Gættu að því hvað þú gerir kona!

Sonur minn Sérvitur kom heim um miðja nótt, lyktandi eins og hangikjötslæri. Hafði farið með Björgunarsveitinni upp á Tindfjöll og lent í ævintýri sem fól í sér reykjandi kamínu.

Í morgun kom hann svo fram og beindi haukfránum sjónum sínum að stólbaki þar sem hann hafði skilið jakkann sinn eftir um nóttina. Urraði vonskulega og krafði mig skýringar á fjarveru þessa góritex dýrgrips. Ég tjáði honum að úlpan væri að sjálfsögðu í þvottavélinni enda hefði hún lyktað eins og reykhús.

Hann gekk af hverjum einasta gafli sem finnanlegur er í húsinu. Hvort ég væri endanlega búin að missa það. Gerði ég mér ekki grein fyrir því að útivistarfatnaður væri viðkvæmur og þyldi ekki þvott? Ég vissi ekki alveg hvort ég átti að hlæja, gráta eða fela mig þegar froðan tók að leka út um munnvikin á honum. Þessi flík hefur auðvitað margoft verið þvegin í þvottavél enda er hún ekki úr kanínuull. Ég spurði hvort hann héldi í alvöru að sérhannaður útivistarfatnaður þyldi ekki bleytu en hann stóð á því fastar en fótunum að ég væri búin að eyðileggja bæði úlpuna og lífshamingju hans. Að lokum sótti ég aðra flík úr sama efni og bað hann vessgú að lesa þvottaleiðbeiningarnar. Hafi hann verið æstur áður tók nú steininn úr. „DO NOT CLEAN!“ orgaði hann og brann eldur úr augum. Ég tók flíkina af honum og las hátt og skýrt „Do not dry clean“, sýndi honum svo miðann sem sýnir þvottabala merktan 40°C. Hann heldur því ennþá fram að úlpan þoli ekki þvott.

Hann heldur því reyndar líka fram að klifurbúnaðurinn hans sé svo viðkvæmur að hann þoli ekki að vera færður úr stað.

 

One thought on “Gættu að því hvað þú gerir kona!

  1. ——————————–

    Posted by: baun | 11.03.2007 | 22:48:05

    ——————————–

    Hreint dásamlegt! Hvað sagði hann þegar hann sá úlpuna?

    Posted by: Þorkell | 11.03.2007 | 23:23:48

    ——————————–

    Hann grandskoðaði hana og komst að þeirri niðurstöðu að hún væri allt að því ónýt. Hér eftir myndi rigna inn í hana eldi og brennisteini. Úlpan hefur að vísu oft verið þvegin án hans vitundar og hingað til hefur hann ekki kvartað um neinn skyndiskaða.

    Posted by: Eva | 12.03.2007 | 9:31:34

    ——————————–

    Híhíhí… Bið að heilsa í bæinn! Híhíhíhí.

    Posted by: Þórunn Gréta | 13.03.2007 | 10:50:13

Lokað er á athugasemdir.