Kenning

Hvernig stendur á því að hrædd kona finnur til öryggiskenndar hjá óttalausum karlmanni, en hræddur karlmaður verður ennþá hræddari í návist hugrakkrar konu? spurði vinkona mín.

Ég hef aldrei velt þessu fyrir mér áður og finnst spurningin mjög áhugaverð.

Kannski er það af því að í genum okkar blundar tilhneiging til að líta á karlmenn sem bardagamenn og verndara. Kannski að einhverju leyti vegna þess að karlmenn hafa verið skilyrtir til þess frá blautu barnsbeini að skammast sín fyrir að sýna merki um ótta og þeir verða ennþá hræddari þegar þeir sjá fram á að upplifa niðurlæginguna af því að vera hughreystur af konu. Ég held að kannski spili það líka inn í að menning karlmanna gerir ráð fyrir því að þeir takist ungir á við hættulega hluti, áþreifanlega hluti. Áður voru það dýr og óvinaflokkar, í dag eru það stórhættulegar vélar.

Maðurinn yfirstígur óttann með því að sýna hugrekki. Annarsvegar með því að sýna styrk gagnvart þeim sem eru hræddari en hann sjálfur í aðstæðum sem er ekki hægt að breyta, t.d. í óveðri. Hins vegar með því að gera það sem hann þorir ekki almennilega, aftur og aftur, þar til hann þorir. Konum leyfist að sýna ótta við þrumuveður, mýs og hraðakstur og jafnvel að biðja um vernd en þær takast frekar á við ótta sem tengist samskiptum og tilfinningum. Ég held að meðalmaðurinn sé miklu hræddari við tilfinningar sínar en meðalkonan vegna þess einfaldlega að þeir eru ekki eins þjálfaðir í því að takast á við þær. Ég held t.d. að venjulegur karlmaður verði hræddur þegar honum gremst, af því að þótt hann kunni alveg á beltagröfu, kann hann kannski ekki alveg nógu góða aðferð til að koma gremju sinni til skila án þess að valda misskilningi eða bara verða asnalegur, en ekkert finnst tegundinni hómó erectus skelfilegra en að vera asnalegur.

Ég held að meirihluti karlmanna átti sig ekki á því að færni kvenna í því að tjá tilfinningar og takast á við þær er ekki meðfædd, heldur vorum við að takast á við óttann við að vera asnalegar á meðan þeir voru að læra að hætta að vera hræddir við beltagröfur og haglabyssur. Þeir tengja hugrekki ekki við það að takast á við ótta, sársauka og ágreining (enda mun líklegri en konur til þess að forðast slíkt en að takast á við það) heldur frekar við líkamleg átök og áþreifanlegar aðstæður. Og af því að þeir sjá okkur síður kyngja óttanum við sömu hluti og þeir sjálfir takast á við, trúa þeir því ekki að við séum yfirhöfuð færar um að takast á við neitt. Þessvegna verða þeir bara ennþá hræddari þegar við erum pollrólegar. Ég held að þeir haldi að ef kona sýnir óttaleysi gagnvart einhverju, þá sé það ekki merki um hugrekki heldur heimsku.

One thought on “Kenning

  1. ———————————————-

    Ég held svei mér þá að í þessum pisli séu ansi mörg sannleikskorn.

    Fábær lesning, fyndin og ótrúlega sönn

    Posted by: Stefán H | 5.06.2008 | 16:13:17

Lokað er á athugasemdir.