–Ég hef saknað þín.
-Það þykir mér vænt um.
-Hvað var þetta? Kaldhæðni?
-Heldurðu?
-Æi, viltu ekki dylgja við mig. Ég skil ekki dylgjur. Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir merki: Óbærilegur léttleiki
Flúin frá Satni
Framvegis mun Nornabúðin fagna 18. október til minningar um að þann dag beið ég í síðasta sinn í 20 mínútur eftir því að ná sambandi við þjónustuver Satans.
Ég er semsagt búin að flytja viðskipti búðarinnar til OgVodafone. Netið var tengt í dag og allt er fullkomið. Ef Vódafónn reynast mér ekki verr en Síminn (og það tel ég ótrúlegt þar sem ég hef aldrei átt viðskipti við nokkurt fyrirtæki sem veitir jafn lélega þjónustu) mun ég flytja heimasímann minn með öllu tilheyrandi þangað í desember, um leið og ég losna undan samningnum við Satan.
Og klára svo dæmið!
Lögmál:
Ef þú vilt fá eitthvað gert í hvelli, gerðu það þá sjálfur. Það tók mig 3 klst að vinna verkefni með skærum, penna og límstauk, sem prófessjónall með fullkomin tæki hefur ekki komist í á tveimur mánuðum.
Annað lögmál:
Ef þú ræður ekki við verkefnið, biddu þá einhvern sem er mjög upptekinn. Þeir sem hafa nægan tíma vita að þeir geta alltaf gert það og finna sér því eitthvað annað að dunda við. Þeir sem hafa engan tíma setja hinsvegar verkið á áætlun. Hið uppteknasta fólk reynist oftast örlátast á frítíma sinn.
Hvaðan kemur smekkurinn?
Þegar ég flutti út föðurhúsum breyttist mataræði mitt töluvert. Hýðishrísgrjón hvítlaukur, kjúklingabaunir og sveppir höfðu aldrei tekið pláss í skápum föður míns. Orafiskbollur í nærbuxnableikri sósu hef ég eldað einu sinni og makkarónusúpu einu sinni á þessu 21 ári, í báðum tilvikum að ósk annarra.
Ég hef hingað til haldið að kynslóð foreldra minna hefði almennt lélegan matarsmekk. Í dag horfi ég inn í minn eigin kæliskáp, fullan af einhverju kekkjóttu karrímauki með kóríanderlufsum, oblátum á stærð við pönnukökur, masókistapipar og jafnvel risastórri krukku af litlum grænum ertum og allskonar öðrum mat sem ég skil ekki. Ég hef oft velt því fyrir mér hver kaupi eiginlega svona mat. Svarið er fundið; það eru drengirnir mínir. Börnin sem ólust upp við milda pottrétti með mjúkri rjómasósu, svikinn héra, bakaðar kartöflur, gratíneraðan karfa, pasta með parmesanosti …
Er bragðskyn virkilega ekki félagsleg erfð?
Hönd
Ken birtist ásamt vafasömu föruneyti, ber fram bónorðið og bloggheimur þyrpist út á svalir til að sjá þegar hann kveður Engilinn (ekki engil með húfu samt) og tryllir svo burt á þeim illilega. Halda áfram að lesa
Að hylja naflann
Afmæli Önnu. Bloggheimur mættur í grímubúningum og það virðist viðeigandi. Við erum uppdiktaðar persónur, allavega að nokkru leyti og gervið má nota til að viðhalda ákveðinni fjarlægð. Gott ef mér finnst ekki hálfóþægilegt þegar ég kynni mig sem Sápuóperu og viðmælandinn spyr um eigið nafn. Halda áfram að lesa
Jól í aðsigi -ííííts!
Ég sá á blogginu hennar Rögnu að þar á bæ er jólakortagerð að hefjast. Mikið lifandis skelfing eru þessar konur duglegar. Ég tel mig góða ef mér tekst að hefja jólaundirbúning 10. desember. Þegar ég verð búin að jafna mig eftir þetta smá slys sem ég lenti í um daginn (hélt að það væri bara smáskeina en reyndist hafa skorið inn í bein) og get farið að þrífa af einhverju viti heima hjá mér, get ég litið á það sem forstigsjólahreingjörning.
Kannski get ég notað dauða tíma í búðinni til að láta Búðarsveininn föndra fyrir mig jólakort. Það yrði fróðlegt að sjá útkomuna. Hann er listrænn strákurinn, samdi m.a. texta sem heitir „Ég elska að ríða Satan“ fyrir metal-hljómsveitina sína. Ég held samt að það sé ekki jólalag.