Ljónakaramella

Maðurinn sem getur alveg sofið við hliðina á mér segir að varir mínar bragðist eins og karamellan í Lion-Bar. Vanilla eða hunang hefði kannski verið rómantískara en þar sem hann fílar Lion-Bar í ræmur er ég sátt við þann dóm.

Ég er búin að vera að sleikja á mér varirnar í allan morgun og ég finn nú bara venjulegt varabragð.

Lífið hefur allajafna verið næs við mig en þessa dagana líður mér jafnvel betur en venjulega.

 

Stefnum hærra

Manninum ku víst vera eiginlegt að setja sér markmið. T.d. að ljúka doktorsprófi eða verða Ólympíumeistari. Ég hef líka markmið. Ég ætla að vera algjörlega laus við appelsínuhúð (fallegt orð yfir mörkögglaáferð) á afmælinu mínu. Allt útlit er fyrir að ég nái því löngu áður.

Kannski ætti ég að setja mér aukamarkmið svo ég koðni nú ekki niður í vesældóm og hégómaleysi. Ég gæti t.d. sett mér það markmið að hengja upp úr þvottavélinni áður en þvotturinn fer að mygla.