Sál mín situr á fjósbita

Oftast fara skoðanir mínar og tilfinningar saman. Svo upplifi ég þessi undarlegu augnablik þegar hjartað segir eitthvað allt annað en höfuðið. Það er skrýtið.

Í kvöld borðaði ég á veitingastað ásamt Pysjunni. Ég hef oft komið þangað áður og alltaf fengið góðan mat og fyrirtaks þjónustu. Ekkert borð var laust á reyklausa svæðinu en á reyksvæðinu voru fáir og þar sem við ætluðum líka í bíó, ákvað ég að láta mig hafa það að reykja dálítið frekar en að bíða.

Við pöntuðum mat og biðum og biðum og biðum. Á meðan var þremur hópum sem komu á eftir okkur vísað til sætis á reyklausa svæðinu og tveir þeirra voru farnir út áður en við fengum matinn okkar. Ég tók eftir því að fólkið á næsta borði var óánægt með þjónustuna.

Það er ekki líkt mér, en ég var fullkomlega sátt við að fá lélegri þjónustu en aðrir og varð ekki vitund spæld yfir að missa af bíóinu út á þennan óeðlilega seinagang. Ég tel mig nefnilega vita ástæðuna. Hef svosem engar sannanir en er sannfærð um að það er stefna fyrirtækisins (eða starfsfólks) að veita betri þjónustu á reyklausa svæðinu.

Og þarna er snuðra á þræði sem festur er við fjósbita:
Ég álít það rangt og ósiðlegt af fyrirtæki sem leyfir reykingar í borðsal að mismuna viðskiptavinum án þess að það sé tilkynnt sérstaklega. Hinsvegar líður mér dálítið vel í hefndarfýsninni fyrir nauðungarreykingar margra áratuga.

Tóbakssjúklingar sem sækja veitingahús bera enga ábyrgð á því þótt ég hafi verið neydd til að reykja þegar ég var tíu ára. Þessvegna hafnar réttlætisvitund mín mismunun. Réttlætiskennd mín segir hinsvegar; gott á þetta fíklapakk sem alltaf hefur notið forréttinda á kostnað okkar hinna.

Ég mátaði blygðun fyrir illgirnina en nennti ekki að burðast með hana. Ljótar tilfinningar eiga tilverurétt. Það er ekki þar með sagt að þær eigi að stjórna.