Ljóð handa fiðlara

Svo tónar þínir ljóð mitt galdri glæði
ég grönnum boga snerti fiðlustrengi
sem styður þú með liprum fingrum lengi
uns líf mitt faðmar þitt í söng og kvæði.

Og ef þú heyrir annarlegan tón
sem ekki fellur rétt að þínu lagi
það gæti verið tónn af æðra tagi
þá titrar barmur Óðreris við Són.

Því ég skal gjarnan verða þín ef viltu
vekja hjá mér meira en orðin tóm
og finna þína fingurgóma loga.

Þá komdu nær og strengi þína stilltu
ég strjúka skal úr hverjum þeirra hljóm
því fiðla þín er fánýtt hjóm án boga.

Næturljóð

Mild,
hljóð,
ljúf,
læðist nóttin inn um gluggann.

Hlý,
mjúk,
þung,
læðist nóttin inn í hugann.

Og hún sveipar mig værð og hún fyllir mig friði
og augunum lokar svo enginn mig sér.
Og hún gefur mér tóm til að syrgja og sættast
við frumstæðar kenndir sem krauma í mér.
Því myrkrið er mjúkt og í mýkt þess er varin
sú mynd sem í birtingu brotnar sem gler.

 

Gímaldin samdi síðar annað lag við þennan texta og gaf út árið 2012.

Kvæði handa pysjupeyja

Húm yfir Heimakletti
hnigin er sól við Eyjar
merla sem máni á sjónum
malbikið ljós frá húsum.
Lundi úr holu heldur
hafið svo finni kofa.
Pysja í ljósið leitar
lendir í húsasundi.

Skríður í skugga, hræðist;
skyldu ekki svalar öldur
færa henni fisk að óskum
freyða við klett og eiði?
Finnur þá frelsi minna
fangin af höndum ungum;
pysjuna Eyjapeyi
passar í nótt í kassa.

Austur af Vestmannaeyjum
eldar af nýjum degi.
Krakkar í fríðum flokkum
fjöruna prúðir þræða.
Kofa mót himni er hafin
heimkynni rétt svo nemi,
syndir á sjónum lundi
svífur að kvöldi yfir.

Eygi stjörnum ofar 

Eygi stjörnum ofar
aðra tíma og betri
vor að liðnum vetri
vekur nýja trú.

Ljósi og birtu lofar
lífsþrá raddar þinnar,
svarthol sálar minnar
söngvum fyllir þú.

Og neindin, full af næturgalans kvaki
niðamyrkrið gegnum fer að skína,
þótt ég sofi samt er líkt og vaki
sál mín, hverja nótt við hljóma þína.

Úr dvalanum ég rís og dýpra smýgur
dagsins ljós, að rótum sálar minnar,
hjarta mitt úr fjötrum brýst og flýgur
frelsins á vit og ástar þinnar.

Allri lofgjörð æðra
yndi rödd þín hrærir,
sól úr skýjum særir
syngur dögun óð.
Meðal minna bræðra
mig þú fundið hefur
tóm mitt töfrum vefur
tóna þinna flóð.