Bara eitt vandamál óleyst

 Jæja, allt tekur þrisvar sinnum lengri tíma en maður reiknar með í upphafi en loksins sé ég fram á að bókin okkar verði útgáfuhæf, ekki seinna en um næstu mánaðamót.

Stóra vandamálið í augnablikinu er að snillingurinn og dugnaðarforkurinn hann Ingólfur er ósammála mér um úgáfuformið. Mér hefur þótt einstaklega gaman að vinna með Ingó. Hann skilur mig nógu vel til að velja svipbrigði og sjónarhorn sem ríma algerlega við andblæinn í textanum og það hefur engan skugga borið á okkar samstarf. Vandamálið er hinsvegar að honum finnst það ’öfgakennd’ hugmynd að  pappírsnotkun sé í eðli sínu ofbeldi gegn trjám, og heldur fast við þá hugmynd að gefa hana út á pappír, þótt rafbók sé augljóslega hagkvæmari og umhverfisvænni kostur. Halda áfram að lesa

Ljúflingur

Það er ekki hlaupið að því að finna karlmann sem er í senn náttúrulega fallegur og ekki svo hávaxinn að ég líti út eins og skrípamynd við hliðina á honum. Hulla systir mín fann þennan brámyndarlega mann Ingvar Jóhannsson í hlutverk Ljúflings.

Allt komið á flug

Góðir hlutir gerast hægt. Frábærir hlutir gerast hinsvegar í hvelli. Þegar ég kom til Íslands þann 7. janúar var textinn nokkurn veginn klár, teikningarnar af Birtu og líklega 8-10 myndir. Hinsvegar var öll uppsetning eftir. Við kláruðum hana á 4 dögum og nú eigum við bara eftir að ganga frá nokkrum endum, setja inn barnæskumyndir og lesa próförk.

Ef okkur gengur jafn vel með kynningarmyndskeiðin, þá ætti bókin að vera orðin útgáfuhæf um mánaðamótin.

Spegill, spegill

Ingó er náttúrulega bara snillingur. Hann er búinn að taka helling af virkilega flottum myndum en ekki nóg með það heldur nær hann einhvernveginn fram svipbrigðum sem ég vissi ekki að ég ætti til. Við erum líka algerlega á sömu bylgjulengd hvað varðar vinnslu á myndunum. Fínt að nota myndvinnslu til að mýkja, skerpa eða ná öðrum áhrifum en það er engin ástæða til þess í svona bók að fremja fegrunaraðgerðir með photoshop. Þetta er blygðunarlaus bók sem stundum kallar beinlínis á hrukkur og annan dónaskap.