Ég stend í eilífu stríði við pöddur og vírusa og hef því verið að hugsa um að fá mér Makka, sem ku víst ekki vera jafn lúsasækinn. Bar málið undir tölvugúrú tilveru minnar um daginn og það var engu líkara en að ég hefði Sússað í návist kaþólskrar nunnu. Jújú, hann skrifar svosem alveg undir að þar sem ég noti tölvur svo til eingöngu til ritvinnslu og geri fátt annað á netinu en að blogga, lesa blöðin og skrifa tölvupóst, þá geti Makkinn svosem dugað en Pésinn sé samt sem áður einfaldlega betri. Hvað það merkir er hinsvegar eitthvað óljóst. Hann heldur því líka fram að þótt Makkinn sýkist síður þá geti það alltaf gerst og það sé bara meiri háttar aðgerð að laga það.
Ég hef ekki heyrt neinar sjúkrasögur af Makkatölvum en ég þekki heldur engan sem notar Makka. Hef grun um að þessi andúð vinar míns á Makkanum eigi meira skylt við trúarbrögð en reynslu en velti því líka fyrir mér hvernig standi á því að Pésinn, iðandi af ógeðspöddum, sé svona miklu vinsælli. Er það vegna tölvuleikjafíknarfjandans eða er hann „einfaldlega betri“? Viðbrögð óskast.