Ókunnug kona hefur skráð þig sem vin

Á þessum árum frá því að ég uppgötvaði vefbókina, hef ég eignast nokkra bloggkunningja. Slík sambönd verða til á svipaðan hátt og önnur kunningjasambönd. Ég sé áhugavert komment frá Siggu á blogginu hans Jóa, les bloggið hennar Siggu og svara færslu frá henni, set kannski tengil á hana á mitt blogg, hún fer að lesa mína vefbók og einn daginn er kominn tengill á mig á bloggið hennar. Tengsl hafa myndast. Stundum slitna þau strax, stundum styrkjast þau. Halda áfram að lesa

Klipp

Ég þarf að fara til háraðgerðafræðings. Hef ekki farið í klippingu í 8-9 mánuði og ég er með hár sem er álíka gróft og kóngulóarvefur og slitnar hraðar en það vex. Höfuðgæran á mér á semsé lítt slikt við heilbrigði og silkiglans þessa dagana. Hlynur er hættur og ég er nánast í sorg yfir því. Mér finnst miklu verra að láta ókunnugt fólk vesenast í hárinu á mér en að fara í krabbameinsskoðun.

Gottámig

Mig verkjar í vöðva sem ég vissi ekki að ég hefði. Og neinei, það stendur ekki í neinu sambandi við sundurliðaða rúmið mit enda hafa allir mínir bólfimivöðvar haft mjög ötulan einkaþjálfara síðustu mánuði. Það eru vöðvar í herðum og handleggjum sem æpa nánast sjálfir við hverja hreyfingu og það er algerlega sjálfri mér að kenna. Ég sleppti því að teygja mig eftir æfingu. Ekki spyrja hvað ég var að hugsa, það hefur augljóslega verið allt annað en gáfulegt.

Brumknappar

Mér finnst svo gaman að umgangast hana Borghildi systur mína þessa dagana. Fólk sem er upplýst og víðsýnt og hefur kynnt sér málin frá aðeins öðrum sjónarhornum en maður sjálfur er yfirleitt áhugaverður félagsskapur og þegar við bætist löng hrina af góðum ákvörðunum og heillavænlegri afstöðu til manna og málefna, þá finnur maður líka fullt af hlutum sem maður gæti sjálfur breytt hjá sér án mikillar fyrirhafnar. Velgengni er smitandi og systir mín hefur allt aðrar og miklu skynsamlegri hugmyndir um velgengni nú en fyrir tíu árum. Halda áfram að lesa

Sálfræði tragedíuplebbans

Tragedíupleppinn er algeng manngerð sem hefur þó ekki fengið verðskuldaða athygli innan sálarfræðinnar. Tragedíuplebbinn er gjarnan afkastakátur moggbloggari, duglegur við að endursegja fréttir af hneykslismálum, ofbeldismálum og ýmsum hjákátlegum uppákomum en forðast allar umræður sem krefjast þess að hann noti í sér heilatuðruna til að afla upplýsinga og mynda sér sjálfstæðar skoðanir. Halda áfram að lesa

Lausar skrúfur

-Get ég aðstoðað, spurði afgreiðslumaðurinn, þar sem ég stóð við skrúfurekkann í Byko og reyndi (greinilega með góðum árangri) að líta út eins og bjargarlaus kona.
-Mig vantar svona skrúfur með hvössum enda, eins og t.d. þessar, en það þarf líka að vera ró eða eitthvað svoleiðis til að halda á móti, sagði ég.

Halda áfram að lesa

Sukk

Í augnablikinu vantar ekki koffein í kerfið. Reyndar ekki sykur og rjóma heldur. Ég fékk omelettu ala Pegasus og páskaegg í morgunmat, hnetukrems- og súkkulaðiköku í hádeginu og svo vorum við að koma frá pabba og Rögnu sem buðu okkur í kaffi og rjómapönnukökur á nýja heimilinu í Kópavogi.

Í augnablikinu er Walter að slíta út einkalíkamsræktarstöðinni sinni á efri hæðinni. Ég er hinsvegar að brúna kartöflur. Einhvernveginn grunar mig að ég muni borða megnið af þeim líka.