Áherslur RÚV

Ég náði aðeins brotum úr annál rúv í gær og hélt hreinlega að ég hefði misst af upprifjun á göngunni með Ómari. Var að kíkja á annálinn aftur núna. Allir stóratburðir ársins eru inni, t.d. að herra Ísland hafi verið sviptur titlinum, fegurðardrottning misstigið sig og ný sveppategund fundist. Ekki orð um fjölmennustu mótmælagöngu Íslandssögunnar eða að upphafsmaður hennar hafi verið kosinn maður ársins (vegna þessarar óumræddu göngu) af hlustendum rúv fyrr um daginn.

Hreint ekki sýkn

Screenshot-from-2014-08-15-124625

Sýknudómur merkir að dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að fullyrða svo óyggjandi sé, að ákærði hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök.

Nú hefur héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu að Hannes Hólmsteinn hafi vissulega gert nákvæmlega það sem Auður Laxness gefur honum að sök, þ.e. að brjóta gegn lögum um höfundarrétt. Að vísu kemst dómurinn einnig að þeirri niðurstöðu að þar sem Hólmsteinn hafi ekki skaðað neinn (nema þá heiður sinn) með tiltækinu og vegna þess að Auður frestaði því of lengi að höfða mál, sé ekkert hægt að gera við brotinu nema segja sveiattan við skúrkinn. Það merkir samt ekki að Hannes hafi verið sýknaður samkvæmt réttri merkingu orðsins.

Uns sekt er sönnuð

Ætli söluhagnaður gærdagsins hafi náð sögulegu hámarki hjá DV?
Ef svo er hljóta þeir að vera glaðir.
Ég verð allavega alltaf glöð þegar fleiri krónur koma í kassann en ég átti von á.

Spurningin sem flestir spyrja sig hinsvegar er hvað má það kosta?

Hvað ætli líf hans hafi skilað DV mörgum þúsundköllum?

DV er ógeð

dv_oglogo

Plúsinn svona ansi snjall í dag. Býður landanum tveggja mánaða áskrift að þeim ómerkilega snepli DV með svarmöguleikunum Já takk ég þori og vil gerast áskrifandi að DV í 2 mánuði og fá 2 miða á Sailesh og Nei takk, ég þori ekki.

Ég sé ekki í fljótu bragði að það þurfi sérstakt hugrekki til að láta fóðra sig á ærumeiðandi kjaftasögum. Ef það er fáránleiki fyrirsagnanna sem heillar er nærtækara að kíkja á Baggalút. Það kostar ekkert og þar sem sú netsíða er kynnt undir merkjum fáránleika, ættu fréttir og fyrirsagnir sem þar birtast ekki að skaða neinn alvarlega. Sá vondi blöðungur DV þykist hinsvegar færa okkur alvöru fréttir sem er öllu alvarlegra.

Þar sem Plúsinn býður ekki upp á svarmöguleikann Nei, ég borga ekki fyrir pappír undir kattasandinn eða Nei, ég styð ekki blað sem hefur sorpfréttamennsku að yfirlýstu markmiði svaraði ég þessari auglýsingu ekki.