Hvað gerið þið þegar enginn annar er hérna inni?

Undanfarna daga hafa þrír krakkar komið inn í búð til mín og spurt hvað við gerum þegar engir kúnnar eru í búðinni.

Ég minnist þess ekki að hafa nokkurntíma velt þessu fyrir mér þegar ég var barn. Allavega ekki fyrr en ég var orðin nógu gömul til að átta mig á því að „búðarkonan“ þarf að gera fleira en að afgreiða.

Mér finnst skrýtið að þessi spurning komi svona dag eftir dag. Ætli sé að spinnast einhver goðsögn um okkur eða eru börn almennt að velta fyrir sér hinum ósýnilega hluta hinna ýmissu starfa. Spyrja þau t.d. tannlækninn hvað hann sé að gera á milli þess sem hann tekur á móti sjúklingum?

Maðurinn sem vissi alltaf hvað virkaði

Du Prés virðist hafa tekið að sér hlutverk sérlegs selskaparráðgjafa míns.

Ég veit ekki hver Du Prés er en hann minnir mig á mann sem ég hef ekkert umgengist að ráði í mörg ár. Sá vissi yfirleitt nákvæmlega hvað hafði klikkað í lífi viðmælenda sinna og var alltaf tilbúinn til að gefa góð ráð. Það undarlega var að enda þótt hann væri algjörlega með það á hreinu hvað virkaði og hvað ekki, var venjulega allt í rugli hjá honum sjálfum; fjármálin í steik, hjónabandið í rúst og sambönd við hinar ýmsu hjákonur í uppnámi. Því tóku samt fáir eftir. Honum var nefnilega svo vel lagið að gefa öðrum þá tilfinningu að honum þætti líf þeirra áhugavert að iðulega gerði fólk þau mistök að hlusta á það sem hann sagði í stað þess að horfa á það sem hann gerði.

Ég held næstum að Du Prés gæti verið þessi sami maður ef hann tæki ekki strætó. Sá sem ég hef í huga hefur áreiðanlega ekki stigið inn í strætisvagn á Íslandi í 30 ár. Samt myndi hann aldrei ráðleggja nokkrum manni að kaupa sér bíl.

Dæs

Og nú hef ég eignast verndarengil líka.

Skrýtið að ég skuli aldrei hafa áttað mig á bjargarleysi mínu sjálf.
Ég vildi að væri jafn auðvelt að fá þjónustu pípara og mannkynslausnara.

Stofnfundur

Dándikvennafélagið Dindilhosan -hagsmunasamtök aðþrengda og einhleypra glæsikvenda, hélt stofnfund sinn á Vesturgötunni í dag.

Á stofnfundinn mættu eftirtaldar dívur:
Eva

Jamm. Það mætti sumsé engin. Ekki heldur þær sem höfðu staðfest ásetning sinn um að mæta. Ekki heldur sú sem átti hugmyndina að þessum félagsskap.

Það er rangt að dýrmætasti auður hvers manns séu frumlegar hugmyndir. Góð hugmynd er harla lítils virði nema hún sé framkvæmd. Dýrmætasti auður hvers manns er fólginn í sjálfsaga hans til að lyfta skvappokunum upp úr sófanum og gera eitthvað. (Þess ber að geta er hér merkir „að gera eitthvað“ ekki að sitja pöbb og drekka bjór eða fara út að reykja.)

Á stofnfundinum var tekin ein ákvörðun. Ákvörðun um að Dindilhosan myndi hér eftir sem hingað til eyða tíma sínum í fólk sem nennir að gera eitthvað. Semsagt sjálfa sig.

Dylgjublogg

Það er ákveðin fegurð í því fólgin að fá skilaboð sem enginn annar áttar sig á. Þú ert vissulega blábjáni en þekkir mig þó nógu vel til að vita hvað fangar athygli mína.