Krafan um nafnbirtingu

Spurningin á fullan rétt á sér. Ósmekklegheit fjölmiðla liggja hinsvegar ekki í því að birta ekki nafn stúlkunnar heldur í því að birta nafn manns sem sakaður er um nauðgun áður en dómur fellur. Hitt er svo annað að þessi spurning kemur úr hörðustu átt.

Auðvitað eiga fjölmiðlar að fjalla um sakamál og það er sjálfsagt að birta nöfn þegar dómar eru fallnir. Ein grunnregla réttarríkisins er hinsvegar sú að menn skuli teljast saklausir uns sekt þeirra er sönnuð og það er ekki bara einhver klisja heldur sjálfsögð mannréttindi. Mannréttindi voru ekki fundin upp fyrir góða fólkið heldur þá sem eru álitnir úrhrök og ógeð.

Reglan sem almenningur ætti að fylgja er sú að meint fórnarlamb (hvort sem um er að ræða kynferðisbrot eða aðra alvarlega glæpi) njóti vafans þegar þarf að vernda en meintur gerandi ef á að refsa. Þótt snjáldurverjar hegði sér eins og fífl er ekki þar með sagt að fjölmiðlar eigi endilega að gera það líka. Eða myndi DV birta nafn stúlkunnar ef nógu margir kæmu fram með getgátur um hver hún er?

Ef ég ætti að dæma þetta mál hér og nú segði ég að Egill væri sekur. Ég get hinsvegar ekki fullyrt að öll gögn séu komin fram og það er nú þessvegna sem við höldum uppi lögreglu og dómskerfi (án þess að ég ætli neitt að mæra fullkomleik þeirra stofnana.) Það er hlutverk lögreglu að draga fram öll sönnunargögn og dómstóla að leggja mat á þau, ekki fjölmiðla. Ég finn ekki til persónulegrar samúðar með þessum manni en ég get vel ímyndað mér að álíka karakterar geti orðið fyrir svona ásökun að ósekju. Það er vegna þessháttar fólks sem við þurfum á reglunni „uns sekt er sönnuð“ að halda.

Hlýtur að vera mússi

Hrikalega faglegt af mannvitsbrekkunni sem bloggar undir dulnefninu ritstjórn@dv.is að taka fram að meirihluti íbúa Bangladesh séu múslimar. Af hverju í ósköpunum kemur ekki líka fram í fréttinni að meirihluti íbúa Bangladesh eru brúneygir?

Ástand í jafnréttismálum í Bangladesh á sér miklu flóknari rætur en svo að sé hægt að útskýra svona glæpi með því að þessir menn séu muslimir. Muslimi sem býr við vestrænar aðstæður er ekkert líklegri en kristinn maður til að hegða sér á þennan hátt.

Reyndar eru morð á nánum fjölskyldumeðlimum á Norðurlöndunum ekki hlutfallslega hærri á meðal muslima en annarra. Munurinn er bara sá að það heitir ekki heiðursmorð þegar norskir eða íslenskir foreldrar drepa börn sín og maka. Maður í Bangladesh er líklegri en Íslendingur til að aflima konuna sína, ekki af því að hann sé muslimi heldur af því að hann hefur alist upp við kvenfyrirlitningu. Sem á sér ekki síður rætur í kristindómnum. Ég er ekki að verja neinn viðbjóð heldur að benda á að það eru miklu flóknari samfélagsaðstæður sem hann sprettur af en svo að það sé ástæða til að gera alla muslimi tortryggilega.

Að tala um ríkjandi trúarbrögð í þessu samhengi er nákvæmlega jafn faglegt eins og ef fjallað væri um glæpi í Eþíópíu og tekið fram að þeldökkir menn séu í yfirgnæfandi meirihluta í landinu. Eða ef fjallað væri um ofbeldi í Vesturbænum og tekið fram að þar búi margir KRingar. Siðferðið og lífssýnin sem Kóraninn boðar er vissulega mannfjandsamleg. Sýn kristindómsins á heiminn og manninn er það líka. Mjög fáar manneskjur eru bókstafstrúaðar og þar sem muslimir festa rætur í vestrænum samfæelögum, merkir það að vera muslimi bara það sama og að vera kristinn, þ.e.a.s. trúin er umgjörð utan um hátíðir, athafnir á borð við giftingar og greftranir, klæðaburð, neysluvenjur, hlutverkaskiptingu og erfðavenjur.

Yfirborðskennd umfjöllun

Umfjöllun um þessi samtök og önnur álíka er langoftast mjög yfirborðskennd. Allir vita að þetta eru „skipulögð glæpasamtök“ en allar upplýsingar vantar um það hvaða glæpi þeir hafa framið, hvaða aðferðum þeir beita og hvernig þeir réttlæta gjörðir sínar. Það eru sjaldan eða aldrei nefnd dæmi um dóma sem hafa fallið gegn meðlimum hreyfingarinnar eða á nokkurn hátt rökstutt að hreyfing sé á bak við þá glæpi. Þeir eru bara svona grýla sem allir vita að dreifa dópi og lemja mann og annan þótt fáir geti skýrt það neitt frekar.

Ég held að til þess að sé hægt að draga úr skipulagðri glæpastarfsemi þurfi fólk að vita eitthvað um það hvernig þessir menn hugsa. Svo er það nú bara svo að til er nokkuð sem kallast mannréttindi og þeirra á fólk að njóta hvort sem það á það skilið eður ei. Það er oft mjög súrt en ef við sviptum einn hóp mannréttindum af því að þeir eru ljótukallar þá má allt eins reikna með að yfirvaldinu finnist einhverjir vesalingar vera ljótukallar næst. Skúrkar hafa mannréttindi eins og aðrir. Þessvegna á að nota einhverjar aðrar aðferðir en kerfisbundin mannréttindabrot til þess að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi og ég held að almennileg upplýsing, sem ekki einkennist af ýkjum og æsifréttamennsku geti verið lóð á vogarskálina.

Var Tobba búin að kúka?

Ég hef stundum kvartað yfir því að blaðamennska á Íslandi sé á lágu plani. Að engu sé fylgt eftir, að hlutverk fréttamanna sé aðallega það að halda á hljóðnema og þeir þurfi í raun ekki að kunna neitt nema nota copy-paste skipunina og renna erlendum fréttum í gegnum þýðingarvél. Halda áfram að lesa

Tepruskapurinn í kringum Chomsky

Egill Helgason ympraði á því svona í framhjáhlaupi.

Annars hafa fjölmiðlar kallað Noam Chomsky mesta hugsuð samtímans, áhrifamesta þjóðfélagsrýninn, einn vinsælasta álitsgjafann, þeir hafa jafnvel kallað hann aktivista þótt hann hafi nú lengst af verið meiri hugmyndfræðingur en aktivisti.

Af einhverjum dularfullum ástæðum virðist það vera einhverskonar feimnismál að Noam Chomsky, vinsælasti spekingur samtímans er anarkisti. Hefur m.a.s. lýst sjálfum sér sem anarco syndicalista. Af einhverjum undarlegum ástæðum er eins og megi alls ekki minnast á að samfélagsrýni hans ber öll meiri eða minni (aðallega meiri) keim af þeirri skoðun að yfirvald sé almennt til óþurftar og að hann telur yfirvald eingöngu eiga rétt á sér í þeim tilgangi að vernda og hjálpa, t.d. vald til að bjarga lífi manns sem er ekki í ástandi til að gefa samþykki.

Af einhverjum ástæðum nefnir enginn að andúð Chomskys á hernaði, áhugi hans á mannréttindum og tjáningarfrelsi, gagnrýni hans á stóriðju, þjóðernishyggju og jafnvel þjóðríkið og sú skoðun hans að kapítalismi og lýðræði fari illa saman, eru hugmyndir sem flestir anarkistar eiga sameiginlegar (enda þótt vitanlega deili fleiri einhverjum þessara hugmynda eða öllum.)

Nú er Chomsky sjálfur ekkert sérlega gefinn fyrir merkimiða og þótt öll hans orðræða beri þess merki að hann er anarkisti þá er hann ekkert að stagast á því sjáfur. Engu að síður eru íslenskir fjölmiðlar almennt frekar áhugasamir um stjórnmálaskoðanir mikilla áhrifamanna og því hlýtur sú spurning að vakna hvers vegna Íslendingar virðast forðast að nefna þá mikilvægu staðreynd að Noam Chomsky er anarkisti.

Líklega er það vegna þess að hann er hvorki með hanakamb né groddalokka og klæðist ekki fötum sem frænka hans keypi á nytjamarkaði og henti svo þegar hún úrskurðaði þau ónýt 6 árum síðar. Það er nokkuð ljóst að virðulegur, eldri prófessor í kaðlaprjónspeysu getur varla verið anarkisti. Ekki fremur en íslenskir góðborgarar geta verið nazistar nema bera hakakross. Eða ef hann er nú samt anarkisti, þá er allavega eins gott að nefna það ekki, því ekki viljum við nú koma óorði á fordóma Íslendinga gagnvart anarkisma.