Annar þjófur

Síðustu nótt braust einhver inn í búðina mína án þess að valda neinum skaða svo vitað sé. Í nótt hafði einhver fyrir því að rífa númeraplötu af bílnum mínum og leggja hana snyrtilega ofan á toppinn.

Ef bíllinn hefði staðið við búðina eða á planinu fyrir framan blokkina þar sem ég bý, hefði ég velt því fyrir mér hvort sama fólk hefði verið að verki. Ég hef hinsvegar ekki trú á því að ég eigi svo ötula umsátursmenn að þeir hafi komist að því að ég yrði niðri í miðbæ, á bílnum, í nótt. Ég er ekki beinlínis þekkt fyrir djammfíkn og hef ekki rætt áform mín um að verða mér úti um lungnakrabba og skítalykt í kvöld, við neinn nema Önnu. Tel því ósennilegt að nokkur tengsl séu á milli þessara atburða, nema þá helst táknræn. Þau eru hinsvegar staðfesting þess að ég hef dottið niður á sérdeilis góðan þjófagaldur.

Hefndin er sæt

Á menningarnótt í fyrra stal einhver bastarður frá okkur einum steini. Ég lagði umsvifalaust á hann álög og síðan hefur hann þjáðst af krónískum njálg.

Eins og allir vita vinnur hvannarfræ gegn njálg og ég held að líklegasta skýringin á þessu innbroti í nótt sé sú að þjófurinn sé orðinn örvæntingarfullur og hafi brotist inn í von um að losna við njálginn. Það mun líka heppnast en fagnaðu ekki of fljótt gæskur. Næst skal ég útvega þér lús. Stökkbreytta afbrigðið.

Þjófagaldurinn virkaði

Í nótt var framið innbrot í Nornabúðina. Glugginn hefur verið spenntur upp, greinilegt mar eftir verkfæri og gluggatjaldið og hreindýrshornið sem hékk í honum hefur hrunið niður.

Ekkert var skemmt og eftir gaumgæfilega leit sjáum við ekki að neitt hafi verið numið á brott, nema hugsanlega einn pakki af hvannarfræi en það er sú jurt sem minnst selst hjá okkur.

Fórnarsjóður Mammons er á sínum stað og ekki að sjá að neitt hafi verið tekið úr honum. Kassinn óopnaður og öll skiptimyntin í honum. Tölvan óhreyfð og ekkert sem bendir til þess að hafi verið átt við nokkurn hlut, hvort sem um er að ræða litla fjörusteina eða fokdýra listmuni.

Þjófagaldurinn virkar.

Norn óskast til starfa

Nú þarf ég að kynnast duglegri konu sem getur þrifið, bakað, farið í sendiferðir, lesið í bolla og tarotspil eða kristalskúlu eða einhvern fjandann, bruggað töfradrykki, útvegað flotta steina, fjaðrir, klær og tennur, séð um bókhaldið, sýnt fólki með vandamál lifandi áhuga og þagað yfir leyndarmálum, saumað, málað rúnasteina, sagað og borað, selt galdrauppskriftir og listmuni, haldið stutta fyrirlestra og verið skemmtileg allt að 14 tíma í senn, allt saman fyrir fimmhundurð kall á tímann. Má ekki vera fíkill (tóbaksfíklar eru líka fíklar), fátæklingur eða dramadrottning og ekki beina vinnufíkn sinni að einhverju öðru fyrirtæki en mínu.

Þeir sem þekkja brjálaðan vísindamann sem gæti búið til svona konu handa mér eru beðnir um að hafa samband.

Undir skrúfjárninu

Ef nokkuð er heimilislegra en karlmaður með borvél, þá er það karlmaður með skrúfjárn, sem gengur um íbúðina, herðir skrúfur og leitar að verkefnum.

Mammon vissi hvað hann var að gera þegar hann sendi mig til Málarans.

Já, bæ ðe vei, ég sagði HEIMILISLEGT, ekki æsandi.

Píííp!

-Kærastakandidat? spurði Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni.
-Nei, þetta var bara Málarinn. Hann ætlar að fixa pípulagnirnar hjá mér.

Löng þögn.

-Bara vinnuskipti yndið mitt. Hann er sómamaður og það er ekkert á milli okkar.
-Ekkert nema pípulagnir.

Löng þögn.

-Pííííííp!
-Þegiðu eða ég flengi þig.
-(Fliss) Spurning hvort okkar hefði meira gaman af því.
-Taktu þetta glott af andlitinu drengur.
-Ókei kennari. Það er bara svo skondið þetta táknræna samhengi þitt.

Á bak við borvélina

Mikið óskaplega er heimilislegt að hafa karlmann með borvél á heimilinu. Karlmenn ættu alltaf að hafa borvél innan seilingar. Eiginlega ætti karlmaður að fylgja hverri borvél.