Þelamerkurskóli. Það var ágætur tími. Mér leið vel í skólanum. Eða allavega skár en heima hjá mér. Ég átti ekki nána vini en ég hafði félagsskap og naut þess.
Við tuskuðumst og keluðum, spiluðum hjónasæng og kossaspil. Fórum í kjánalega leiki eins og 5 mínútur undir sænginni og sannleikann eða kontór (sem var ekki kaupfélagskontórinn).
Ég missti af 10 ára afmælinu, mætti í 20 ára afmælið. Það var áhugavert. Allavega nógu gaman til þess að við ætlum að hittast aftur aðeins 5 árum síðar. Ég fór að hugsa um það í gær hvernig útkoman yrði ef við færum í sannleikann eða kontór í dag. Áður voru það spurningar eins og hverjum ertu hrifin af? Hefurðu farið í sleik? Hefurðu stolið úr búð? Hvað varstu gamall þegar þú hættir að pissa undir? Svindlaðirðu á stærðfræðiprófinu? Hvað fróarðu þér oft? (Eða ef það var stelpa „hefurðu prófað að fróa þér?) Áskoranir voru jafnvel fátæklegri. Kyssa einhvern úr hópnum, sem hafði þá neitunarvald svo oftast varð ekkert úr því. Kannski að syngja einsöng. Það svakalegasta sem ég lenti í var að sýna á mér brjóstin. Ég var ekki skotin í neinum þeirra stráka sem tóku þátt í leiknum en fékk samt kikk út úr því að láta horfa á mig. Það var fyrsta pervasjónin sem ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér.
Hvernig yrði það í dag? Hefurðu haldið fram hjá maka þínum? Haft mök við einhvern af sama kyni? Lamið konu? Lesið tölvupóst mannsins þíns í leyfisleysi? Komið öðrum í fjárhagsvandræði? Notað fíkniefni? Stundað endaþarmsmök? Það gæti verið áhugavert að sjá hvar fullorðið fólk dregur mörkin. Hversu nærgöngular spurningar þolir maður frammi fyrir hóp af fólki sem maður þekkti í barnaskóla? Eða kontórinn? Gæti orðið fyndið að setja einhvern stirðbusann í stellingar sem á unglingsárunum vöktu aðdáun en það er ólíklegt að fertugt fólk á fylliríi sé nógu vitlaust til að reyna að kyssa kónginn, ganga á höndum eða renna sér niður handriðið með höfuðið á undan. Sjálfsagt dytti einhverjum í hug að fá tvær af stelpunum (kerlingunum) til að kyssast. Það andstyggilegasta sem mér kemur í hug væri að skora á þau að sleikja eyrað á einhverjum. Gróss! Yrði ég beðin að strippa í dag? Ég held að bekkjartrúðurinn gæti tekið upp á því. Í dag myndi ég ekki kippa bolnum upp fyrir brjóst eitt sekúndubrot og vona að viðstaddir tækju betur eftir geirvörtunum en kinnroðanum. Ég myndi gera það almennilega í dag. Af fágaðri munúð. En það yrði samt ekki nándar nærri eins æsandi.