Hefndin er sæt

Á menningarnótt í fyrra stal einhver bastarður frá okkur einum steini. Ég lagði umsvifalaust á hann álög og síðan hefur hann þjáðst af krónískum njálg.

Eins og allir vita vinnur hvannarfræ gegn njálg og ég held að líklegasta skýringin á þessu innbroti í nótt sé sú að þjófurinn sé orðinn örvæntingarfullur og hafi brotist inn í von um að losna við njálginn. Það mun líka heppnast en fagnaðu ekki of fljótt gæskur. Næst skal ég útvega þér lús. Stökkbreytta afbrigðið.

Þjófagaldurinn virkaði

Í nótt var framið innbrot í Nornabúðina. Glugginn hefur verið spenntur upp, greinilegt mar eftir verkfæri og gluggatjaldið og hreindýrshornið sem hékk í honum hefur hrunið niður.

Ekkert var skemmt og eftir gaumgæfilega leit sjáum við ekki að neitt hafi verið numið á brott, nema hugsanlega einn pakki af hvannarfræi en það er sú jurt sem minnst selst hjá okkur.

Fórnarsjóður Mammons er á sínum stað og ekki að sjá að neitt hafi verið tekið úr honum. Kassinn óopnaður og öll skiptimyntin í honum. Tölvan óhreyfð og ekkert sem bendir til þess að hafi verið átt við nokkurn hlut, hvort sem um er að ræða litla fjörusteina eða fokdýra listmuni.

Þjófagaldurinn virkar.

Gullkvörn

Strákarnir mínir gáfu mér flottustu afmælisgjöf sem ég hef nokkurntíma fengið. Töfragrip sem heitir Gullkvörn og fylgja henni tveir Mammonsgaldrar, einn til að redda sér pening í hvelli (ég er búin að prófa hann og það tókst vel) og svo annar til að verða ríkur. Til að hann virki þarf maður reyndar að eiga eignir umfram skuldir svo það er ekki alveg tímabært að láta á hann reyna. Ég hef fulla trú á honum enda eru báðir galdrarnir svo líkir mínum stíl að ef ég vissi ekki betur, héldi ég að ég hefði skrifað þá sjálf.

Varla

Fyrstu tilraunir mínar til ástargaldurs misheppnuðust illilega. Hver maðurinn á fætur öðrum fór úr landi í stað þess að koma hlaupandi til mín. Kannski er þetta enn eitt dæmið um misheppnaðan galdur? Ég bið um hentugan maka og þá kemur elskhugi, sem alls ekki kemur til greina sem maki, stormandi frá útlöndum og kippir mér úr galdragírnum með pinnaskóm.

Og kannski hefði ég tekið því sem merki um að eitthvað hefði gengið upp, ef líkami minn hefði ekki, þrátt fyrir allan þennan Maríustakk, tekið upp á því að hafna honum. Ekki veit ég hvaða töfrar það eru, þetta á ekki einu sinni að vera líffræðilega mögulegt.

Ástagaldur

Áhrifa ástargaldursins sem ég framdi um síðustu helgi er þegar farið að gæta. Hver sjarmörinn á fætur öðrum hefur sýnt mér athygli síðan þá og ég sé ekki betur en að dræsugallinn sem ég hef notað árangurlaust í margar vikur, sé skyndilega farinn að skítverka.

I feel pretty.

Það verður fróðlegt að sjá hvað rekur á fjörur mínar um helgina.

Ástargaldur í undirbúningi

Þegar maður hefur engu að tapa er tilvalið að fylgja ráðum sem hljóma út úr kortinu. Sjónvarsþættir koma ekki til greina en ég notaði morguninn til að hanna nýjan ástargaldur, sem á að seiða til mín fjölda karlmanna sem ég kæri mig ekkert um, t.d. sanntrúaða sjálfstæðismenn. Svo þarf ég bara að forrita sjálfa mig til að skipta um skoðun á þeim. Halda áfram að lesa

Tungl

Magnaðasta tungl ársins.

Fórum út og horfðum á það gyllt og gríðarstórt, snerta sjóndeildarhringinn og hoppa upp á himininn aftur.

Fyrr í dag fór ég með Byltinguna upp í Heiðmörk svo hann gæt bætt fyrir galdurinn sem verðir laganna klúðruðu fyrir honum síðustu nótt.

Söguleg fermingarveisla í millitíðinni.
Þetta var góður dagur.