa eitt stórum upphæðum í grímur úr leðri, ef til vill á hann einhverja afganga sem hann gæti gefið til góðs málefnis? Nei þetta síðasta var nú bara djók. En í alvöru :Í öllum bænum farið þið varlega! Þú ert sannarlega rökvís og stendur með sannfæringu þinni. GANGI YKKUR VEL! Mamma.
Mamma (IP-tala skráð) 8.1.2009 kl. 13:44
——————————————————-
Þú átt mikið hrós skilið fyrir alla þá góðu vinnu og krafti sem þú hefur notað í baráttunni gegn spillingunni og vill ég hrósa þér fyrir það. Það er allt í lagi að mótmæla nafnlaust og augljóst að eftirlitsþjóðfélaginu er ekkert heilagt í sinni gagnasöfnun. Sú hræðsla er samt ekki algild og eflaust fleirri en 50% mótmælenda sem eru ekki með grímur. Það er til hópur ofbeldismanna/morðhunda sem vilja valda usla og átökum milli lögreglu og mótmælenda og eru grímurnar eimnitt mjög góður vettvangur fyrir þá. Ég læt fylgja dæmi þ.s. grímuklæddir under-cover lögreglumenn voru staðnir að verkum í mótmælum í Kanada 2007 og hélt einn þeirra á steini og var að reyna að fá riot-lögregluna til að ráðast á lýðinn, sem mestmegnis var ekki grímuklæddur. Það komst upp um þá og var ekki ráðist á almenning, í það skiptið. Endilega skoðið videóin :
Kær kveðja og Lifi byltingin!
Alfreð Símonarson, 9.1.2009 kl. 01:55
——————————————————-
Það er til hópur [ofbeldismanna/morðhunda] sem vilja valda usla og átökum milli lögreglu og mótmælenda og eru grímurnar eimnitt mjög góður vettvangur fyrir þá.
Eimitt eru til aðilar sem vilja hafa gang á áhrif mála. Halda mótmælum í lágmarki.
Útsendarar þeirra geta fyrst á ótrúlegustu stöðum með eða án grímu.
Júlíus Björnsson, 9.1.2009 kl. 11:17
——————————————————-
Eva, ég skil þig vel að vilja ekki blanda þinni persónu saman við málstaðinn, sérstaklega ef einhverjir vitleysingar hafa verið að valda skemmdum á búðinni þinni. Hvort er annars þykkara, andlitsklútar mótmælenda eða þeir lygavefir og valdníðsla sem stjórnvöld og aðrir fjárglæframenn fela sig nú á bak við?
„Við skulum ekki persónugera vandann“ – Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Guðmundur Ásgeirsson, 9.1.2009 kl. 12:55
——————————————————-
Má ég stinga upp á V for Vendetta grímu 🙂
DoctorE (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 13:20
——————————————————-
„Við skulum ekki persónugera vandann“
Ég hef enga sektar tilfingu enda nauðugur síðust 3 mánuðui búinn að kynna mér málið. Ákveðnar persónur misnotuðu traust 99,9% þjóðarinnar í það minnsta. Og framkvæmdu hluti sem þjóðin hefð aldrei samþykkt ef það hefði verið borið undir hana.
Hver talar fyrir sig.
Við eru ekki að tala um smáglæpi eins og svarta vinnu þegar skattar mismuna stéttum eða nótulaus viðskipta innan sömu fjölskyldu eða milli vinna.
Júlíus Björnsson, 9.1.2009 kl. 14:45
——————————————————-
Gangi þér allt í haginn, þú ert dugmikil og kjörkuð kona.
Ég skil ofurvel ástæðurnar sem þú gefur upp fyrir því að taka upp grímuna.
Gangi þér allt í haginn.
Aðgerðin við Landsbankann tókst frábærlega vel, að mínu mati!
Greta Björg Úlfsdóttir, 10.1.2009 kl. 14:15
——————————————————-
Tjásur af persónulega blogginu:
Hér er mjög góð og ódýr uppskrift að grímu:
http://www.entertheninja.com/ninja_fun/shirt_ninja.php
Og hér er önnur:
http://www.youtube.com/watch?v=uqocANM0lQQ
Posted by: Elías Halldór | 7.01.2009 | 11:15:48
——————————————————-
Kæra Eva.
Viltu vera svo væn að vera grímulaus áfram. Þótt ég skilji rökstuðning þinn fyrir því að láta andlit þitt hverfa þá virka grímurnar ógnvekjandi og breyta þeim sem mótmæla í andlitslausan múg sem virðist hafa eitthvað að fela. Þau mótmæli sem hafa farið fram og munu fara fram eru réttmæt og nauðsynleg og það er, að mínu mati, sterkara þegar mótmælendur eru tilbúnir að stíga fram fyrir skjöldu sem þeir sjálfir.
Víkingasveitin er ekki einungis grímuklædd til að vernda þá sem í henni eru heldur er gríman líka hluti að sálfræðihernaði. Fyrir okkur sem mætum á mótmælafundi þá er okkar sálfræðihernaður sá að við eigum að koma fram undir nafni. Við höfum ekkert að fela. Við erum reið við ákveðum sjálf hvernig og hvort við tjáum okkur en við verðum að koma fram sem við sjálf.
Ég geri mér grein fyrir því að andlitsleysið er líka vopn en stærsta hættan sem fylgir því að hyljast á bak við grímu eru auknar líkur á ofbeldi þegar mótmælendur eru orðinn einslitur andlitslaus múgur ekki lengur samansafn einstaklinga.(http://psy.ex.ac.uk/~tpostmes/PDF/postmesspearsPcychBull98.pdf)
„Individuals behave almost as if ‘submerged’ in the crowd. They experience a reduction of inhibited behavior and inner
restraint, as well as a heightened freedom to engage in aggressive and other deviant
behaviors. Factors like anonymity play a role in their behavior, as the individual believes
that darkness, disguise, masks, uniforms, or the sheer number of other participants will
render them almost invisible. Due to this personal responsibility is minimized. An
individual may reason that if they do not burn that store, then somebody else will anyway“
(Goldstein, 1994).
Posted by: Þröstur „Spörri“ Jónasson | 7.01.2009 | 20:16:15
——————————————————-
Andlitsleysi er vopn og kænska sem ber að nota gagnvart stjórnvöldum. Almenningur ætti að geta gert sér vel grein fyrir því að grímuklæddir mótmælendur berjast mót ríkisstjórninni en ekki þeim sjálfum.
Þröstur, ef þér er svo í mun að halda einhverju ‘andliti byltingarinnar’ sem almenningur, fjölmiðlar og aðrir nota sem skotspón til að níðast á eða hetju til að fylgja, þá mæli ég með því að þú takir að þér það hlutverk sjálfur í staðinn fyrir að segja öðrum hvað þeir eiga að gera.
Posted by: Nafnlaus byltingarsinni | 7.01.2009 | 22:30:20
——————————————————-
Þar að auki ber að nefna að ef mótmælendur notfæra sér ekki andlitsleysi hjálpa þeir lögreglunni í að grafa undir sér sem persónu og málstaðnum. Þar að auki neitum við okkur aðgang að einu af fáum áhrifaríkum, ofbeldislausum vopnum sem við höfum afnot af.
Posted by: Nafnlaus byltingarsinni | 7.01.2009 | 22:34:32
——————————————————-
Mér finnst ekkert verra að grímurnar virki ógnvekjandi og breyti okkur í andlitslausan múg.
Posted by: Trylltur skríllinn | 7.01.2009 | 22:57:19
——————————————————-
Kæri Nafnlausi Byltingarsinni.
Ég held áfram á mínum forsemdum og þú á þínum.
Mig langar hvorki til að verða andlit byltingar né heldur að hún hafi eitt ákveðið andlit svo ég virði þessa ákvörðun og skil hana, amk í þessu ákveðna tilfelli.
Tryllti skrýlinn verður bara trylltur skrýll áfram.
Posted by: Þröstur „Spörri“ Jónasson | 7.01.2009 | 23:59:04
——————————————————-
Að yfirvöld viti hvað þú ert að hugsa, að þau hleri símann þinn að lögreglumenn séu heilaþvegnir, viljalaus verkfæri og til að toppa allt þá líkir þú löggunni óbeint við nasista sem drápu gyðinga í gasklefum. Allt þetta og margt fleira á blogginu þínu segir mér að þú þurfir aðstoð. Það er hægt að fá lyf þegar að vænisýki og ofsóknarkennd ná yfirhöndinni. Ef þú virkilega skoðar sjálfa þig hlutlaust þá ert þú ekki gera neitt sem kallar á þessi hughrif þín. Það eru draumórar að þú sért byltingarforingi sem fasísk lögregla hafi ofuráhuga á. Þú ert stödd í eigin hugarheimi en ekki raunveruleikanum sem venjulegt fólk hér á Íslandi býr við.
Posted by: Grímur | 8.01.2009 | 0:07:57
——————————————————-
Kæra Eva!
Takk fyrir að súmmera upp ástæður nafnleysis. Gangi þér vel!
Grímur: Þú berð nafn þitt einstaklega vel!LIFI BYLTINGIN!
Posted by: Kolla | 10.01.2009 | 17:58:57
——————————————————-
sakna þín,og takk
Posted by: hok | 17.01.2009 | 14:09:18