Ástagaldur

Áhrifa ástargaldursins sem ég framdi um síðustu helgi er þegar farið að gæta. Hver sjarmörinn á fætur öðrum hefur sýnt mér athygli síðan þá og ég sé ekki betur en að dræsugallinn sem ég hef notað árangurlaust í margar vikur, sé skyndilega farinn að skítverka.

I feel pretty.

Það verður fróðlegt að sjá hvað rekur á fjörur mínar um helgina.

Hæl

Getur einhver bent mér á einhvern stað á Íslandi, þar sem hægt er að fá hælaháa skó nr 35?

Það er einfaldlega of mikil slysahætta af því að ganga á pinnahælum í of stóru númeri, til að ég sé reiðubúin að taka þá áhættu.

Mission accomplished

Þá er ég búin að sinna samkvæmisskyldum mínum fyrir næstu 5-6 árin.

Eldri kona spurði hvort ég væri dóttir afmælisbarnsins, (sem er rúmu ári eldri en ég). Ég sagði henni ekki að lesa Dale Carnegie betur, útskýrði ekki einu sinni að það þyrfti að vera um 10 ára aldursmunur til að þetta hallærislega mannblendnistrix hitti í mark. Brosti bara og sagði eitt orð, nei. Ég kann mig svo vel. Halda áfram að lesa

Allt fullkomið

Ég hef vandað mig við uppeldið á drengjunum mínum en þó er einn þáttur sem ég hef vanrækt. Ég hef ekki gert miklar kröfur til þess að þeir sinni húsverkum.

Þegar ég var barn var mér sagt að þeir sem ekki væru látnir skúra, skrúbba og bóna sem börn, yrðu hjálparvana sóðar á fullorðinsárum. Ég trúði þessu en samt hef ég frestað því ár eftir ár að gera syni mína að ræstitæknum. Ég hef látið nægja að setja þeim fyrir smáverkefni; þú átt að ganga frá þvottinum, þú átt að ryksuga stigaganginn o.s.frv. Ég hef hingað til haldið að það þyrfti sérstaka þjálfun til að láta sér detta í hug hvað þurfi að gera á venjulegu heimili og hvernig eigi að gera það. Síðustu tvö árin hef ég þessvegna séð fram á að uppeldið muni lenda á konunum þeirra. Halda áfram að lesa

Tískuröskun

Skærbleik húfa, rauðar ökklasíðar buxur og bláir sokkar hljóta að benda til sértækrar tískuröskunar.

Gaurinn sem telst víst bjartasta vonin í tískuheiminum klæðir sig einmitt þannig. Pant versla í Hagkaupum.

Heilkennið

Eitthvert undarlegt heilkenni hefur verið áberandi hjá mínu heimilisfólki undanfarið. Það lýsir sér í tómum sjampóflöskum sem stillt er upp á baðkarsbrúninni í stað þess að rata í ruslið, tómum krukkum og smjörvaöskjum sem eru settar í kæliskápinn, en ekki í ruslið eða enduvinnslukassann) og tómum morgunkornspökkum og öðrum umbúðum sem er troðið í yfirfullan þurrefnaskápinn en ekki endurvinnslukassann.

Ég veit ekki hvort þetta ætti frekar að kallast umbúðaheilkenni eða ruslasöfnunarheilkenni en samkvæmt minni reynslu er það ólæknanlegt. Ég hef að vísu ekki reynt þá aðferð að æpa mjög hátt og skella hurðum. Ég bara nenni því ekki. Það eru hvort sem er ekki nema 7-8 ár þar til þeir verða báðir fluttir að heiman.

Félagsskítur

Þegar sunnudagskrossgátan og Boston Leagal eru hápunktar vikunnar, getur það þá ekki verið vísbending um að félagslíf manns sé frekar bágborið?