Siðferði, trúleysi, trú

Atheist_1Trúmenn láta oft að því liggja að trúleysingjar hljóti að vera siðlausir eða ófærir um að  meta muninn á réttu og röngu fyrst þeir geti ekki sótt svörin í trúarbrögðin. Þeir álíta að hugmyndir okkar rétt og rangt séu komnar frá Guði. Ég tel hins vegar að menn hafi komið sér saman um meginreglur sem gilda í hverju samfélagi, vegna þess að þær gera lífið auðveldara.

Sjálfsagt er siðferðileg afstaða trúlausra á ýmsa vegu. Sjálf aðhyllist ég húmaniska lífsskoðun a.m.k. í aðra röndina þótt ég hafi ekki nægan áhuga á skoðunum húmanista til að vilja tilheyra samtökum þeirra.

Samviskan

Orðið samviska er býsna gott orð. Það felur í sér hugmynd um sameiginlegan skilning manna á því hvernig þeim beri að hegða sér. Samviskan er eilítið mismunandi eftir samfélögum en langflest samfélög eiga þó sameiginlegt að hafa komið sér upp reglum sem lúta að helgi mannslífsins, eignarrétti, valdatengslum, kynlífi, fjölskyldutengslum og meðferð þeirra sem brjóta þessar reglur.

Siðferði (eða sameiginlegar hugmyndir um rétt og rangt) er nauðsynlegt til þess að forðast of harða og tíða árekstra manna á milli. Við þurfum ekki trú til að sjá hvílíkum skaða og sárindum það veldur ef við göngum um stelandi og ljúgandi. Við þurfum heldur ekki trúarbrögð til að koma okkur saman um það hvað sé sjálfsögð kurteisi og hvað ekki. Þess vegna sturtum við niður úr klósettinu eftir okkur og stillum okkur um að missa hnefann í andlitið á næsta manni jafnvel þótt hann klikki á því.

Trúarbrögð gefa ekki endanleg svör um rétt og rangt

Ég hef aldrei þurft á neinni reglubók að halda til að meta það hvaða hegðun er rétt, góð og viðeignandi. Ég brýt stundum reglur en oftast er það þá meðvitað. Ég veit hvaða lög gilda, ég veit hvað er samþykkt sem rétt og gott í mínu samfélagi og sé það vafamál er einfalt að grípa til reglunnar; allt er leyfilegt svo framarlega sem það skaðar engan.

Þrátt fyrir lög og óskráðar reglur sem okkur eru innprentaðar í uppvextinum, komumst við aldrei hjá því að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Þegar siðferðislögmál stangast á þurfum við að velja og hafna.

Stundum er það auðvelt. Það er t.d. ekkert erfitt að taka ákvörðun um að brjótast inn í hús með því að mölva rúðu eða valda öðrum eignaspjöllum, ef reyk leggur út um glugga og íbúarnir eru í fasta svefni. Tilgangurinn er sá að bjarga mannslífum og samviska okkar segir að mannslíf sé meira virði en friðhelgi heimilisins og eignarrétturinn samanlagt.

Oftast er þó valið erfiðara. Er t.d. réttlætanlegt að fara á strippbúllu til að horfa á fallegar stúlkur glenna sig ef eiginkonan er því mótfallin, svo framarlega sem hún kemst ekki að því? Sumir segja já, það sem þú veist ekki skaðar þig ekki og þú hættir ekki að elska konuna þína þótt þú hafir gaman af að horfa á flotta rassa. Aðrir telja að allt sem hindrar fullkominn trúnað milli hjóna skaði hjónabandið. Er réttlætanlegt að grípa til lygi til að hlífa aldraðri móður við sársaukafullri vitneskju um að sonur hennar sé alls ekki í útlöndum heldur á Litla Hrauni? Sumir segja já, það skiptir mestu að sem flestir séu hamingjusamir. Aðrir segja nei, það er réttur hennar að fá að vita sannleikann og takast á við sársaukann, fremur en að lifa í blekkingu.

Slíkum spurningum stöndum við iðulega frammi fyrir, hvort sem við trúum á Guð eða ekki og trúarbrögðin eiga alls ekki nein einhlít svör við þessu.

Siðferði trúarbragðanna á auk þess við um samfélög sem eru svo langt frá okkur bæði í tíma og hugsunarhætti að það gagnast okkur lítið og reglurnar eru oft svo óljósar að jafnvel bókstafstrúarfólk þarf (sem betur fer) að grípa til samvisku sinnar. Það er t.d. dagljóst að Biblían fordæmir bæði mannhóra og sódómsku en þó virðist misjafn skilningur á því meðal kaþólskra presta hvort það flokkist sem sódómska að eiga kynferðisleg samskipti við börn. (Spurning hvort Guð myndi ekki fíla það í botn ef páfi tæki svolítið til heima hjá sér og breytti herferð sinni gegn hommum og lesbíum í herferð gegn barnamisnotkun innan kirkjunnar?)

Sannleikurinn er sá að siðferðisreglur trúarbragðanna koma okkur að litlu haldi í dag. Við þurfum ekki trú til að komast að þeirri niðurstöðu að menn eigi að lifa í sátt við umhverfi sitt og samfélag. Við erum ábyrg fyrir eigin hegðun og verðum bara að sætta okkur við það. Það kemur enginn og færir okkur lausnirnar, hvorki á silfurfati né á leirtöflum.

Vísindi og siðferði

Vísindamenn standa frammi fyrir alvöru siðferðilegum spurningum sem trúin á engin svör við. Er klónun manna réttlætanleg eða jafnvel af hinu góða? Er í lagi að láta apa ganga með mannsfóstur og fæða það? Megum við gera tilraunir með æxlun mismunandi dýrategunda? Á að gefa fólki kost á að velja erfðaeigindir barna sinna þegar vísindin gera það mögulegt? Þið sem álítið að vísindi án trúar séu skaðleg, segið mér nú hvar trúin kemur inn í dæmið. Hvaða svör hafa trúarbrögðin við þessum spurningum?

Lög og siðferði

Löggjafinn stendur sömuleiðis frammi fyrir erfiðum spurningum og enginn Guð kemur þeim til hjálpar. Er “jákvæð mismunun” réttlætanleg eða er mismunun neikvæð í eðli sínu? Er réttlætanlegt að hækka laun hálaunastéttar um hærri upphæð en heildarsummuna sem öryrkinn fær? Er rétt eða rangt að láta þroskahefta gangast undir ófrjósemisaðgerðir? Á herinn að vera eða víkja? Er það brot á persónuverndarsjónarmiðum að hafa álagningarskrár skattsins til sýnis fyrir almenning? Á að leyfa krabbameinssjúku fólki að ættleiða börn? Hefur trúin svörin?

Einkalíf og siðferði

Hver maður stendur iðulega frammi fyrir siðferðilegum vanda.

Á hvaða stigi á ég að láta barnaverndarnefnd vita að nágrannarnir eigi í erfiðleikum með uppeldi barna sinna? Um leið og ég heyri fyrsta rifrildið? Nei varla. Eftir að unglingurinn er kominn út í fíkniefni og afbrot? Nei, miklu fyrr. Hvenær? Á ég að segja vinkonu minni í einlægni að mér finnist líklegt að kærastinn hennar muni fara illa með hana? Á ég að leyfa syni mínum á 15. ári að mæta í afmæli bekkjarbróður síns vitandi að þar verður honum boðið að horfa á mynd sem er bönnuð innan 16 ára? Á ég að slíta að fullu eða viðhalda innilegu, platónsku vináttusambandi til 20 ára við karlmann sem er kvæntur annarri konu en er ástfanginn af mér? Þetta er lífið, völin og kvölin, hér á trúin heldur engin svör.