Svar til Siggu

Einhver Sigga spyr í þessum svarhala, hvert ég hafi hringt þegar rúður voru brotnar í búðinni minni.

Í báðum tilvikum hringdu nágrannar fyrst í lögregluna og svo í mig. Ég hefði að sjálfsögðu hringt í lögregluna vegna þess að til þess að húseigandinn fái tjónið bætt, þarf lögregluskýrsla að liggja fyrir.

Ég hefði hinsvegar ekki hringt í lögregluna ef það væri ekki vegna slíkst formsatriðis. Þar með er ég ekki að segja að það séu ekki rétt viðbrögð að hafa samband við lögreglu ef einhver angrar mann, lemur, stelur frá manni eða ógnar friðhelgi heimilis. Ég myndi ekki gera það sjálf og dettur t.d. ekki í hug að tilkynna þeim um hótanir og þess háttar bögg sem ég hef ekki farið varhluta af, vegna þess einfaldlega að ég treysti lögreglunni ekki lengur.

Þegar maður stendur mikið í því að berjast gegn valdastofnunum og fyrirtækjum, áttar maður sig smámsaman á því að megintilgangur lögreglunnar er ekki sá að vernda óbreytta borgara, heldur að tryggja völd fámennra hópa.

Bara þetta fremur ómerkilega rúðubrotsmál felur í sér lítið dæmi um siðferði lögreglunnar. Seinni nóttina ók einn af mínum aðstandendum mér niður á Vesturgötu og var mjög brugðið við að sjá að sömu aðilar höfðu verið á ferð og nóttina áður. Hún spurði lögregluna hvort mætti ekki skoða eftirlitsmyndavélar sendiráðanna í nágrenninu til að hafa upp á þeim. Löggan hnussaði eitthvað um að það væri nú varla hægt að fara fram á slíkt út af rúðubroti. Hún benti manninum á að þetta væri ekki handahófskennt rúðubrot einhvers fylllirafts sem hefði gengið hjá, þar sem verkfærin sem notuð voru liggja ekki af tilviljun á götunni og hvort þeir ætluðu bara að bíða með að gera eitthvað í málinu þar til yrði ráðist á mig. Hún fékk ekki einu sinni svar. Ég þarf ekkert á lögreglunni að halda þótt einhver angri mig, ég hef alltaf getað passað mig sjálf. Mér finnst hinsvegar ólíklegt að einhver ráðherranna eða bankaráðsmanna hefði fengið þessa afgreiðslu.

Rétt eftir að löggan var farin ók bílinn sem nágranninn hafði séð rúðubrotsmenn fara inn í á nýársnótt fram hjá. Nágrannakona mín hringdi í lögguna og lét vita af því að þeir væru þarna á ferðinni. Ég hringdi svo í næsta dag og spurði hvort þeir hefðu fundið þá. Sá sem varð fyrir svörum sagði að þeir væru með bílnúmerið og að málið væri ‘í vinnslu’. Þá var ég löngu búin að finna ýmsar upplýsingar um eiganda bílsins sjálf. Ég skil ekki alveg hversvegna þarf vinnsluferli til að hafa samband við eiganda og spyrja hverjir hafi notað bílinn undanfarnar 2 nætur en velti því fyrir mér hvort vinnsluferlið hefði kannski farið í gang strax ef þetta hefði verið stórfyrirtæki. Í gær mánudag heyrði ég ekkert frá lögreglunni um þetta mál, og reikna fastlega með að þurfa að taka á þessu máli sjálf.

Hugmynd Siggu um lögregluna er sú að hún haldi uppi lögum og reglu og að ég trúi ekki á lögin í landinu. Það er rangt að ég trúi ekki á lög og að ég vilji enga lögreglu. Sum lög eru nauðsynleg og eingöngu til þess sett að vernda réttindi allra og þeim lögum ætti fólk að fylgja. Dæmi um þetta eru umferðarlögin. Vandamálið liggur í því að til eru lög sem eru eingöngu sett til að tryggja yfirvöldum, stofnunum og stórfyrirtækjum, jafnvel auðugum einstaklingum af réttum uppruna, völd. Slík lög ber siðmenntuðu fólki að brjóta, því að öðrum kosti mun enginn endir verða á ranglæti og hörmungum.

Vald spillir og valdamafían getur svo beitt fyrir sig lögreglunni, einu mönnunum í samfélaginu sem hafa lagalegan rétt til að beita valdi og vopnum og eru heilaþvegnir til þess að framfylgja hvaða skipun sem er, án þess að þurfa að eiga það við samvisku sína eða taka nokkra persónulega eða siðferðilega ábyrgð á gjörðum sínum. Við skulum athuga að þeir sem leiddu Gyðinga í gasklefana voru líka ‘bara að vinna vinnuna sína’.

Að sjálfsögðu þurfa þeir sem berjast gegn valdhöfum að verjast blóðhundum þeirra líka. Það merkir ekki að maður vilji útrýma öllum hundum þótt maður sé á móti því að þeir séu þjálfaðir til árása eða maður telji ótækt að nota hund til smalamennsku eða annarra gagnlegra starfa. Það er þvert á móti gott mál að lögreglan haldi uppi þeim lögum sem ætluð eru til þess að vernda borgarana og á því sviði gerir lögreglan margt vel. Þeir standa sig t.d. ágætlega í gangbrautavörslu við grunnskóla.