Ákall til íslenskra kynvillinga

Ég hef séð tvo þætti af Auga öfuguggans. Þar er sko þjónusta sem ég væri til í að hafa aðgang að.

Plííís! Ef glaðbeittur hópur íslenskra kynvillinga er að hugsa um að búa til svipaða þætti hér heima, má þá sonur minn Sveitamaðurinn vera fyrsta verkefnið?

Afrek helgarinnar

Fór með Ökuþórinn á Geisjumyndina á föstudagskvöldið. Ég átti ekki von á japanskri mynd og ætla því ekki að svekkja mig á því þótt hún eigi meira skylt við amríska kvikmyndagerð. Sem slík er hún bara mjög vel heppnuð. Endirinn að vísu full amrískur fyrir minn smekk. Halda áfram að lesa

Launahækkun

Uppfinningamaðurinn hækkaði launin mín. Ég hef aldrei áður haft vinnuveitanda sem tekur það upp hjá sjálfum sér.

Nei, ég beitti ekki galdri til þess.
Hinsvegar ætla ég að galdra marga peninga handa honum á sunnudaginn, og hamingju líka. Ég held að hann langi í svoleiðis.

Spáð í stjörnurnar

Gulli stjarna tók viðtal við mig og útbjó stjörnukort sem er birt ásamt túlkun á sama stað.
Karakterlýsingin kemur skemmtilega á óvart.

Hún er ekki fullkomin en þó ekki óáreiðanlegri en mörg persónuleikapróf sem byggja á spurningum. (Þá er ég ekki að tala um quizilla heldur alvöru próf) Sex atriði eiga alls ekki við mig og ekkert er minnst á þrjá eiginleika sem eru mjög áberandi í fari mínu.

Að öðru leyti er þetta nokkuð nákvæm lýsing. Ég kíkti á nokkur önnur stjörnukort því ég átti svosem alveg eins von á að þetta væru svo almennar lýsingar að ég gæti skrifað undir hverja þeirra sem er en svo er reyndar ekki.

Dálítið forvitnilegt, eins og reyndar flestar þær aðferðir sem mannskepnan notar til að reyna að botna í sjálfri sér.

Klemma

Þegar skelfilega slæmur listamaður, sem ég kann vel við sem manneskju, álítur sjálfur að hann sé afskaplega góður listamaður og skilur ekkert í því að elítan skuli ekki veita því eftirtekt, reyni ég að forðast umræðuefnið við listamennirnir og verkin okkar hin vanmetnu.

Þegar viðkomandi biður mig svo að segja álit mitt á snilldinni, og mér er ekki stætt á því að segjast ekki dómbær, hvernig í fjáranum á ég þá að segja sannleikann án þess að svipta viðkomandi tilgangi lífins?

Til hvers heldur fólk eiginlega að gagnrýnendur séu? Er það ekki í þeirra verkahring að losa vini og vandamenn undan þeirri áþján að þurfa að segja listamanninnum að hann sé einfaldlega á rangri hillu?

Meiri ostur

Ekki datt mér í hug að 135 demparasalar á fylliríi, víðs vegar að úr heiminum, hefðu allir sem einn þolinmæði til að hlutsta á útskýringar álfkvenna á norrænum rúnum. Sér í lagi þar sem aðeins ein úr hópnum er nógu hávaxin og íðilfögur til að vekja þá athygli sem álfar verðskulda.

Álfkonugallinn var svo stór að ég minnti meira á hobbita í hveitsekk en álf en þetta var miklu skemmtilegra en ég átti von á.

Ég á fastlega von á að þetta verði aðeins upphafið að glæstum ferli okkar í ferðamannaþjónustu.

Neyðarlegt

Ég kveikti í nöglinni á mér!

Þetta er það hallærislegasta sem ég hef gert í þessari viku. Aulaverkur síðustu viku var samt verri.

Ég hringdi í Háskólabíó og spurði hvort væru eftir einhverjar sýningar á Kórnum. Stúlkan kom af fjöllum og sagðist ekki vita til þess að sú mynd væri á dagskrá frönsku kvikmyndahátíðarinnar. Halda áfram að lesa