Smá klemma

Ég get fengið nákvæmlega þá íbúð sem ég vil, fyrir 130.000 kr meira en það hæsta sem ég er tilbúin til að borga.

Ég gæti áreiðanlega galdrað fram 130.000 í viðbót en það bara ofbýður sanngirniskennd minni. Á hinn bóginn er frekar hallærislegt að missa af akkúrat því sem maður vill, fyrir skitinn 130.000 kall, sem maður getur reddað.

Nú þarf ég að hugsa út fyrir rammann.

 

Syntax error

Ég hef oft kastað ástargaldri. Ekki nýlega að vísu, því ég er ekki rétt innstillt þessa dagana, en ég reyndi 4 sinnum árið 2006. Þótt aðrir galdrar hafi verið mér frekar auðveldir á síðasta ári, hefur ástargaldurinn bara fært mér menn sem eru að vísu stórfínir en hafa bara engin áhrif á hormónastarfsemina í mér og svo einn fávita sem hypjaði sig brott af eigin frumkvæði áður en nokkur skaði var skeður. Halda áfram að lesa

Andinn í glasinu

Af og til er ég beðin um upplýsingar um það hvernig best sé að bera sig að við þá iðju að kalla fram anda og fá hann til að ýta glasi fram og til baka. Ku þetta vera helsta leið andanna til að koma skilaboðum til okkar jarðneskra. Reyndar hef ég aldrei heyrt þess nein dæmi að skilaboð andanna séu á nokkurn hátt merkileg en þó hef ég heyrt sögur af undarlegri hegðun anda sem hafa jafnvel fleygt glasinu út í vegg. Það get ég reyndar vel skilið. Ekki væri ég til í að láta 17 ára fáráðlinga fíflast með mig á þannan hátt.

Það sem mér finnst merkilegast við þetta er að andarnir skuli ekkert fylgjast með nýjungum. Ef ég væri andi og fyndi mig knúna til að eiga einhver orðaskipti við þessa heims lýð, þá gengi ég einfaldlega að næstu tölvu. Ef andinn veldur því að færa glas, hlýtur hann alveg eins að geta pikkað á lyklaborð.

 

 

Þjóðin vildi sjá stjörnur …

… en á þessum svartasta degi lýðveldisins lýsti himinn yfir þjóðarsorg.

Og á þessum tíma almennrar upplýsingar, slagaði Þjóðin niður Vesturgötuna, gapti upp í nornina sem stóð úti og samhryggðist landinu sínu og spurði: af hverju er rafmagnslaust?

Uppfært til skýringar: Tilefnið var viðburðurinn Slokkni ljós kvikni stjörnur Sama dag hófst vatssöfnun í Hálslón.

Stæði

Fyrir tveimur vikum sendi ég sviðsstjóra skipulagssviðs Reykjavíkurborgar eintak af bílastæðagaldrinum.

Nú er hægt að leggja við Vesturgötuna og ég hef ekki orðið þess vör að bílastæðaverðirnir skipti sér af því.

Ekki fannst mér vanta fleiri einstefnugötur í miðbæinn en bílastæðahallærið angraði mig þó töluvert meira.