Tilbrigði við barnagælu

Litli gimbill, landið mitt,
liðið er bráðum sumrið þitt
nú mega sandar svíða
lappir og haus á lambinu mínu fríða.

Gimbilinn skal nú skera og flá,
skinnið hans saltar hélan grá.
Leitar sér fleiri lamba,
Landsvirkjun inn í Ver með kuta og kamba.

Litli gimbill, landið mitt,
látum virkja blóðið þitt
svo Evrópa megi úr áli,
framleiða fleiri vopn handa Pétri og Páli.

Nú er kátt í hverjum hól
kjötið má reykja fyrir jól.
Una því ánægð börnin.
Arfurinn þeirra er gollurinn og görnin.

Litli gimbill, landið mitt,
þótt leggist rotta á hræið þitt
og éti með tryggðatröllum,
klingir kátt í sjálfstæðissauðabjöllum.

Hirðskáldið

Væri ég hirðskáld virt og dáð
vildi ég rómi digrum
hylla kóngsins heillaráð
og hampa hans fræknu sigrum.

Trúum þegnum traust og hald,
tryggir blessun mesta,
kóngsins æðsti vilji og vald
viska og framsýn besta.

Aldrei skugga á hann ber
eilíft nafn hans lifir
því skáldsins æðsta skylda er
hans skít að klóra yfir.

Og falli kóngsins frægðarsól
þá feikinn orðsins kraftur,
skáldsins kvæði og háfleygt hól
hefj’ann á stallinn aftur.

Væri ég hirðskáld harla gott
ég hetjukvæði syngi
um drengilegust Davíðs plott
og djörfung hans á þingi.

Vald og heiður víst ég tel
að vera í hirðskálds sporum.
Því dróttkvæðin mín duga vel
Davíð, kóngi vorum.