Sálfræði geðþekka kjarkleysingjans

Hættulegasta fólkið er ekki það sem ræðst á mann með orðum. Ekki heldur það sem dregur mann niður með neikvæðni og fýlu eða er stöðugt að búa til vandamál. Ekki einu sinni alkóhólistinn, þótt ég hafi sannarlega illan bifur á honum líka. Erfitt fólk getur verið orkusugur og mann langar kannski ekki að umgangast það en það kemur fljótlega upp um sig og þá er einfalt mál að loka á það.

Hættulegasta manngerðin er geðþekki kjarkleysinginn. Brotni maðurinn sem lítur út fyrir að vera heill. Sá sem veitir manni öryggiskennd með notalegri framkomu sinni en kippir svo undan manni fótunum þegar kemur í ljós að fas hans og framkoma eru ekki í neinu samræmi við það sem er að gerast í hausnum á honum.

Á yfirborðinu er geðþekki kjarkleysinginn friðsamur og yfirvegaður undir niðri svo ólgandi af sársauka og ótta að hann er í raun eins og gangandi tímasprengja. Hann forðast deilur og mótmælir sjaldan en það er ekki vegna þess að umræðan eða aðstæðurnar skipti hann litlu máli, heldur er hann í rauninni svo ofboðslega hræddur við konflikta að hann þorir ekki að rugga bátnum. Hann segir já og brosir þótt hann sé í rauninni í uppnámi. Hann tekur því sem persónulegri árás ef einhver er honum ósammála eða sér fleiri fleti á málinu en hann snýst samt ekki til varnar þegar hann heldur að einhver sé að ráðast á hann, heldur skríður hann inn í skel. Brosandi. Hann tekst sjaldan á við tilfinningar sínar og forðast að ræða ágreining af því að hann heldur að öll skoðanaskipti séu í eðli sínu keppni þar sem annar aðilinn standi uppi sem sigurvegari og hinn sitji uppi með tapið og skömmina. Það er ekki endilega það að hann sé hræddur við að tapa, hann veit alveg að oft getur hann vel „unnið“, hann langar bara ekki að keppa við þá sem honum þykir vænt um og ef honum tekst að telja einhvern á sína skoðun líður honum eins og hann hafi kúgað hann. Hann er svo upptekinn af því að berjast og verjast að hann skilur ekki að samræður geti þjónað þeim tilgangi að víkka sjóndeildarhringinn og dýpka skilning fólks, jafnvel að komast að nýjum og áður óþekktum niðurstöðum. Það er ekki af því að hann sé kjáni sem hann forðast konflikta. Hann heldur ekki að ágreiningurinn hverfi ef hann kemur ekki upp á yfirborðið. Hann er bara svo hræddur við tilfinningar sínar að hann treystir sér ekki til að horfast í augu við þær, hvað þá útskýra þær. Hann er haldinn svo mikilli fullkomnunaráráttu að hann er stöðugt hræddur við að vera asnalegur, jafnvel þótt hann viti vel að fólk er að jafnaði frekar asnalegt. Hann óttast þær kenndir sem eðlilega vakna við rökræður. Þegar hann finnur fyrir gremju heldur hann að það merki að hann sé illmenni. Þegar hann verður hræddur heldur hann að hann sé aumingi. Þegar keppnisskapið í honum vaknar, heldur hann að það merki að hann sé grimmur. Hann gerir ekki greinarmun á ágreiningi og illdeilum og verður þessvegna skelfingu lostinn í hvert sinn sem einhver honum náinn er honum ósammála. Þessvegna þykist hann alls ósnortinn, sama hvað á gengur í kringum hann en tekur svo skyndilega geðbólgukast yfir því að vinir og vandamenn hafi ekki haft rænu á að lesa hugsanir hans.

Geðþekki kjarleysinginn er svo svo dauðhræddur við að vera ekki fullkominn að hann getur ekki viðurkennt eðlilegan ótta manneskjunnar. Óttann við að horfast í augu við sjálfan sig, viðurkenna mistök, láta í minnipokann, biðjast vægðar, standa á rétti sínum, skipta um skoðun, tjá þarfir sínar, mótmæla… Jú, hann getur kannski viðurkennt þennan ótta í öðru fólki, bara ekki í sjálfum sér. Hann þykist vera sterkur og stoltur en er í raun þjakaður af minnimáttarkennd og afskaplega einmana af því að hann heldur að þeir sem eru pínulítið minna hræddir við sársauka, niðurlægingu og konflikta en hann sjálfur, skilji ekki þennan ótta.

Og það er bara svo rosalega rangt, því þessi ótti er innbyggður í manneskjuna og þeir sem eru pínulítið minna viðkvæmir gagnvart honum, eru það vegna þess að þeir hafa tekist á við óttann og sársaukann sem því fylgir og skilja hann þessvegna alveg. Það þarf stundum dálítið hugrekki til að vera manneskja og hugrekki er ekkert dularfull náðargáfa sem aðeins fáum er gefin. Hugrekki er ekkert annað en það að gera það sem maður þorir ekki, aftur og aftur, alveg þar til maður þorir.