Móðursýkin

Sonur minn Byltingin og Rósin sluppu lifandi úr eldsvoða nú um daginn. Gistu í trjáhýsi í 10-12 metra hæð og Haukur vaknaði við sviða í kokinu. Allt fullt af reyk og mér skilst að það sé ekkert grín að brölta hóstandi í gegnum brennandi tuskur og greinar og þurfa svo að klifra niður úr háu tré í niðamyrkri. Þau sluppu samt ósködduð og skógurinn líka. Af öllum frábæru ævintýrunum sem hann er búinn að segja mér frá er þetta það eina sem ég sé virkilega fyrir mér.

Rósin farin til Indlands og Byltingin einn á þvælingi um Evrópu. Mér fannst skárra að vita af honum með henni. Vil bara fá hann heim aftur sem fyrst og vita hann sofa innan dyra í alvöru húsi, þar sem er til sjúkrakassi og borða óhollan mat sem er búið að elda og setja á disk en ekki eitthvað gras sem hann finnur á víðavangi. Og svo vil ég líka fá að geyma vegabréfið hans sjálf.

 

Syntax error

Ég hef oft kastað ástargaldri. Ekki nýlega að vísu, því ég er ekki rétt innstillt þessa dagana, en ég reyndi 4 sinnum árið 2006. Þótt aðrir galdrar hafi verið mér frekar auðveldir á síðasta ári, hefur ástargaldurinn bara fært mér menn sem eru að vísu stórfínir en hafa bara engin áhrif á hormónastarfsemina í mér og svo einn fávita sem hypjaði sig brott af eigin frumkvæði áður en nokkur skaði var skeður. Halda áfram að lesa

Trúarbrögð

Ég stend í eilífu stríði við pöddur og vírusa og hef því verið að hugsa um að fá mér Makka, sem ku víst ekki vera jafn lúsasækinn. Bar málið undir tölvugúrú tilveru minnar um daginn og það var engu líkara en að ég hefði Sússað í návist kaþólskrar nunnu. Jújú, hann skrifar svosem alveg undir að þar sem ég noti tölvur svo til eingöngu til ritvinnslu og geri fátt annað á netinu en að blogga, lesa blöðin og skrifa tölvupóst, þá geti Makkinn svosem dugað en Pésinn sé samt sem áður einfaldlega betri. Hvað það merkir er hinsvegar eitthvað óljóst. Hann heldur því líka fram að þótt Makkinn sýkist síður þá geti það alltaf gerst og það sé bara meiri háttar aðgerð að laga það.

Ég hef ekki heyrt neinar sjúkrasögur af Makkatölvum en ég þekki heldur engan sem notar Makka. Hef grun um að þessi andúð vinar míns á Makkanum eigi meira skylt við trúarbrögð en reynslu en velti því líka fyrir mér hvernig standi á því að Pésinn, iðandi af ógeðspöddum, sé svona miklu vinsælli. Er það vegna tölvuleikjafíknarfjandans eða er hann „einfaldlega betri“? Viðbrögð óskast.

 

Sendi fávita í fýluferð

Ef einhver segði mér allan sannleikann um sjálfan sig í netspjalli þætti mér hann annaðhvort óvenju óspennandi eða afspyrnu heimskur. Sennilega hvorttveggja. Ég reikna ekki með að fá rétta mynd af manni í gegnum msn. Ef það væri hægt gæti maður allt eins stofnað til internethjónabands. Ég ætlast ekki til að í lífi manns á fertugsaldri sé allt slétt og fellt, er ekki einusinni viss um að það væri eftirsóknarverður karakter en ég ætlast hins vegar til þess, þegar einhver vill hitta mig, að þær upplýsingar sem hann gefur mér áður standist. Halda áfram að lesa