Skýring

Af hverju datt mér ekki strax í hug það augljósa? Talan stemmir við pund en ekki kg. Líklega hefði ég áttað mig á þessu strax ef ekki hefði staðið 21,6 kg á blaðinu heldur bara 21,6. Af hverju hef ég svona sterka tilhneigingu til að trúa öllu sem ég les?

Í dag er ég væmin

Var búin að skrifa færslu sem var svo löðrandi í þakklæti og kærleika að hún hefði sómt sér prýðilega upplesin í mærðartón á Lindinni. Ég hafði nú sem betur fer rænu á því að eyða henni. Allar tilfinningar eiga rétt á sér en framsetningin má ekki vera þannig að maður æli yfir sitt eigið blogg.

Má samt til að koma því á framfæri að lukkan er með mér í liði og virðist ætla að yfirtaka jafnvel það svið tilveru minnar sem gegnum tíðina hefur valdið mér mestum sársauka.

Valdi rétt :-)

Í gær skildi ég Lærlinginn eftir einan með 20 manna hóp af því ég þurfti sjálf að nornast annarsstaðar. Ég ætlaðist ekki til annars af honum en að hann kláraði prógrammið, gerði upp og lokaði búðinni. Átti von á öðrum hópi í morgun en lenti í ófyrirséðum töfum og sá fram á að verða allt of sein. Salurinn auðvitað í rúst og ég hafði ekki tekið símanúmer hjá þeim sem voru að koma með mér heim, svo ég gat ekki látið þau vita að mér hefði seinkað. Sá fram á hyperstressandi dag. Nema hvað. Einhver hefði verið feginn að komast snemma heim á föstudagskvöldi en þegar ég loksins kom á staðinn, korteri áður en hópurinn átti að mæta, þá var bara allt fullkomið. Búið að þvo upp og ganga frá salnum, svo það eina sem ég þurfti að gera var að laga jurtaseyði.

Þeir sem vöruðu mig við því að ráða ungling í vinnu geta hér með étið það ofan í sig. Þessi piltur hefur gagnast mér betur en 5 andlegar kerlingar með doktorsgráðu hefðu nokkurntíma gert.

 

Pósa

Hafði séð mig fyrir mér liggjandi í mosató. Renna saman við landslagið eins og hvern annan hraunklump. Það varð ekki alveg þannig. Þegar ég kom á staðinn var strákurinn sem átti að pósa með mér að koma sér fyrir til að prófa stellinguna. Flott uppstilling, það vantaði ekki og ég er venjulega áræðin en tilhugsunin um að detta beint niður með höfuðið á undan var satt að segja dálítið ógnvekjandi. Halda áfram að lesa

Út með ruslið

Stundum þarf maður að losa sig við eitthvað sem maður hefur haldið mikið upp á af því að það er orðið ónýtt og gagnast manni ekki lengur. Gerir jafnvel meiri skaða en gagn. Maður geymir t.d. ekki myglaða köku. Stundum er svosem hægt að lappa upp á það sem hefur skemmst. Einu sinni átti ég t.d. fallega Alparós sem fékk lús. Ég hefði sennilega getað drepið lúsina með dálítilli vinnu en rósin skipti mig ekki nógu miklu máli til þess að ég væri tilbúin að til að hafa pöddur á heimilinu svo ég henti henni. Halda áfram að lesa

Alveg að fara að flytja

Ég afhendi íbúðina um mánaðamótin. Finn samt ekki fyrir neinum flutningakvíða, kannski af því að við Anna ætlum saman í helgarferð um leið og ég er búin að skila lyklunum og ég hlakka svo mikið til þess að ég er hreinlega á hjólum. Ég lifði á galdraráðstefnunni síðasta haust fram að jólum en nú er ég farin að þurfa sárlega á tilbreytingu að halda.

Talandi um flutninga: Ég þarf að losa mig við stórt amerískt hjónarúm, borðstofustóla, lítið nett sófasett, þvottavél, kæliskáp og uppþvottavél. Áhugasamir sendi póst á eva@nornabudin.is