Smá

Skítsæld híbýla minna er með ólíkindum. Ég ætlaði að nota helgina til að mála en kom mér ekki á lappir fyrr en um 9 leytið í morgun, tók alltof langan tíma í bókhaldið og restin af deginum fór í að núllstilla skítsældarstuðul heimilisins. Reyndar er ég enn ekki farin að ráðast í meyjarskemmuna. Hélt til að byrja með að heimasætan væri kannski eitthvað minna skítsæl en sonur minn Fatfríður en það voru víst bara kynjafordómar hjá mér.

Er annars að fara í leikhús í kvöld. Með strák. Nánar tiltekið strák sem hefur ekki reynst jafn auðflekanlegur og hann lítur út fyrir að vera. Ég tók fram að þetta væri ekki hugsað sem deit svo hann beit í sig kjark og sló til. Þetta er allt að koma.

Dínamít er víst ekki á fjölunum í kvöld.

Tölfræði

Mér finnst dálítið merkileg þessi kenning um einn af hverjum tíu.

Talsmenn flestra minnihlutahópa tala um að einn af hverjum tíu lendi í dittinn dattinn. Einn af hverjum tíu er samkynhneigður, einn af hverjum tíu verður fyrir einelti í skóla, einn af hverjum tíu er með sértæka námsörðugleika (hversu margir ætli séu með „samtæka“ námserfiðleika?) Einn af hverjum tíu er afburðagreindur, einn af hverjum tíu er alki o.s.frv.

Stundum eru hlutföllin kannski einn af hverjum 20 eða einn af hverjum 5 en að meðaltali má reikna með að einn af hverjum tíu skeri sig úr.

Í hópi 10 félaga er semsé einn alki, einn hommi, einn bjáni, einn nörd, einn lesblindur, einn geðveikur, einn sem lendir í einelti, einn glæpon og einn gjaldþrota. Eftir er bara einn sem getur talist meðalmaður.

Það vill svo skemmtilega til að þessi eini er ég.
Það er semsé tölfræðileg staðreynd að ég er að jafnaði töluvert meðaltalslegri en meðalmaðurinn.

Dram dagsins

Ég er í hádramatískri sálarangist.

Loksins get ég keypt málningu á íbúðina mína. Hún er öll á litinn eins og hvítir veggir verða á heimilium þar sem er reykt innan dyra og nú er ekki einu sinni nógu dimmt á kvöldin til að maður geti falið það með kertaljósum. Ég er að velta því fyrir mér hvort þessi óþægindi í öndunarfærunum á mér, sem virðast vera orðin krónísk, séu kannski bara móðursýkisleg viðbrögð við því sem þessi eldklári líkami minn skynjar sem merki um að tóbaksreykur gæti komist í námunda við hann. Gæti líka verið ofnæmi fyrir illfyglinu en þótt heil fylking lungnasérfræðinga myndi sverja það fyrir rétti myndi Darri ekki trúa því. Halda áfram að lesa

Óður til stóru ástarinnar í lífi mínu

Ég hefi ákafa ást á peningum og er meinilla við að eyða þeim.

Að vísu þarf maður alltaf að nota helling af peningum og eini tilgangurinn með því að geyma þá er sá að láta þá æxlast en ég geri skýran greinarmun á því að verja fé og eyða því. Það er bara sóun að nota peninga til einhvers sem er manni hvorki til gagns né ánægju. Mér finnst t.d. gaman að nota peninga til að fara í leikhús eða kaupa gjafir handa þeim sem ég elska en mig svíður alveg óskaplega í nískupúkann ef ég fæ stöðumælasekt.

Í dag er stór dagur. Ég hélt upp á hann með því að fara með peningana mína á lóðarí í von um að þeir kynnist fleiri peningum sem vilja vera vinir þeirra og eignast með þeim nýja peninga. Peningar eru nefnilega félagsverur. Ég vona að peningarnir mínir hafi meiri félagslega færni en ég sjálf.

Samt er hann að þvælast

Og hvers vegna hafði ég aldrei næga ást á sjálfri mér til að brjóta odd af oflæti mínu og spyrja um ástæður, öll þessi ár sem marbendill tilveru minnar lá í hláturskasti?

Og hversvegna svarar hann mér ekki nú, þegar ég hef spurt hann, gengið á hann, grátbeðið hann að segja mér svarið, yfirheyrt hann, mútað honum, borið fram tillögur að svörum og beðið hann að svara bara já eða nei?

Marbendill setur upp pókerfés. Hann er löngu hættur að hlæja. Stekkur ekki einu sinni bros þótt ég prumpi og þó hefur hann alltaf verið veikur fyrir fimmaurahúmor. Kannski hugsar hann sem svo að þetta sé bara ekki fyndið lengur.