Sjúkraliðinn með pappaspjaldið

Í tilefni þessarar fréttar ætla ég að birta aftur þetta kvæði sem ég orti um djarfa framgöngu lögreglunnar gegn helsta ógnvaldi bandaríska sendiráðsins.

Lárus Páll Birgisson (venjulega kallaður Lalli sjúkraliði) var dæmdur fyrir óhlýðni við lögregluna vegna mótmælastöðu sinnar við ameríska Sendiráðið. Þar hafði hann tvívegis verið handtekinn, fyrir það eitt að standa á almennri gangstétt með pappaspjald. Í fyrra skiptið var áletrunin „stríð er glæpur“ í hið seinna „elskum friðinn“. Þetta þóttu sendiráðsmönnum nógu ógnvekjandi skilaboð til þess að hringja á lögregluna og löggimann brást við með því að handtaka manninn og draga hann fyrir dóm. Þetta er Ísland í dag; land tjáningarfrelsis og lýðræðis.

Lagið er Finnegan’s Wake, ég læt fylgja youtube vídeó með laginu hér neðst. Myndbandið hér að ofan er frá 1. október 2009. Fyrir neðan er myndband frá mótmælum við sama sendiráð í maí 2010 og annað frá mótmælum hernaðarandsæðinga 19. september 2010, sama dag og Lalli var leiddur fyrir héraðsdóm og sakfelldur fyrir óhlýðni við lögregluna.

Á stöðinni sátu Geir og Grani
er geigvænlegt barst þeim neyðarkall
við ameríkanska embassíið
var Ósama kominn upp á pall.
„Til varna grípum“ Geir Jón kvað,
„því götuskríllinn heimtar blóð.
Ofstopafullir andófsfautar
ógna nú vorri herraþjóð.“

Blýantinn greip og skýrslu skráði
skelfingu lostið yfirvald.
Sat fyrir utan sendiráðið
sjúkraliði með pappaspjald.

Kylfurnar munda kappar vorir.
„Hver fær að lemja óþokkann?“
Því labbandi eftir Laufásvegi
er Lárus Páll við þriðja mann.
Með skilti að vopni og víkur ei
þótt varðhundarnir flykkist að.
„Stríð er glæpur“ stendur skrifað
stéttinni ógnar þvílíkt blað.

Blýantinn greip og skýrslu skráði
skelfingu lostið yfirvald.
Sat fyrir utan sendiráðið
sjúkraliði með pappaspjald.

Mikið er uppnám innandyra
og einn hefur kúkað upp á bak
en löggurnar djarfar Lárus grípa,
léttir þá öllum óttans tak.
Þeir troða Lalla í löggubíl
og lesa honum bófans rétt
en friðardólgsins fylgisveinar
flýja af hinni helgu stétt.

Blýantinn greip og skýrslu skráði
skelfingu lostið yfirvald.
Sat fyrir utan sendiráðið
sjúkraliði með pappaspjald.

Þeir drógu hann fyrir dóm og vildu
að dónanum yrði refsing gerð.
Óhlýðni hans við yfirvaldið
ámælis þótti dómnum verð.
„Vér sekan dæmum svoddan þrjót.“
Og samt hann sýnir hvergi bót.
Hann staðhæfir enn að stríð sé glæpur
og stéttina virðir ekki hót.