Sifjar

Sit við eldhússborð í Hlíðunum og virði þá fyrir mér. Bræður mína sem ég kynntist aldrei. Fékk ekki að kynnast? Eða ber ég kannski bara fulla ábyrgð á því sjálf að hafa látið stjórnast af tillitssemi við mann sem ég hafði svosem engar skyldur við? Nú þegar ég sit hér og horfi á þá, finnst mér ég hafa misst af einhverju og spyr sjálfa mig hvort það hafi raunverulega verið tillitssemi við föður þeirra sem réði ákvörðun minni um að halda mig til hlés eða hvort það var bara óttinn við höfnun.

Horfi á þá og leita að genum (sem ég sjálf hef þó alltaf sagt að skipti engu máli.) Þeir eru báðir grannvaxnir með fíngerða beinabyggingu en ekki finnst mér þeir sviplíkir. Annar ljós með fínlega andlitsdrætti og æðruleysisyfirbragð, myndi henta vel í hlutverk hins lærða manns á leiksviði. Hann er sálfræðingur og ég fæ á tilfinninguna að hann nálgist skjólstæðinga sína af fordómaleysi en það er því miður ekki sjálfsagt í heilbrigðiskerfinu. Hinn er svipmikill með lágt enni og svartar, þungar augnbrúnir, þó alls ekki þunglyndislegur í útliti. Eitthvað í fari hans minnir mig á Darra, hann Darra minn sem þrátt fyrir fámælgi sína hefur svo mikið að segja. Þeir eru ekki líkir í útliti fyrir utan þennan sterka augnsvip en það er eins og undir niðri kraumi meiri ástríður en hjá meðalmanninum. Kannski er það bara ímyndun í mér, ég hef aldrei verið sérstakur mannþekkjari.

Ég upplifi þá ekki sem bræður. Hvað ef við hefðum alist upp saman? Hefðu þeir skriðið upp í til mín á næturnar eins og uppeldissystkini mín og hefði það haft áhrif á samræður okkar í dag ef ég þekkti tónlistarsmekk þeirra, aðferðir þeirra til að leysa vandamál, styrk þeirra og veikleika, fjárhagsstöðu, drykkjuvenjur og kærustur?

Eftir um 90 mínútur veit ég allavega að þeir hafa í grundvallaratriðum þannig skoðanir að mér hlýtur að líka vel við þá. Og ég sem trúi ekki á félagsleg gen, leita að erfðum. Ekki eru sameiginleg útlitseinkenni sterk, kannski þessi fíngerðu bein og með virkilega góðum vilja sé ég sama alvörusvipinn á sálanum og sjálfri mér en ég efast um að ég hefði séð hann ef ég vissi ekki að við erum blóðtengd. Viðhorfin hinsvegar, þau eru lík.
„Nei ég held ekki að skoðanir erfist, en meðlíðun er undirstaða svo margra viðhorfa og hver veit nema tilhneiging til að setja sig í spor annarra sé einhvern veginn skráð í genin,“ segir sálinn.

Mér finnst ég þekkja þann dökkbrýnda dálítið nú þegar. Við höfum skrifast á og hann er opinskár og þægilegt að skrifast á við hann. Mér fannst ég eignast bróður eftir að hafa lesið tvö bréf frá honum. Og nú á ég einn í viðbót. Mér datt aldrei í hug að það gæti skipt mig svo miklu máli en ég vona að ég eigi eftir að hafa meira af þeim að segja.