Í geðbólgu minni yfir skíthælshætti íslenskra stjórnvalda í málum flóttamanna, frestaði ég því að svara þessari áskorun. Ég veit reyndar ekki hvort er nein sérstök ástæða til að flækja hlutina svona mikið, þ.e. að nota 6 orð þegar 1 dugar, semsé sápuópera en mér er nú sjaldan orða vant svo ég hlýt að bregðast við.
Líf mitt í 6 orðum: efahyggja, táknhyggja, óþreyja, ástríða, ófyrirsjáanleiki, sápuópera.
Ég ætla ekki að skora á neinn af því að einmitt þeir sem ég vildi spyrja eru ekki líklegir til að vilja svara.
Annars er ég að pæla í einu. Ég hef fengið óvenju mikinn lestur síðustu daga og hef verið að skrifa um mál sem bloggheimur virðist hafa töluverða þörf fyrir að tjá sig um. Engu að síður fæ ég ekkert fleiri komment en þegar ég skrifa mjög persónulega og ljóðræna texta. Ekki svo að skilja að ég sé að biðja um meiri viðbrögð en mig langar að vita hversvegna svo margir lesa en svo fáir svara. Eru allir svo rosalega sammála mér að þeir hafi engu við að bæta? Eða þora þeir sem eru mér ósammála ekki að svara? Mér þætti rökrétt að mikið lesnar vefbókarfærslur fengju mest viðbrögð en á mínu bloggi er það öfugt.
————————————-
ekki veit ég hverju þetta sætir.
og mér finnst ekkert sérlega mikið skrifað eða rætt um mál Pauls, þetta vekur miklu minni athygli en ísbirnir og Lúkas, svo mikið er víst.
Posted by: baun | 5.07.2008 | 10:36:32
— — —
Ég var einmitt að svara lesanda sem spurði um þetta hjá mér, að þegar færslur eru „mikilvægar“, fjalla um „alvöru mál“ þá koma engar athugasemdir en þegar maður blaðrar út í loftið koma athugasemdir í röðum. Ég hef enga skýringu á þessu en er eiginlega hætt að furða mig á þessu.
Mér finnst þú svo oft skrifa svo innilega rétt að eiginlega nennir maður ekki að skrifa „amen“ eða „já, rétt hjá þér“ eða annað sem líkist allt of mikið hinum ógnvekjandi já-kórum moggabloggsins.
Posted by: Kristín | 5.07.2008 | 17:22:40
— — —
Og gleymdi náttúrulega að segja þér að Baunin var með þetta rangt í byrjun, það sem á að gera er að skrifa sex orða ævisögu. Þetta heitir MEME og er borið fram eins og enska orðið gene, kemur úr mimesis, Baun skildi eftir tengla undir minni skotfærslu.
Posted by: Kristín | 5.07.2008 | 17:24:35