Krísan

Ég hef mjög mikla þörf fyrir að hafa rétt fyrir mér. Þessvegna finnst mér alltaf svolítið sárt að átta mig á því þegar mér hefur skjátlast. Þegar mér hefur skjátlast um eitthvað sem skiptir máli, t.d. pólitíska sannfæringu, fjármálin mín eða eðli og innræti þeirra sem ég hef álit á, tek ég það virkilega nærri mér.

Rökréttara væri auðvitað að upplifa það sem mikla frelsun að hafa loksins séð hlutina í réttu ljósi. Og það kemur. Bráðum.

Breaking the mold

-Þegar ég sá þig fyrst hugsaði ég með mér að þú værir engin norn. En nú veit ég ekki hvað ég á eiginlega að halda, sagði Salvíumaðurinn þegar hann kvaddi.

Hvað hann átti við með því veit ég ekki. Kannski var kaffið kynngimagnað. Ég gaf honum kaffibolla en við áttum engin frekari samskipti. Ég fann ekkert að honum sem er kannski merkilegt út af fyrir sig. Yfirleitt er ég fljót að finna lúsersflötinn á annars æðislegum manni.

Og það varð ljós

Rafmagnssnúruflækjumartröð tilveru minnar er á enda. Málarinn reddaði því eins og öðru. Nú sést hvergi snúrugöndull, hvorki í búðinni né heima. Svo er hann líka búinn að setja lýsingu í glerskápinn og hillurnar svo nú getur fólk séð það sem það er að kaupa án þess ég hafi þurft að fórna stemmningunni. Þetta getur ekki endað í öðru en fullkomnun. Halda áfram að lesa

Fyrirlestur um illskuna

Einhver dýpsta speki bókmenntasögunnar kemur fram í Hafinu.

-Hefurðu einhverntíma vitað mann, sem misnotar ekki aðstöðu sem hann er í aðstöðu til að misnota?

Árni kallinn ku víst vera uppreistur. Hversu margir ætli þeir séu sem hafa vit á því að hylja slóð sína nógu vel til að þurfa ekki á því að halda að vera reistir upp. Hversu margir eru annars í aðstöðu til að misnota aðstöðu sína? Halda áfram að lesa