Guðfræðimennska

Mér finnst gaman að fá að fylgjast með biblíulestri Varríusar. Að teknu tilliti til þess hve mikil áhrif þetta bókasafn hefur haft á menningu okkar, má telja furðulegt hversu margar frásagnir þess eru lítt þekktar meðal almennings.

Ég er ekki sérlega biblíufróð sjálf en það sem ég þekki af biblíunni og sögu kristninnar dugar mér allavega til að vilja fyrir enga muni kenna mig við kristindóm af neinu tagi. Þar fyrir finnst mér biblían áhugaverð og þá ekki síður þau undur sem fram fara í höfðum þeirra sem segjast trúa á hana.

Það er ekki bara trúarlegi hlutinn sem vekur forvitni mína. Mér finnst t.d. hugmyndir margra guðfræðinga um fræðimennsku rannsóknarefni út af fyrir sig. Ég hef t.d lesið nokkrar greinar eftir guðfræðinga sem gagnrýna aðferðir Eriks von Daaniken og röksemdir hans fyrir hugmyndum sínum um guðina sem geimfara. Allt ágætar greinar þar sem menn benda á augljósa vankanta á verkum Daanikens.

Það sem mér finnst svo undarlegt við kýrhaus guðfræðinga er eimitt það að klúður Eriks von Daaniken -sem felst í því að taka eingöngu þá texta biblíunnar sem henta kenningu hans en hunsa hina, er nákvæmlega sama aðferðin og kristnir menn nota til að „sanna“ hugmyndir sínar um biblíuna, hvort sem um er að ræða siðaboðskap hennar eða sagnfræði.

Er það ekki skrýtið?

Svar til Torfa

Það sem þú lest úr skrifum mínum kemur mér iðulega á óvart Torfi. Kannski er það ekki að undra. Þegar allt kemur til alls ertu sérfræðingur í bók sem hefð er fyrir að túlka bara eins og hvur og einn fílar hverju sinni. Samt er það stundum langsótt.

Mér er t.d. hulin ráðgáta hvernig þér dettur í hug að lesa „biturð“ út úr fremur eitruðu skoti á konu sem af fjárhagslegum ástæðum viðheldur sambandi sem einkennist af kúgun og óheiðarleika. Vissulega er írónía í þeim texta, fyrirlitning, hugsanlega vottar fyrir afbrýði en þar er ekkert að finna sem bendir til þess að ég telji að „lífið fari illa með mig“. Halda áfram að lesa

Homo Dramus

Í rauninni „veit“ maður sjaldan neitt um annað fólk. Því maður veit ekki nema hafa sannanir. Oftast er maður bara sannfærður og byggir þá kannski sannfæringu sína á rökum. Það er samt ekki vissa.

Hitti Dramus í dag. Fyndið að horfa á hann og „vita“ að hann „veit“ að ég „veit“ að hann er Dramus en „vita“ jafnframt að sennilega myndi hann ekki viðurkenna það.
„Það var ekki eins og þú hélst“ sagði hann.
Rétt eins og það skipti einhverju máli eftir öll þessi ár.

Yfirleitt eru hlutirnir nákvæmlega eins og þeir virðast vera en það sem skiptir máli er ekki sannfæring manns heldur það sem maður raunverulega veit.

Það sem ég raunverulega veit er í rauninni nóg til þess að ég hef endanlega gefist upp á því að treysta dýrategundinni homo dramus og hvað varðar sannfæringu mína um eðli og hátterni tegundarinnar þá nenni ég ekki lengur að velta réttmæti ósannaðrar sannfæringar fyrir mér.

Hugskeyti

Í gamla daga notaði fólk helgarnar til að dýrka guðinn sinn og það hefur ekkert breyst. Fór bæði í Smáralind og Kringluna í gær og á báðum stöðum var allt troðfullt af heittrúuðum Mammónsdýrkendum.

Hitti fullt af fólki sem ég kannast við, m.a. hina mölétnu konu Ljúflingsins. Hún brosti stirðlega. Sá á henni langar leiðir að tilvist mín fer í taugarnar á henni. Hún veit af mér. Það heitir opið samband og virkar rosalega val þar til makinn opnar líka sín megin.

Æ hafðu ekki áhyggjur. Ég er engin ógn við samband ykkar. Það byggist á gagnkvæmri kúgun og er í eðli sínu ólíkt þeirri vináttu sem ég á við manninn þinn. Hann gæti aldrei búið með konu sem sýnir honum virðingu og tillitssemi og krefst þess sama frá honum. Slíkar konur eru bara til í ævintýrum og fólk verður að upplifa ævintýri af og til.

Og þú sem mætir mölétin til Mammonsmessu en setur mölkúlur í ferðatöskurnar þínar og tekur fram varalit í flugvélinni á leið til Hvergilands. Heldurðu virkilega að hann viti ekki um ævintýrin þín?

Eða eru það kannski hugmyndir mínar um réttlæti Mammons sem fara fyrir brjóstið á þér? Ertu hrædd um að ég neyði Ljúflinginn til að horfast í augu við aðstöðu þína til að féfletta hann? Hefurðu áhyggjur af því að ég svipti þig tækifærinu til að hagnast án fórna?

Gjugg í borg. Allt hefur sinn verðmiða. Mammon líka.

Maður má smakka eitt

Í búðinni var aðeins einn viðskiptavinur fyrir utan mig. Hann leit út fyrir að vera um sextugt og lifa á saltketi og rjóma. Ég hefði sennilega ekkert tekið eftir honum nema vegna þess að hann stóð við sælgætisbarinn og gúllaði í sig.

Ég talaði ekki við hann, enda ekki í mínum verkahring að upplýsa aðra kúnna um hefðir í viðskiptaháttum en kannski hefur mér orðið það á að sýna svipbrigði sem lýstu undrun. Allavega vatt hann sér að mér og sagði með fullan gúlinn af hlaupi og brjóstsykri; ég smakka nú alltaf á þessu áður en ég kaupi það, maður verður að vita hvað maður er að kaupa.
-Jáhá, sagði ég vantrúuð.
Maður má það alveg. Maður má alveg smakka eitt, sagði maðurinn og tróð upp í sig lakkrís.
-Já er það virkilega? Ég vissi það ekki, sagði ég.

Ég hafði eiginlega verið að hugsa um að kaupa eitthvað en hætti við. Hann notaði ekki áhöldin og þótt fólk sé sjaldan eitrað var einhvernveginn eins og mig langaði ekki í neitt lengur. Ekki heldur þótt ég hefði þarna fengið formlegt leyfi til að smakka eitt, þá væntanlega eitt af hverri tegund.

Fjölmiðlar eru vinir okkar

Fjölmiðlar eru góðir við okkur.

Fréttablaðið er m.a.s. búið að gefa okkur vikulega smáauglýsingu alveg án þess að við höfum farið fram á það. Að vísu báðum við um þessa sömu auglýsingu daginn fyrir síðustu tunglfyllingu enda talað um tilboð á spilum ofl. „í tilefni af fullu tungli“.
Auglýsendur Fréttablaðsins virðast telja okkur nógu göldróttar til að stjórna tunglhringnum, allavega hafa þeir auglýst fullt tungl á hverjum þriðjudegi síðan.

Í gær kom kona sem hafði gert sér ferð ofan úr Borgarnesi til að kaupa Mantegna spilin (sem ég held að fáist hvergi annarsstaðar á landinu)með 20% afslætti, svo ég verð að játa að mér finnst þetta hálfgerður bjarnargreiði hjá Fréttablaðinu.