Ég held að ég sé búin að finna uppskriftina að vel heppnuðu djammi. Hún hljóðar svo:
Undirbúningur: Brauðsneið með hnetusmjöri, létt andlitsförðun.
Klæðnaður: Það sem hendi er næst (reyndar eftir að maður hefur komið því í verk að setja svitastokkinn æfingagalla í þvottakörfuna, það eru takmörk fyrir því hversu kærulaus maður getur verið um útganginn á sér) og skór sem hægt er að ganga á án þess að eiga á hættu að hálsbrjóta sig.
Félagsskapur: 1 skemmtileg kona og hugsanlega 1 stimamjúkur barþjónn. Aðrir karlmenn skulu hundsaðir, einkum og sér í lagi ef þeir eru drukknir, illa lyktandi og vilja sitja sem þéttast upp við mann og fræða mann um enska knattspyrnu.
Veitingar:1 léttvínsglas, 1 dísætur kokteill, 2 konfektmolar.
Staður: Reyklaus.
Tími: 21:30-00:05
Heimferðarmáti: 90 sekúndna ganga.
Það var milljón gaman og ef ég finn færri en 5 innsláttarvillur í þessari færslu í fyrramálið, þá er það til marks um að ég sé hæfilega full líka.
Er farin í rúmið. Líður svo vel að ég nenni ekki einu sinni að jesússa mig.