Morkinskinna

Yndið mitt

Öllum konum finnst gaman að heyra að þær séu sexý. Hvort sem það stenst eður ei. Ég veit að ég get litið þokkalega út í þröngum gallabuxum og finnst það gaman. Hitt get ég sagt þér að æskudýrkun á sér mjög svo rökréttar skýringar. Konur verða alveg jafn ógeðslegar með aldrinum og karlar. Lærin á mér minna á Hraun í Öxnadal og þótt ég sé ekki stór, hefur Málarinn stórkostlegt vinnurými á bringunni á mér og næstum niður að mitti án þess að mjólkurkirtalbungurnar séu að þvælast fyrir. Halda áfram að lesa

Nýtt leikrit

Líkami minn var skekinn eldingu þegar rann skyndilega upp fyrir mér að leikritaskrif síðustu ára höfðu fleiri hliðar en ég áttaði mig á og að höfundur verksins var þar ginningarfífl númer eitt, tvö og tíu. Maður heldur að maður sé að skrifa sápuóperu tilveru sinnar en kemst að raun um að maður er fastur í einhverri allt annarri sápuóperu þar sem aðrir hafa skrifað fyrir mann hlutverk sem er manni ekki að skapi. Ég efast æ meira um raunveru mína utan vefsögunnar. Hef bókstaflega engst af ógeði, skrifað eins og vindurinn, svitnað og skolfið, skitið og ælt, þambað vatn í lítravís til að þorna ekki upp. Slitið hjartanu jafn mikið á tveimur dögum og í venjulegri álagsviku. Samt ekki komið miklu í verk. Halda áfram að lesa

Nett pirrandi…

…er nokkuð lýsandi orðalag þegar 22ja manna kaffihópur frestar dæminu, eftir að ég er búin að baka 3 tertur sem ég hef ekki frystipláss fyrir, hafna öðrum hóp, afþakka matarboð og kalla Lærlinginn í kvöldvinnu. Part af programmet auðvitað en ekki alveg minn uppáhaldspartur. Bót í máli að þetta skuli gerast akkúrat eftir tveggja nátta geðprýðiandvöku.

Þetta verður samt góður dagur. Mammonsmessa í undirbúningi (ég verð einhvernveginn að þakka honum fyrir Búðarsveininn, það er dæmi sem skítvirkar) og fullt af góðum hlutum alveg, alveg, alveg að fara að gerast.

Tjúúúún!

Stundum held ég að ég sé orðin svo sjóuð í því að takast á við ákveðin tilfinningaferli að ég geti hlaupið yfir viðkomustöðvar. Mér fer fram, vissulega. Í dag staldra ég t.d. við afneitun í tvo eða þrjá tíma og kyngi svo, í stað þess að taka marga mánuði í að velta mér upp úr efum sömtum og jáenum eins og fyrir 10 árum. Halda áfram að lesa

Kýrhausinn

Sumir eru heppnari en aðrir en enginn er alltaf heppinn. Sá sem virðist alltaf heppinn er að öllum líkindum búinn að skipuleggja heppnina fyrirfram. Á mannamáli heitir það að svindla. Það er heldur enginn alltaf óheppinn. Það er mjög erfitt fyrir venjulegt fólk að skilja hversvegna sumir virðast skipuleggja óhöpp en það er til. Alveg eins og fólk sem meiðir sig viljandi.

Lífið er saltfiskur

Maðurinn sem kryddar allt með salvíu er að koma í bæinn. Mér skilst á Önnu að hann sé jafn girnilegur og saltfiskurinn sem hann eldar og hún hefur mun heilbrigðari hugmyndir um karlegan þokka en ég.

Sjálf sé ég ekkert nema fermingardrengi. Ég er svo hrifin af fermingardrengjum að ég safna þeim. Ég á fulla skápa af léttsöltuðum fermingardrengjum. Stundum hef ég fermingardreng í matinn.

Það hlýtur að teljast mjög borgaraleg nautn.