Frostþoka þagnar
lagði hemi
Lagarfljót augna.
Bræddi þó bros
svo flæddi
yfir bakkana báða,
hrímþoku hrjáða.
Skógar hafa brumað að vetri
svo bjarkirnar kulu.
Auga fyrir auga,
bros fyrir bros,
þögn fyrir þulu.
Frostþoka þagnar
lagði hemi
Lagarfljót augna.
Bræddi þó bros
svo flæddi
yfir bakkana báða,
hrímþoku hrjáða.
Skógar hafa brumað að vetri
svo bjarkirnar kulu.
Auga fyrir auga,
bros fyrir bros,
þögn fyrir þulu.
Sé fortíðin fleki á reki
er þá framtíðin skip?
Trúlegra tel ég
að tíminn sé áralaus bátur.
Stefnulaus, stjórnlaus
stendur þó aldrei í stað,
Vaggar og í hrekst í hringi
-og þokast nokkuð.
Sekkur svo kannski í djúpið
og hvað um það?
Var meðan var
og vonandi er hafsbotninn fastur.
Ég vaknaði í morgun, við hljóm nýrrar klukku
sem ekki hefur áður slegið í húsi mínu.
Fagnandi leit ég í dimmbláa skífuna og spurði:
„Hvenær klukka mín,
hvenær mun tif þitt hljóðna
og þögnin ríkja á ný í húsi mínu?“
Í þeirri dimmbláu skífu sá ég engan vísi
aðeins svarta miðju og tóma,
aðeins tóma miðju og hring,
í húsi mínu.
En í tifinu hljómaði svarið,
ekki sorgbitið,
ekki ástríðufullt,
aðeins blátt-áfram staðreyndatif;
bráð-um, bráð-um.
Sett í skúffuna í ágúst 1999
Drukknuð í rauðhærðu faðmlagi,
hef ég unað mér á freknubeit við axlir þínar.
Þambað vitleysuna af vörum þér
og prrrððrað þríhendu í hálsakotið.
Og leggi ég eyra við nafla þinn
má greina söng sálarinnar í fjarska:
„Allar vildu meyjarnar eiga hann,
hæfaddírífaddirallala og amen“.
Sting að lokum Litla Bleik í vettlinginn
og ríð til þings,
falleruð af ljóðlöngu falleríi forfeðra
sem súrraðir út úr rykugum deginum
vitja mín í hlátri.
Haustskógarhárið þitt
hefur fellt lauffreknur
á axlir þínar.
Enn lifa bláberjaaugu mín
í lyngmóaaugunum þínum.
Þó finn ég kvíðann nauða
í nöktum greinum
og bý mig undir næturfrost
þegar ég heyri
vængjaþytinn
í hjarta þér.
Hafaldan greiddi sólarlagið frá öxlum þér
og kyssti fjörusteina.
Greip þétt um þanghjartað
og bar það á burt.
Tvö smáhöf á brimsöltu háflæði
skorti seiðmagn
til að flétta sólarlag,
verja fjörugrjót kossum,
festa rótum þitt reikula þang.
Enga höll hef ég ennþá reist mér fyrir austan sól,
aðeins lítið hús fyrir austan fjall
og garðurinn í óttalegri órækt.
Enga sigurför hef ég farið á hvítum hesti á enda veraldar,
tel það nokkuð gott að aka út í Kaupfélag,
hef ekki einu sinni rænu á að þrífa bílinn.
En dag nokkurn mun ég að standa upp
og axla bakpoka áhættunnar.
Leggja leið mína yfir fjöllin sjö
þangað sem nornir sitja ennþá og spinna mér örlagaþráð.
Og ég mun hrifsa þann þráð úr höndum þeirra
og setja upp minn eigin vef
og slá hann af krafti,
til hallarbygginga og sigurfara,
sjálf.
Þegar ég er búin að koma garðinum í þokkalegt stand
og bóna bílinn.