Angurgapi

Er nokkuð að marka þetta? Er þetta ekki bara óttaleg vitleysa, hnussaði Angurgapinn og geiflaði sig af hneykslan þess sem þarf ekki að kynna sér hlutina áður en hann dæmir þá.

Venjulega útskýri ég hugmyndafræðina í stuttu máli en þessi var greinilega bara komin til að fá útrás fyrir einhverja geðbresti og það eru takmörk fyrir því hversu langt ég nenni að ganga í samfélagshjálpinni.

Jafnvel þótt ég væri nógu galin til að byggja rekstur fyrirtækis á tómri vitleysu, væri ég samt ekki nógu heimsk til að viðurkenna það svaraði ég drungalega og gaut augunum illilega á hana.

Hún keypti reykelsi. Þefaði ekki einu sinni af þeim fyrst.

Skilnaðarblús

Í síðustu viku sölsaði ég undir mig Nornabúðarveldið. Nú þarf ég bara að finna meðeiganda sem nennir að standa í því að hnattvæða dæmið.

Ef búðin væri þegar orðin hnattræn (eða „global group“, svo maður tali nú skiljanlegt mál), gæti ég fundið meðeiganda í gegnum raunveruleikaþátt. Fyrsta verkefnið yrði að leggja tarotspil fyrir Birgi Baldurs. Ekki af því að ég hafi unun af því að horfa á fólk þjást (ég hef það vissulega en einmitt þessvegna voru bollgaggið og pískurinn sett á markað), heldur til að útiloka miðlamafíuna og finna fólk sem getur staðið með mér án þess að þurfa vikulega áfallahjálp.

Ég hef komist að því síðustu daga að skilnaður við viðskiptafélaga er meira vatnslosandi en netluseyði. Munurinn á þessu og skilnaði við fávita af loðnara kyninu er sá að viðskiptafélaginn hefur hvorki umgengnis- né forsjárskyldu gagnvart afkvæminu.

Sem betur fer er samt allt í góðu á milli okkar og ég reikna með einhverju samstarfi áfram. Og það er nú gott því ég elska Spúnkhildi meira en búðina. Ef það er þá hægt.

Afrek dagsins

Sögulegur atburður hefur átt sér stað. Ég innbyrti mat sem inniheldur fleiri næringarefni en hvítan sykur og coffein.

Ég hef aldrei átt erfitt með að treysta fólki. Enda er fólki almennt treystandi. Fólk bregst nánast aldrei af því að það sé illa innrætt, heldur vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Í augnablikinu á ég ponkulítið erfitt með að treysta aðstæðum þeirra sem hafa lýst yfir áhuga á samstarfi. Það er nefnilega fyrirsjáanlegt að aðstæður gætu orðið óviðráðanlegar.

Ég er satt að segja búin að fá af óviðráðanlegum aðstæðum í bili.

Á framabraut

Nú er ég farin að fá æsispennandi tilboð um að gefa líknarfélögum vinnuna mína. Það hlýtur að merkja að ég sé álitin listamaður. Aldrei leit nokkur maður á mig sem listamann á meðan ég var bara ljóðskáld.

Gerðu áhugamál þín að bissniss og þú verður álitinn listamaður.

Púff!

-I don´t play games, -segir sjálfviljugur þátttakandi í battsjellorþáttunum. Og dindilinn sem kom sér sjálfur í þá aðstöðu að þurfa að hafna sæg kvenna, segist ekki vilja særa neinn.

Eru það bara fávitar sem vilja vera með í þessum þáttum?

Afmælis

Nornabúðin er orðin einsárs.

Á þessu fyrsta starfsári hefur margt gerst sem skiptir máli. Við erum búnar að gera allskyns hluti sem iðnaðarmenn eru lengur að, stækka búðina, búa til fullt af allskonar og uppgötva fullt. Það er samt þrennt mikilvægt sem okkur hefur ekki tekist á þessum 365 dögum:

-Við erum ekki ennþá búnar að fá nafnspjöldin sem Prentmundur lofaði okkur fyrir mörgum mánuðum og þóttist m.a.s. einu sinni vera búinn að prenta.

-Við erum ekki búnar að fá stimpil með lógóinu okkar. Heiða pantaði reyndar stimpil en fékk hann afgreiddan með lógói fyrirtækis við Laugaveg sem hvorug okkar hefur nein tengsl við. Við vildum hann ekki.

-Við erum ekki búnar að fá afsláttarkort hjá Bílastæðasjóði. Reyndar erum við búnar að borga fyrir símastæði en það virkar ekki og þeir sem sitja fyrir svörum hjá Bílastæðasjóði, virðast allir vera náskyldir þessum tveimur starfsmönnum sem voru á launaskrá hjá Þjónustuveri símans á síðasta ári, eða allavega með sama syndromið.

Þetta verða sumsé baráttumál næsta árs.
Ég er allavega staðráðin í því að næsta árið skal ég hvorki flísaleggja né brjóta veggi. Helmingur mannkynsins er hannaður til þess að sinna slíkum verkefnum og ég fylli EKKI þann helming.

Ég gaf búðinni minni heftara í afmælisgjöf. Hún hefur nefnilega ekkert með hring að gera. Ég elska búðina mína.

Spurning

Nú fer að styttast verulega í það að ég fái sama syndrom og Anna, sem kiknar í hnjánum þegar hún sér Mustang. Mustang er nefnilega svo illilegur, segir hún. Að vísu er ég líklegri til að falla fyrir laglegu reiðhjóli en Mustang. Vinkonum mínum mun aldrei stafa ógn af mér þegar karlmenn eru annars vegar.

Síðast þegar ég vissi var Sæti Sölumaðurinn í útlöndum með syni sínum. Líklega ekki í lopapeysu samt. Hann hlýtur að vera kominn heim aftur, eða alveg að koma heim. Hólí fokk. Maðurinn á barn á réttum aldri og sinnir því m.a.s. Einhverntíma hef ég kiknað í hnjánum af ómerkilegra tilefni.

Versta helvíti að handlaginn heimilisfaðir er efstur á óskalistanum hjá mér en Sæti Sölumaðurinn segist hinsvegar vera að leita að einnota dræsu. Spurning hvort ég ætti að bregða mér í gærugallann og láta reyna á staðfestu hans gagnvart því markmiði.

Hann kann hvort sem er áreiðanlega ekkert á borvél.