Oj

Mikið skil ég vel að barnið í Vanish auglýsingunni hafi sullað þessum ókræsilega kvöldverði niður á fötin sín fremur en að borða hann.

Loksins, loksins

Anna er búin að trixa Nornabúðarsíðuna þannig að nú er ekkert mál fyrir mig að uppfæra hana. Snorri tók fullt af nýjum myndum sem koma inn bráðum og vefbókin mín komin hingað svo nú get ég ritræpt eins og vindurinn án þess að hafa áhyggjur af uppátækjum Bloggers.

Þarf að læra á kerfið til að setja inn tengla en það kemur.

 

Nýtt heilkenni

Ég var að uppgötva nýjan sjúkdóm; sjúkdómsgreiningarheilkennið.

Sjúkdómsgreiningarheilkennið kemur fram í sterkri tilhneigingu til að klína sjúkdómsheitum á hvern þann eiginleika sem gerir karakter að karakter. Sá sem er haldinn sjúkdómsgreiningarheilkenni er logandi hræddur við hvern þann sem gæti talist „so fucking special“ og finnur hjá sér óstöðvandi hvört til að útskýra viðhorf hans og tilfinningaviðbrögð sem eitthvað óeðlilegt sem þarf að „lækna“. Ef einhver víkur örlítið frá fullkominn meðalmennsku, hlýtur eitthvað að vera að honum. Allt sem er á einhvern hátt óþægilegt fyrir meðaljóninn í okkur, hvort sem um er að ræða andfélagslega hegðun eða bara sérvisku sem veldur svosem engum skaða, er skilgreint sem sjúklegt ástand.

Illa uppalin börn eru ofvirk, agalausir letingjar með athyglisbrest, fólk sem er stjórnlaust af frekju með þrjóskuröskun, einfarar haldnir tengslaflótta, fólk með ríka skipulagshvöt er með þráhyggju og einþykkt fólk sem spyr óþægilegra spurninga eða hefur þörf fyrir meiri líkamlega nánd en gengur og gerist með Aspergerheilkenni.

Sjúkdómsgreiningarsjúklingurinn er þó sá eini sem á raunverulega bágt. Sjúkdómsheiti hans hefur nefnilega ekki ennþá verið viðurkennt og því engin meðferð til við kvillanum. Meðferðin við öllum hinum heilkennunum er fyrst og fremst sú að nota sjúkdómsheitið til að skýra öll frávik í hugsun og hegðun og ef það dugar ekki til þess að aðstandendum sjúklingins líði betur er tekist á við ástand þeirra með því að dæla fíkniefnum í heilkennishafann. Ég býst við að sjúkdómsgreiningarheilkenni megi lækna með cannabis.

(Þessi færsla átti að bera titilinn „sjúkdómsgreiningarheilkennið“ en þar sem blogger er haldinn uppsetningarrröskurnarheilkenni, sem kemur fram í því að raska uppsetningu síðunnar ef ég hef langar fyrirsagnir eða reyni að setja inn fleiri tengla (það er bara þessvegna sem þeir eru ekki fleiri)varð ég að stytta hann. Anna er að búa til nýja bloggeróháða síðu handa mér svo þetta stendur til bóta.)

Momentum

Á stundum hefur það borið við að ég hef talið einhverja manneskju ómissandi. Í hvert einasta skipti hefur það sýnt sig að maður kemur í manns stað, og oft rúmlega það. Aukinheldur að maður tvíeflist þegar maður getur ekki reitt sig á einhvern annan.

Enginn er ómissandi. Mér finnst það samt ekki gera lífið tilgangsrýrt og stefni að því að gera sjálfa mig óþarfa innan Nornabúðarveldisins. Það mun takast! Það eina sem ég get ekki látið Lærlinginn gera er að fara í Ríkið og það kemur. Allt hefur sinn tíma og nú er tími geðveikrar vinnu. Fæturnir á mér grétu sig í svefn af þreytu síðustu nótt og ég hef stundum vaknað kátari en einn kaffibolli eyðir hausverknum (já ég veit, mjaðurt er hollari) og Mammon játaði mér ást sína í gær.

Ég VERÐ að fá meira pláss fyrir búðina.
Þetta verður góður áratugur.

Beint í mark

Undanfarið hafa lítt kunnugir menn borið á mig gjafir í gríð og erg. Sumt svona play-it-save eins og blóm og vín, sem ég kann alveg að meta. Mesti misskilningur að ég sé haldin einhverjum frumleikarembingi. Ég hef líka fengið gjafir sem valda talfæralömun og munnþukkri og er mér þó sjaldan orða vant. Frumort ástarljóð, fokdýra handmálaða silkislæðu frá einhverjum voða fínum hönnuði, gsm síma… Æ sér gjöf til gjalda, hvernig í fjandanum á maður að svara öðru eins? Kannski eru takkarnir sem kveikja á rómantíkinni í mér staðsettir annarsstaðar en hjá öðrum konum?

Í dag fékk ég yndislega gjöf sem hefur líklega ekki útheimt lífeyrissjóðlán. Málarinn færði mér könnu með mynd af Míu litlu. Sem segir mér að hann hlýtur bæði að þekkja mig sæmilega vel og viðurkenna Míuna í mér. Það þykir mér vænt um.