Styð forsjárhyggjuna

smokeÉg reikna með að flestir vina minna og kunningja séu æfir yfir hugmyndinni um reyklaus veitingahús. Rökin sem ég hef heyrt fyrir því að leyfa fólki að blanda andúmsloft annarra með ýmum hættulegum og óþægilegum eiturefnum eru t.d. þeir sem reykja hljóta nú líka að hafa einhver réttindi, það er nóg af reyklausum stöðum, og fólk þarf ekki að fara inn á veitingahús eða ráða sig þar til vinnu frekar en það vill.

Ég hef aldrei skilið fyrstu rökin almennilega. Hvernig getur það hugsanlega flokkast sem réttindi að fróa fíkn sinni á kostnað heilsu og vellíðunar annarra? Ef ég t.d. væri haldin óstöðvandi löngun til þess að mata annað fólk á mæjonesi gegn vilja þess, væri þá viðeigandi að hleypa mér með mæjoensfötu og skeið inn á veitingastaði og krefjast þess af öðrum gestum að þeir opnuðu munninn og kyngdu möglunarlaust?

Nóg af reyklausum stöðum? Ekki finnst mér það. Ef það er rétt að um 30% fólks 15 ára og eldri reyki, gæti ég fallist á að það væri “nóg” að 70% veitingastaða væru reyklausir. Ástæðan fyrir því að svo margir þeirra sem verja miklum tíma á veitingahúsum reykja, er einfaldlega sú að við hin forðumst aðstæður þar sem okkur er gert að reykja gegn vilja okkar og dveljum skemur á þessum stöðum en okkur langar, vegna óþægindanna. Kannski hefur það líka eitthvað að segja að fólk er almennt orðið meðvitað um það hvað reykingar eru ógeðslegar og því margt reykingafólk sem sóðar ekki út sín eigin heimili með tóbaksreyk heldur fer út til að reykja og þá gjarnan á kaffihús.

Ég get fallist á þau rök að fólk þurfi ekki að fara inn á veitngastaði eða ráða sig þar til vinnu frekar en það kærir sig um en ég held nú samt að forvarnargildi reykingabanns vegi þyngra, allavega hvað varðar yngstu gesti og starfsfólk veitingahúsa. Það er ekki hægt sé að búast við því að framhaldsskólakrakki taki heilsu sína fram yfir skemmtilegan félgasskap. Ég fór ekki að gera það sjálf fyrr en ég hafði hvað eftir annað fengið astmakast af völdum eiturefna í andrúmsloftinu, þá komin á fertugsaldur. Mjög hátt hlutfall þeirra sem ráða sig til vinnu á veitingastöðum er barnungt fólk. Fólk sem er áhrifagjarnt og því líklegra til að hefja reykingar, sérstaklega ef það er í umhverfi þar sem það virðist vel séð. Fólk sem er ennþá líkamlega heilbrigt, gerir sér enga grein fyrir því hvað góð heilsa skiptir miklu máli og finnst heilsubrestur vera í ljósára fjarlægð. Fólk sem hefur ekki ennþá komið sér upp þeirri skapfestu sem þarf til að biðja aðra að hlífa sér við reyknum jafnvel þótt reykurinn angri það mikið.

Sonur minn 18 ára vinnur á veitingastað þar sem aðrir reykja ofan í hann allt kvöldið. Ég hef ekki sagt orð við því. Ég er ansi hrædd um að ef vinnuskilmálar hans væru þeir að hann skyldi innbyrða mæjones jafnt og þétt allt kvöldið, myndi ég halda yfir honum langan fyrirlestur þar sem kæmu fyrir setningar eins og “að láta ekki traðka á sér”, “láta ekki svona niðurlægingu yfir sig ganga”, “ráða sig í vinnu á mannúðlegri stað”, “standa á rétti sínum”, “láta liðið bara heyra það”, “henda þessum dónum út”. Sennilega myndi ég leggja mig fram um að reyna að koma honum í aðra vinnu, jafnvel þótt hún væri bæði erfiðari og verr launuð.

Það er líka alveg á hreinu að ég færi aldrei ofan í sundlaug þar sem fólki væri leyft að baða sig og losa þvag í ákveðnum hluta laugarinnar, ekki einu sinni með bestu vinum mínum. Samt fer ég með þeim á kaffihús þar sem reykingar eru leyfðar. Ef ég, sem á yfirleitt ekkert erfitt með að halda fram óvinsælum skoðunum, sætti mig við þetta, við hverju má þá búast af unglingi?

Styð því sem strangast og víðtækast reykingabann. Ef ég sjálf er ekki betur vakandi en raun ber vitni er svo sannarlega þörf á því að pressan komi utan frá. Næsta skref verður að banna reykingar alfarið í návist barna, hvort sem er inni á heimilum eða annarsstaðar enda myndi það flokkast sem verulega ill meðferð á barni að troða ofan í það matskeið af mæjonesi 20 sinnum á dag.

Að lokum tilkynnist að þegar ég lýsi yfir áhyggjum mínum af reykingum systkina minna og vina, þá er það ekki vegna eðlislægrar nöldurhneigðar minnar heldur af því að ég fæ í alvöru talað gæsahúð á bakið þegar ég heyri hryglukenndan hósta í ungu fólki sem mér þykir vænt um. Ég sé fyrir mér reykingafólkið sem ég annaðist á meðan ég vann á elliheimilum og finnst ég bara ekki getað haldið leyndri þeirri vitneskju minni (ekki skoðun heldur vitneskju byggðri á reynslu) að þeir sem reykja verða lasburða gamalmenni miklu fyrr en ella. Ég greiði því öllum þeim forsjárhyggjufrumvörpum sem stuðla að því að vinir mínir verði færir um að vera mér til afþreyingar í ellinni hér með atkvæði mitt.