Skárra en á horfðist

Það kostaði mig 12.700 kr að taka mark á löggunni. Aldrei að trúa löggum. Jújú, kannski um það sem snýr að löggæslu en ekki því sem snýr að bílaviðgerðum. Því ef viðkomandi væri bifvélavirki þá væri hann sennilega að vinna fyrir almennilegum launum en sem þræll hjá Birni marskálk.

Þeir sögðu mér að ég mætti svosem aka bílnum burt en mæltu ekki með því þar sem vatnskassinn væri ónýtur og hann myndi því bræða úr sér á næstu mínútum. Mér fannst óskemmtileg tilhugsun að aka hálfúrbræddu bílflaki um þetta eftirlætishverfi góðkunningja míns Bílastæðasjóðs. Ekki beinlínis til að toppa daginn ef hann gæfist upp í einhverri einstefnugötunni og ekkert stæði laust til að ýta honum í. (Maður verður að gera ráð fyrir að bílastæðagaldurinn taki 15 mínútur auk þess sem maður getur aldrei stólað á árangur á meðan maður er í geðshræringu.) Ég þáði því dráttinn.

Bílaspítalinn gerði ráð fyrir lágmark 200.000 kalli í viðgerðarkostnað og fyrir þann pening fengi ég skárra eintak. Walter bauðst til að hringja á bílapartasölu fyrir mig og ég kyngdi stoltinu og þáði það í von um að einhver sem hefði vit á bílum fengi hærra tilboð en fávís konan. Miðað við hvað bílgarmurinn var mikið ekinn gátu þeir þó ekki gefið honum von um að fá mikið fyrir hann. Ég reiknaði með að láta draga flakið burt í dag en í morgun fór Walter með mér til að sækja dót úr bílnum og fann hjá sér hvöt til að kíkja undir húddið. Það var mikil gæfa.

Það er semsagt ekkert að vatnskassanum. Það er ýmislegt annað að bílnum en eftir nokkra klukkutíma í bílskúrnum og kynni af verklagni Pegasusar, er hann ökufær. Hann mun ekki vinna fegurðarsamkeppni á næstunni en hann er hvorki óökufær né hættulegur. Víííí! Alexander var náttúrulega með hrafnskló í vasanum og það hefur greinilega haft sín áhrif. Það er þægilegt að vera á bíl. Ekki nauðsynlegt en ég játa að kæti mín jókst stórum við þá frétt að ég yrði að líkindum bílandi, allavega fram á sumar

Ég hélt að ég væri búin að taka á móti öllum þeim samúðarkveðjum sem ég á annað borð fengi, þegar ég bloggaði til dýrðar harmarunkliði tilveru minnar í gær. Ein var þó eftir. Systir mín elskuleg (hin ríkari) hringdi í mig í gærkvöld og þegar ég sagði henni að ég myndi ekki kaupa annan bíl, þar sem ég ætti ekki fyrir honum og tæki bara ekki neyslulán að óþörfu, vottaði hún mér grátklökk samúð sína yfir því að vera „komin aftur í svona lága samfélagsstöðu“.

Ég get svarið það, ég er ekki einu sinni að færa í stílinn, það var nákvæmlega þetta sem hún sagði. Og ég fullyrði að hvorki hún né aðrir þeir sem hafa dramakastast yfir meintum harmi mínum trúa því eða skilja hvað ég á við þegar ég lýsi feginleik mínum yfir því að heyra ekki til í þeim heimi þar sem meira er aldrei nóg. Ég tek heilshugar undir með Strindberg; mikið ósköp eiga mennirnir bágt.