Glæpur múffukonunnar

Í fyrrasumar stóðu aktivistar fyrir norðan að skemmtilegu framtaki. Bökuðu helling af flottum muffinskökum og seldu í lystigarðinum. Fengu sjálfboðaliða til að vera með lifandi tónlist og gerðu úr þessu fjölskylduskemmtun. Söfnuðu 400.000 kr handa fæðingardeild sjúkrahússins. Nú í sumar ætluðu þessar duglegu konur að halda annan múffudag en þeim var bannað það. Vegna heilbrigðissjónarmiða, sko. Kaka bökuð í heimahúsi er nefnilega svo heilsuspillandi að það má ekki selja hana.

Líklega hafa fáar þeirra kvenna sem tóku þátt í múffubakstri og annarri skipulagningu í kringum þennan dag, nokkurntíma kallað sjálfar sig aðgerðasinna. Flestir sjá aðgerðasinna fyrir sér sem hippa hangandi utan á vinnuvél eða eitthvað í þá veruna. En pólitískar aðgerðir fela ekki alltaf í sér mótmæli. Aktivismi snýst um það að taka virkan þátt í að móta samfélag sitt, hvort sem það er með sjálfboðastarfi í þágu þess eða andófi gegn eyðileggingu þess. Konurnar fyrir norðan hefðu reyndar átt að ganga lengra í sínum aktivisma, þær hefðu átt að hundsa bannið og halda þessa skemmtun í trássi við fáránleg lög. Það hefði verið pínu neyðarlegt fyrir lögguna að „neyðast til“ að dæla piparúða yfir fjölskyldufólk að gæða sér á múffum í lystigarðinum.

Þeir sem álíta múffumáli ómerkilegt, skilja hvorki gildi þess að fólk taki ábyrgð gagnvart samfélagi sínu, né átta sig almennilega á því hvað samfélag er. Samfélag er nefnilega ekki það sama og ríki. Ríki er ópersónulegt yfirvald, regluverk sem hefur það eina markmið að viðhalda sjálfu sér með öllum ráðum og þrífst á óvirkni og gangrýnisleysi borgaranna. Samfélag er hinsvegar hópur fólks sem hjálpast að og deilir reynslu. Þegar ríkið ræðst gegn samfélaginu, hindrar fólk í því að hjálpast að og deila reynslu, þá er kominn tími til að rísa gegn ríkinu.

Múffumálið er mun alvarlegra en maður gæti haldið við fyrstu sýn. Það er nefnilega dæmi um markvissa viðleitni yfirvaldsins til að viðhalda þegnlyndi hinna óvirku neytenda og berja niður allt frumkvæði og ábyrgð fólks gagnvart samfélagi sínu og sjálfu sér. Fólk á að vera óvirkt og láta fagmenn um að baka, skipuleggja skemmtanir og útvega peninga til að reka velferðarþjónustu. Fólk á ekki að gera, fólk á að kaupaog fyrir alla muni af „viðurkenndum“ aðilum. Haltu kjaft og borgaðu skatt, það eru skilaboðin.

Næsta skref í þessari viðleitni ríkisvaldsins til að gera okkur öll að óvirkum froðuheilum, hlýtur að vera það að banna foreldrum að baka fyrir skólaskemmtanir. Sömu heilbrigðissjónarmið hljóta að gilda í grunnskólanum og lystigarðinum, þannig að rökrétta lausnin er sú að fá bakarí til að sjá um veitingarnar á árshátíðinni. Næst verður fólki svo bannað að halda fermingarveislur í heimahúsum.

Lokastig niðurrifs ríksins gegn samfélaginu verður svo að banna fjölskylduna. Þegar allt kemur til alls er fólk venjulega alla ævina að glíma við vandamál og sársauka sem tengist því að eiga fjölskyldu. Það verður því ekki fram hjá því litið að fjölskyldan er í raun og sannleika stórskaðlegt fyrirbæri. Næstum jafn skaðleg og samfélag og klárlega mun skaðlegri en múffur.

Ástæðan fyrir því að ríkisvaldið bannar múffubakstur er nefnilega ekki sú að almenningi stafi hætta af heimabakstri, heldur sú að ríkinu stafar ógn af fólki sem tekur virkan þátt í að móta umhverfi sitt. Glæpur múffukonunnar er ekki sá að selja múffu, heldur er það grasrótarstarfið, hin sjálfsprottna samvinna sem ógnar bákninu. Konan sem bakar múffur, sýnir með því framtaki hvernig samheldni, sjálfboðastarf og svolítil skemmtilegheit, geta komið góðum hlutum til leiðar, án þess að nokkurt yfirvald voki yfir og segi okkur hvort og hvernig eigi að gera hlutina.

Múffukonan leiðir í ljós þarfleysu ríkisvaldsins og það er hennar glæpur.

One thought on “Glæpur múffukonunnar

 1. ——————————————

  Mér skilst að Evrópusambandsreglurnar sem margumrætt múffubann byggir á hafi verið lögfestar hér 2005. á þeim sex árum sem síðan eru liðin hafi hins vegar íslenska stjórnsýslan ekki sett nánari reglur/undanþágur eins og gert hafi verið annars staðar innan sambandsins. Í grunninn snúast þessar reglur um neytendavernd, en við sitjum uppi með ýtrustu skilyrði af því stjórnsýslan hér stendur ssig ekki í stykkinu.

  Posted by: HT | 29.07.2011 | 10:02:04

  ——————————————

  Ég man að fyrir mörgum árum var það rætt í mínum hópi hvort væri þá búið að taka fyrir það að fólk seldi flatkökur eða sultu í Kolaportinu. Ég hélt að þetta hlyti að hafa verið lagað því öll þessi ár hefur það tíðkast að fólk selji bæði bakkelsi og annað heimalagað og ekki man ég nokkurt tilvik þar sem sjúkdómar hafa verið raktir til sölu ólöglegs heimabaksturs. Það er eitthvað mikið að ef tekur 6 ár að setja inn undanþáguákvæði vegna svona mála.

  Posted by: Eva | 29.07.2011 | 13:16:17

   

Lokað er á athugasemdir.