Rassgat!

Lengi hélt ég að enginn vildi mig.

Svo áttaði ég mig á því að almennilegir menn vilja mig alveg. Það voru bara fávitarnir sem vildu mig ekki. Það var ég sem var vandamálið. Ég varð bara hrifin af fávitum og almennilegir menn eru ekkert að reyna við konur sem sjá þá ekki. Þegar ég áttaði mig á þessu fór ég að horfa á aðrar týpur.

Fljótlega varð mér ljóst að almennilegu mennirnir sem gáfu mér auga, voru ýmist fráteknir eða enn ekki búnir að ganga frá skilnaðarsamningnum. Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að næstum allir menn á lausu væru fávitar. Allir góðu strákarnir væru „búnir“.

Við nánari athugun kom í ljós að þeir eru ekki „búnir“, það eru ennþá nokkrir bitastæðir í afgangakössunum, á útsöluverði og allt. Það var bara ég sjálf sem tók ekki eftir þeim. Að vísu var ég hætt að horfa á fávita en ég var heldur ekkert að skoða í afgangakassana. Eiginlega var ég bara heima að setja í þvottavél eða að ráða sunnudagskrossgátuna uppi í rúmi og það voru engir menn undir rúminu mínu, hvorki fávitar né frómir. Ekki í þvottavélinni heldur.

Sannleikurinn er sá að það er alveg til slatti af frambærilegum mönnum sem eru í alvörunni á lausu, í alvörunni að leita að maka og finnst það í alvörunni engin frágangssök þótt ég komi út sem sjaldgæfasta gerð af asískum karlmanni á persónuleikaprófi. Og þetta eru alveg prýðisnáungar. Næs, greiðviknir, kunna á klósettbursta og skilja hvað gerist ef maður borgar ekki reikningana sína. Alveg gaman að umgangast þá og allt. Málið er bara að mig langar ekkert til að sofa hjá þeim. Líklega er ég í raun og veru að leita að almennilegum manni sem hefur krónískt ógeð á kynlífi og verður því bara feginn að ég vilji af og til gista annarsstaðar. Af hverju hef ég ekki trú á því að þeir séu til í miklu úrvali?

Mig langar að sofa hjá einhverjum skegglausum nýstúdent með augnhárin titrandi af feimni. Er til einhver mixtúra við því?