Takmörk virðingar minnar fyrir tjáningarfrelsinu

Fyrir tæpu ári fékk ég á mig mjög sérkennilega skítapillu. Eitthvað í þá veruna að ég væri að safna undirskriftum fyrir ‘einhverjar búrkukerlingar’ (um var að ræða undirskriftasöfnun fyrir konu sem átti að grýta til bana) á sama tíma og íslenskum konum væri nauðgað. Það gekk fram af mér.

Þetta var ekkert í fyrsta sinn sem aðrir reyna að leiðbeina mér um það hvaða málefni séu þess virði að berjast fyrir þeim en það einkennir þá sem hafa svona sterkar skoðanir á því hvar ég ætti að beita mér, að hafa sjálfir sjaldan ef nokkurntíma lyft litla fingri í þágu grasrótarstarfs. Þetta rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar ég átti samræður við íslenskan karlmann sem er yfir sig hneykslaður á þeim sem berjast fyrir betri menntun og heilsugæslu kvenna í þriðja heiminum, á meðan hann sjálfur þarf að skrimta af atvinnuleysisbótum. Það gekk líka fram af mér.

Ég er almennt frekar hlynnt tjáningarfrelsi en þó finnst mér að í ákveðnum tilfellum ætti fólk bara að hafa vit á því að halda sér bara saman. Ég virði rétt annarra til að gagnrýna grasrótarstarf en ég áskil mér rétt til að þagga niður í fólki sem sendir mér skilaboðin ‘fyrst mitt líf er ekki fullkomið, hefur þú engan rétt til að standa með einhverjum öðrum’. Nú hefur þetta sjálfsvorkunnarsyndrom gengið fram af mér tvisvar sinnum á 10 mánaða tímabili og minn mælir er bara fullur, svo það er best að ég gefi út leiðbeiningar fyrir þá sem vilja komast hjá því að vera rassskelltir opinberlega.

-Sá sem agnúast út í annað fólk fyrir að vinna gegn fátækt í heiminum, fyrirgerir rétti sínum til að nöldra yfir því að atvinnuleysisbætur séu of lágar.

-Sá sem gagnrýnir þá sem vinna að betri menntunarmöguleikum fyrir fólk í vanþróuðu ríkjunum, fyrirgerir með því rétti sínum til að nöldra yfir takmörkuðum menntunarmöguleikum sínum.

-Sá sem tuðar yfir því að aðrir standi fyrir fjársöfnunum til að bjarga mannslífum og styrkja heilbrigðisþjónustu meðal fátækra, fyrirgerir sér rétti sínum til að kvarta undan þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann nýtur sjálfur.

-Sá sem fyrirlítur störf þeirra sem vinna að réttindum flóttamanna og pólitískra fanga, fyrirgerir sér réttinum til að emja undan réttarfarinu í sínu eigin ríki.

-Sá sem hæðist að þeim sem vinna að umhverfisvernd, fyrirgerir rétti sínum til að kvarta þegar ofnýting auðlinda leiðir til verðhækkana.

-Sá sem gerir lítið úr starfi hernaðarandstæðinga, fyrirgerir rétti sínum til að kveina yfir flóttamannavandanum og kostnaði við neyðarhjálp vegna styrjalda.

-Sá sem gagnrýnir aðra fyrir að vinna gegn ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist, fyrirgerir rétti sínum til að kvarta yfir því að hann sjálfur og hans fólk njóti ekki nægilegrar verndar.

Framvegis mun ég skeiða fram hjá allri tillitssemi við tilfinningar þeirra sem gera sig seka um væl af þessu tagi.
Góðar stundir og þakka þeim sem hlýddu.