Einu sinni átti ég konu. Það voru góðir dagar. Verkaskiptingin á heimilinu var fullkomin. Hún þreif, ég eldaði. Hún sá um bókhaldið, ég gerði hagstæð innkaup.
Hún sá um að sendast út um allar jarðir með strákana mína ef ég átti erfitt með það sjálf og stelpan hennar hafði félagsskap af mér á daginn þótt mamma hennar væri sofandi eftir næturvaktina.
Þetta var líka afar hagkvæmt fyrirkomulag. Við hentum aldrei neinu því börnin hennar kláruðu allt dísæta ógeðið sem börnin mín höfðu beðið um en ekki viljað þegar til kom (t.d. Lucky Charms og prins lu kex) og mínir átu reyktu hrossabjúgun sem móðir hennar smyglaði til okkar í óþökk hennar.
Á morgnana þegar hún kom úr vinnunni og ég var ekki byrjuð að vinna, lagaði hún kaffi á meðan ég sótti snyrtivörulagerinn. Svo sátum við á veröndinni og lökkuðum á okkur neglurnar. Við vorum ægifagrar það sumar. Stundum spiluðum við scrabble.
Svo kom karlmaður á heimilið. Áfram var verkaskiptingin fullkomin. Hún sá um karlmennið, ég fór með ýmislegt óþarfa rusl í Sorpu.
En hvað haldiði að hafi svo gerst? Konan flutti út með karlmenninu. Það er sem ég segi, sumt fólk bara kemst ekki út úr því fari að gera lífið eins erfitt og mögulegt er.
Ég vil fá konuna mína aftur! Og ég bara spyr; hvað hefur hann sem ég hef ekki?