Skyggnulýsing 2

heiliÉg taldi víst að fáir hefðu áhuga á úttekt minni á kennsluefni kynjafræðinnar um svokallaðan „and-feminisma“ en það er öðru nær. Þessi pistill er búinn að fá þúsundir flettinga. Mér hefði þótt skemmtilegt að krefjast lykilorðs fyrir allar skyggnulýsingarnar en þar sem áhuginn er meiri en ég átti von á, ákvað ég að birta þá næstu hér.

Fyrsta glæra á eftir forsíðunni skýrir markmið kennaranna með umfjöllun sinni um skrif „and-feminista“, aðallega mín, en ég er þar nefnd „kyndilberi“. Einnig segir þar að and-feminísk viðhorf séu áberandi: að nauðsynlegt sé að greina þau og einnig að nauðsynlegt sé að svara gagnrýni á feminsma. Þetta lýsir meiri skarpskyggni en ég átti von á, prik fyrir það.

 

Kyndilberi andfeminisma

Ég gengst við titlinum „kyndilberi andfeminisma“ og ég ætla að segja ykkur hvers vegna ég er fullkomlega sátt við hann.

Á síðustu 10 árum hefur borið á þeirri undarlegu hugmynd að það sé eitthvað fínt að vera feministi. Skynsamt og jafnréttissinnað áhugafólk um kynjapólitík hefur unnvörpum lýst því yfir að það sé feministar. Jafnvel þeir sem sjá í gegnum forréttindastefnuna, forræðishyggjuna og aðra yfirvaldstilburði feminista, hika við að neita, þegar þeir eru spurðir hvort þeir séu feministar. Fáir svara afdráttarlaust neiog þeir sem ekki vilja bera þennan merkimiða, sjá sig knúna til að taka sérstaklega fram að þeir séu samt ekki á móti jafnrétti. Aðalástæðan fyrir þessum tepruskap er sú að feministum hefur, með blekkingum, lygum og með því að útmála konur sem fórnarlömb og karla sem þrjóta, tekist að koma á pólitískum rétttrúnaði. Sá sem lýsir yfir andstöðu við feminista getur reiknað með því að vera afgreiddur sem kvenhatari. Það er því öruggast að beygja sig undir kennivaldið og lýsa sig feminista.

Ég ber enga virðingu fyrir kennivaldi fasystranna. Mér finnst nákvæmlega jafn fínt að vera kvenhyggjusinni og að vera karlremba eða rasisti. Ég er jafn mikill andfeministi eins og ég er and-maskúlínisti, and-rasisti, and-fasisti og and-púrítani. Ég skal því með ánægju bera titilinn kyndilberi andfeminisma á Íslandi.

 

Að svara gagnrýni

Um nauðsyn þess að greina orðræðu and-feminista skal ég ekki segja en það er vissulega áhugavert eins og ég mun koma að í síðari pistlum. Um nauðsyn þess að svara gagnrýni á feminisma er ég hinsvegar sammála glærugerðarfólkinu og eftir slíkum svörum hef ég kallað stöðugt í tvö ár, án minnsta árangurs. Gagnrýni mín er of viðamikil til að hægt sé að greina í einum pistli frá öllu sem þarf að svara en ég skal einfalda þetta og gefa ykkur örfáar spurningar til að spreyta ykkur á.

 

1)  Gengisfelling hugtaka

Ég hef gagnrýnt feminisma fyrir gengisfellingu hugtaka. Og nú megið þið, akademisku feministar, svara fyrir hugtakanotkun ykkar, t.d. fyrir misnotkun ykkar á orðinu feðraveldi.

Þið haldið því fram að íslenskar konur búi við feðraveldi. Hvergi í heiminum er staða kvenna jafn góð og á Íslandi. Á íslandi getur kona kært ákvörðun til kærunefndar jafnréttismála ef hún telur sig hafa fengið ósanngjarna afgreiðslu við stöðuveitingu. Það er frábært, en vond er sú hliðarverkun að þar sem dólgafeministar skipa langflestar áhrifastöður í jafnréttiskerfinu fær hæfileikasnauð kona allan stuðning jafnréttisyfirvalda ef framúrskarandi karl er tekinn fram yfir hana. Undirmálskonum er jafnvel troðið í valdastöður út á það eitt að vera með píku.

Til eru samfélög þar sem alvöru feðraveldi ríkir enn í dag. Þar sem kynfæri stúlkubarna eru skorin af þeim með skítugu glerbroti og þær gefnar í hjónabönd áður en þær ná kynþroska. Þar sem konur eru dæmdar í fangelsi fyrir skírlífisbrot eða jafnvel drepnar af sinni eigin fjölskyldu án afskipta stjórnvalda. Þar sem nauðganafórnarlömb eru grýtt til bana.

Skárstu svörin sem ég hef fengið við því hvernig megi flokka Ísland sem feðraveldi eru þau að þar ríki klámvæðing og ungar konur raki píkuna á sér. Ég setti þennan samanburð upp á glæru:

 

fedraveldi

 

Með hvaða rökum réttlætið þið það að leggja þetta tvennt að jöfnu?

2) Kynjakvótar

Mín gagnrýni á kynjakvóta grundvallast á þeirri hugmynd að það eina sem þeir hafi upp á sig sé að færa til auð og völd innan sama kerfis.

Hvaða jafnrétti sjáið þið í því fyrir hinn valdalausa meirihluta að helmingur þess fámenna hóps sem arðrænir hann og kúgar sé með píku?

3) Tengsl kláms og ofbeldis

Þið haldið því fram að klámneysla leiði til ofbeldis.

Hvernig skýrið þið það þá að þrátt fyrir stöðugt betra aðgengi að ofbeldisefni og klámi hefur ofbeldisglæpum fækkað stöðugt á síðustu 30 árum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum?

4) Eftirlitssamfélagið

Þið viljið koma á ritskoðun og eftirliti með kynhegðun almennra borgara. Í nafni mannréttinda á að uppræta klám og ofsækja viðskiptavini kynlífsþjóna; fólks sem kærir sig ekkert um vernd og hefur gert „Save us from our saviors“ að slagorði sínu.

horumotmaeli

 

Hvernig samræmist þessi forræðishyggja þeirri sannfæringu að konur séu hugsandi verur og færar um að taka eigin ákvarðanir? Hvernig samræmist hún rétti kvenna til að taka ákvarðanir sem varða þeirra eigin líf og líkama?

5) Öfug sönnunarbyrði

Ég hef vakið athygli á kröfu feminista um að mannréttindabrot verði lögfest. Mikið hefur verið slakað á sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum á síðustu árum og dæmi eru um dóma þar sem sönnunarbyrðinni hefur beinlínis verið snúið við. Þetta er sama þróun og í nágrannalöndunum þar sem hvertmeinsærismálið á fætur öðru hefur komist upp eftir að menn hafa setið saklausir í fangelsi mánuðum og jafnvel árum saman.

Öllu fólki sem lætur sig mannréttindi einhverju varða býður við þessari þróun en þar sem flestum finnst óþægilegt að fá á sig stimpilinn „nauðgaravinur“ eða vera sakaðir um samúðarleysi með fórnarlömbum kynferðisofbeldis, þora fáir að segja það hreint út.

Gagnrýni minni á þessa stefnu hefur verið svarað með því að enginn sé að biðja um að sönnunarbyrði verði snúið við og nú skuluð þið svara því; hvernig er það ekki öfug sönnunarbyrði að taka því sem fullgildri sönnun ef kærandi virðist trúverðugur?

 

Svörin hingað til

Ég er sammála „kynjafræðingum“ um nauðsyn þess að þeir svari gagnrýni. Hingað til hafa svörin sem ég hef fengið verið útúrsnúningar og rökvillur. Getið þið gefið skýr svör við ofangreindum spurningum?

Eða finnst ykkur „búhúúúhúúú Eva er svo dónaleg að kalla okkur nærbuxnafeminista!“ vera góð rök?