Kvæði handa pysjupeyja

Húm yfir Heimakletti
hnigin er sól við Eyjar
merla sem máni á sjónum
malbikið ljós frá húsum.
Lundi úr holu heldur
hafið svo finni kofa.
Pysja í ljósið leitar
lendir í húsasundi.

Skríður í skugga, hræðist;
skyldu ekki svalar öldur
færa henni fisk að óskum
freyða við klett og eiði?
Finnur þá frelsi minna
fangin af höndum ungum;
pysjuna Eyjapeyi
passar í nótt í kassa.

Austur af Vestmannaeyjum
eldar af nýjum degi.
Krakkar í fríðum flokkum
fjöruna prúðir þræða.
Kofa mót himni er hafin
heimkynni rétt svo nemi,
syndir á sjónum lundi
svífur að kvöldi yfir.

Eygi stjörnum ofar 

Eygi stjörnum ofar
aðra tíma og betri
vor að liðnum vetri
vekur nýja trú.

Ljósi og birtu lofar
lífsþrá raddar þinnar,
svarthol sálar minnar
söngvum fyllir þú.

Og neindin, full af næturgalans kvaki
niðamyrkrið gegnum fer að skína,
þótt ég sofi samt er líkt og vaki
sál mín, hverja nótt við hljóma þína.

Úr dvalanum ég rís og dýpra smýgur
dagsins ljós, að rótum sálar minnar,
hjarta mitt úr fjötrum brýst og flýgur
frelsins á vit og ástar þinnar.

Allri lofgjörð æðra
yndi rödd þín hrærir,
sól úr skýjum særir
syngur dögun óð.
Meðal minna bræðra
mig þú fundið hefur
tóm mitt töfrum vefur
tóna þinna flóð.

Landkynning

Utan við kaffi Austurstræti
svipta vorvindar hraðir
skjóllitlum flíkum
ljóshærðar stúlku
sem brosir til ferðamanna,
berrössuð
eins og hálendið sjálft
og krefst ekki greiðslu.

Önnur smávaxin, dökk
við dyrnar,
leiðir drukkinn landa
út í nepjuna,
nemur staðar við hraðbankann
með skáeygu brosi.
Á Íslandi gerast allir hlutir hratt.

Eftir lokun

Herbergi starfsfólksins verst.
Þefur af kampavínsælu,
svitastokknu næloni
og reykmettuðu sæði.

Borðtusku rennt
framhjá notuðum fimmþúsundkalli
sem gleymdist á borðinu,
hvítt duft loðir við gulan hor á upprúlluðum endanum.

Moppunni rennt
framhjá notuðu nærbuxnainnleggi
sem gleymdist á gólfinu,
hvítt yfirlag, atað gulum vessum.

Að lokum er tuskan undin
og vagninum rennt
framhjá haug af hvítum eldhússpappír,
klístruðum gulum blettum.

Hendur þvegnar og
augunum rennt
framhjá notaðri dansmey
gulri
sem að líkindum hefur gleymst
á hvítum sófanum.