Ofbeldismenn

Byltingin er með áverka eftir lögregluþjón. Ég er stolt af því.

Í sjónvarpinu sagði fulltrúi lögreglu að aðferðir þeirra væru ekki réttar. Fulltrúi Alcoa sagði að sjálfsagt væri að ungt fólk nýtti sér rétt sinn til að láta í sér heyra. Þau ættu bara að gera það utan dyra svo þeir sem mótmælin beinast að þyrftu ekki að heyra þau.

Mótmæli sem ekki valda truflun heyrast ekki og ég hef aldrei heyrt um rétta mótmælaaðferð sem skilar árangri.

Mér finnst frábært að sérsveitin skuli hafa vera send á þessa unglinga. Það sýnir bara að loksins eru menn farnir að taka mótmæli þeirra alvarlega.

Ef píkan á þér gæti talað

Ef píkan á þér gæti talað, hvað myndi hún þá segja?

Láttu mig í friði, missti ég út úr mér upphátt. Röddin sem las spurninguna hljómaði ekki eins og einhver sem píkan á mér væri til í að halda uppi samræðum við. Það var samt ekki fyrr en Siv Friðleifsdóttir sagði sleiktu mig, sem ég tók fyrir eyrun.

Myndræn hugsun er ekki mín sterka hlið. Ég heyri sögur. Ég heyri samræður persóna en sé þær ekki fyrir mér nema sem útlínur og skugga. Þessvegna vil ég helst sjá kvikmyndir byggðar á sögunni áður en ég les bókina. Stundum set ég andlit einhverra leikara á sögupersónur.

Þegar Siv Friðleifsdóttir segir sleiktu mig, og ég horfi á andlit hennar í sjónvarpinu, finn ég aðkenningu að mynd, sem tepran í mér ræður ekki almennilega við. Ósjálfráð viðbrögð mín eru þau að grípa fyrir eyrun. Ekki augun.

Tepran í mér er ekki sérlega rökvís.

Persónuleikapróf

Viðbrögð við einföldum spurningum um aðstæður sem aldrei koma upp, segja manni allt sem maður þarf að vita um fólk.

Hvort myndir þú velja;
-að losna við allar skuldirnar þínar og fá 100 milljónir skattfrjálsar að auki, eða
-að losna við allar skuldirnar þínar og fá 1000 milljónir skattfrjálsar að auki. Halda áfram að lesa

Kornið sem fyllti mælinn

Þórfreður hefur um nokkra hríð hulið ljós sitt undir mælikeri en veltir nú vöngum yfir orðatiltækinu um kornið sem fyllir mælinn.

Líkingin er reyndar gegnsæ. Kornmælir var notaður til að meta magn korns, á sama hátt og desilítramál í dag. Kornið sem fyllir mælinn er þá smáatriðið sem veldur því að nú er mælirinn fullur.

Þórfreður segir sína mæla eingöngu fyllta dropum og veltir fyrir sér hverskonar korn séu í mínum mælum.

Í mínum mæli eru fyrst og fremst sannleikskorn. Ekki er ólíklegt að kornmælirinn eða annað sambærilegt verkfæri hafi verið notað til að mæla vökva en mig rennir í grun að dropar þeir sem fylla mæli Þórfreðar, séu þeir hinir sömu dropar og gjarnan hola harðan stein.

Karlmennskan

Sáum Naglann í kvöld. Það sem mér líður alltaf vel í leikhúsi. Ég skil það ekki sjálf.

Hvað er karlmennska?
Mér fannst dálítið stingandi hve margir viðmælenda tengja saman karlmennsku og heiðarleika. Ef heiðarleiki er karlmannlegur er óheiðarleiki þá kvenlegur?

Karlmennska er að mínu viti fólgin í því að fá kikk út úr því að gera ýmislegt sem veldur mér sálarangist. T.d. að bera þunga hluti og beita höggborvél.

Bara svo það sé á hreinu er karlmennska ekki forsenda þess að ég vilji sofa hjá karlmanni.

Ég er samt ekki svo bjartsýn að gera mér vonir um að finna einhvern sem er 26 ára leikhússrotta, skegglaus, fíknlaus, fjárhagslega heilbrigður, klár og skemmtilegur, búinn að afgreiða allar barneignir, trúlaus, pólitískt meðvitaður morgunhani sem kann á borvél.

Hugljúf

Ég ætti að kvíða marsmánuði. Undanfarið hef ég verið í fríi á kvöldin og finnst satt að segja mjög notalegt að kúra undir teppi í náttfötum, lesa eða horfa á sjónvarpið og fara snemma að sofa. Ég býst ekki við að verði mikill tími til þess í næsta mánuði en mér er alveg sama. Halda áfram að lesa