Órætt

Birta: Segðu mér nú ekki að þú ætlir að fara að búa til vandamál dramadrottningin þín.
Eva: Þvert á móti, ég ætla að fyrirbyggja að það verði vandamál.
Birta: Þú tekur þessu of alvarlega. Það er ekkert að ræða, þið eruð ekki einu sinni ósátt.
Eva: Ekki núna nei, en Pegasus sagði einu sinni að flest hræðileg flugslys hefði mátt fyrirbyggja ef áhöfnin hefði tekið mark á litlu, ómerkilegu aðvörunarljósi, sem virtist bara vera „eitthvað tilfallandi“.

Ég kann einfalda uppskrift að rifrildi. Lærði hana utan að í uppvextinum. Það byrjar með því að fólk ákveður að ræða málin. A segir eitthvað sem B skilur ekki og B svarar með einhverju sem A skilur ekki. Þá endurtekur A það sem áður var sagt með nokkuð hærri málróm og B svarar með niðrandi athugasemd. A æpir; þú hlustar aldrei á mig og B gargar; viltu hætta að rífast við mig. A öskrar; ég er andskotakornið ekkert að rífast og bæði reyna að telja lækna geðshræringu barnanna með fullyrðingum um að þau séu ekkert að rífast heldur rökræða.

Ætlum við að ræða málin? Það hlýtur að vera. Allavega sitjum við í glugganum og allt er í heiminum táknrænt.
Birta: Þú situr oft í þessum glugga þótt þú sért ekki að ræða eitt eða neitt, það er ekkert táknrænt við það.
Eva: Ég já, en ég minnist þess ekki að hafa séð hann setjast hér áður og ÞAÐ er táknrænt. Sá sem sest út við glugga án þess að vera vanur því hlýtur að ætla að sýna einhverjum eitthvað sem alla jafna er falið á bak við gluggatjöld.

Það er kannski ekkert skrýtið þótt manni finnist stundum skárri kostur að þegja bara en að ræða málin en það er til útgáfa sem þarf ekki endilega að vera slæm. A segir eitthvað sem B skilur ekki og B svarar einhverju sem A skilur ekki. Og þá tekur A í höndina á B og segir lágt og elskulega; þú skilur mig ekki og B segir; jú elskan, ég skil þig alveg en ég held að þú hafir rangt fyrir þér, geturðu útskýrt betur hvernig þú hugsar þetta? Og A hlustar þegar B útskýrir og svo hlustar B á meðan A útskýrir. Samt botna þau ekki almennilega hvort í öðru en eftir marga hringi af því sama, án þess að beita ásökunum eða draga sig inn í skel, fer annað að sjá einhvern hluta af myndinni sem virtist ekki jafn greinilegur áður.

-Ég meinti það ekki þannig.
-Nú, af hverju sagðirðu það þá þannig?
-Ég sagði það ekki þannig, ég sagði það hinsegin.
-Já en ég heyrði það þannig. Ef ég heyrði það þannig þá hlýturðu að hafa sagt það þannig.
-Nema þú hafir beinlínis verið að leita að ‘þannig’.
-Ef ég gat fundið það þá hlaut það að vera þarna.
-Mér finnst þú hafa stórfurðulegan fókus. Ég meinti það ekki þannig.
-Hvernig meintirðu það þá?

Stóri bróðir hefur sínar jákvæðu hliðar. Eftir nokkur ár getum við farið á netið og fengið upptökur af öllum okkar samskiptum og séð sjálf nákvæmlega hvað við sögðum og gerðum, í hvaða tón og með hvaða svipbrigðum. En ekki enn.

-Fjandinn hafi það, ég hef aldrei viljað vera með útlendingi af því að ég nenni ekki að standa í tungumálaveseni en þetta er ekkert skárra, sagði ég.
-Heldurðu að sé útilokað að vandamálið sé að einhverju leyti hjá þér sjálfri?
sagði hann.
-Er ég eitthvað að skella skuldinni á þig? sagði ég undrandi.
-Þú lítur allavega þannig út. Þú hristir höfuðið, ranghvolfir augunum, sveiflar höndunum…
-Ég ER pirruð, en ég er ekkert að kenna þér um það. Ég er pirruð yfir aðstöðunni en ekki út í þig skilurðu. Ég er ekkert að leita að sökudólgi þótt við tölum ekki sama tungumál, við verðum bara að læra á hvort annað og ég er pirruð yfir því að það taki tíma.

Hann virtist skilja það og ég sá allt í einu lógíkina í því sem mér hafði andartaki áður þótt gjörsamlega fráleit túlkun.

Mér er sagt að ég sé hvöss, jafnvel þegar mér finnst ég hreint ekkert hvöss sjálf. Móðir mín sagði einu sinni að ég væri eins og nakin kona föst inni í ískúlu. Þú sýnir allt en það er samt ómögulegt að nálgast þig, sagði hún. Það er auðvitað kjaftæði. Það er ekkert ómögulegt að nálgast mig þótt ég hafi í nokkrum tilvikum valið að frysta fólk úti og gengið það vel. Ég játa þó að ég fékk dálitla bakþanka um daginn þegar systir mín hélt því fram að ég væri „rosalega lokuð“. Ég hló og sagði henni að ég væri nú sennilega opnasta manneskja á jarðríki.
-Líf mitt er á opinni netsíðu, jafnvel innstu kenndir, sagði ég.
-Þú ert samt lokuð, bara á allt annan hátt en allir aðrir sagði hún, en skýrði það ekki nánar. Ég er ekki lokuð en mér finnst ég samt ekki geta hundsað þessa hugmynd þótt hún sé álíka rugludallsleg og fegurðarskyn Kela, sem finnst Elín Hirst vera fegursta kona á Íslandi. Það getur bara ekki verið að svo margir sjái eitthvað í mér sem er alls ekki til staðar.

Hvenær er mál útrætt? Þegar allir hafa gert grein fyrir atkvæði sínu? Eða þegar allir hafa meðtekið rökin fyrir öllum atkvæðum? Þegar allir eru búnir að átta sig á öllum sjónarhornum? Eða þegar allir eru farnir að treysta því að sjónarhorn þeirra sé virt? Eitt gengur allavega ekki. Maður getur ekki leyft sér að fara fram á að fá að vita hvað gengur á í höfðum annarra og þegar maður sér súrrealismann þar að reyna þá að leiðrétta hann. Picassó verður ekki leiðréttur þótt hann bjóði manni upp á gufurugluð hlutföll og sjónarhorn. Maður verður bara að halda áfram að skoða hann, þar til hann hættir að verka svona órætt á mann. Nú eða taka því óræða.

-Það besta við þig er að þú skilur mig svo vel. Og það versta við þig er að þú skilur mig svo illa.
-Ég skil þig. Eða allavega hvað þú átt við með þessu, því ég upplifi þetta eins. Það besta við þig er að þú ert að mörgu leyti eins og opin bók. Það versta við þig er að þú ert að mörgu leyti eins og lokuð bók.

Ligg í faðmi hans í þessu stóra, stóra rúmi, sem er svo hátt að það liggur við að maður þurfi klifurbúnað til að komast upp í það. Hvers vegna hef ég séð tákgildi þess fyrr. Lófi yfir úlnlið mínum. Merkir það kannski eitthvað annað en ég hélt?

Við erum ekki eins ólík og við héldum. Ég veit ekki alveg hvort það er gott eða slæmt.

 

One thought on “Órætt

  1. —————————-

    Opnar bækur eru ekki endilega einfaldar bækur eða auðskiljanlegar. Opnar bækur eru stundum krefjandi fyrir lesandann og það eru ekki allir jafn vel læsir.
    Góð færsla hjá þér eins og hérumbil alltaf.

    Posted by: Hulda Hákonardóttir | 7.02.2008 | 12:17:20

Lokað er á athugasemdir.