Ég veit ekki hver setti fram þá kenningu að klám hvetti til kynferðislegs ofbeldis en píkutal antiklámhunda drægi hins vegar úr því. Ég veit heldur ekki með hvaða rökum. Ef nauðgarar ákveða að finna sér geðslegra áhugamál eftir að sjá alþingiskonur gera sér upp fullnægingu á sviði er það vel. Ef það heldur aftur af dónaköllum að heyra lítil börn lýsa því yfir í sjónvarpi að þeir megi ekki dónast í þeim þá er sjálfsagt að nota þá aðferð.
En ég er ekki sannfærð. Hefur einhver rannsókn gefið vísbendingar um að píkutal í fjölmiðlum haldi aftur af ofbeldismönnum?
Við segjum börnum að til sé snarbilað dónafólk og því megi þau aldrei fara burt með ókunnugum en í flestum tilvikum eru það aðstandendur sem misnota börn. Ég játa á mig vanrækslu. Ég sagði strákunum mínum aldrei að þeir yrðu að passa sig á pabba sínum, öfum sínum og stóru frændunum, því þeir gætu verið dulbúnir barnaperrar.
Hver er munurinn á því að svipta börn sakleysi sínu og gefa þeim upplýsingar sem ofbjóða blygðunarkennd þeirra? Ég er frekar frjálslynd en á samt fullt í fangi með tepruna í mér þegar Siv Friðleifsdóttir segir sleiktu mig. Hvaða mynd kviknar þá í huga barns sem er varað við því að hver sem er gæti tekið upp á því að strjúka á því typpið eða pjölluna? Hvað ætlum við að ganga langt í forvörnum? Ætlum við að kenna börnum okkar að tortryggja alla? Ætlum við að láta duga að kenna þeim að tortryggja alla karlmenn? Það eru líka til konur sem misnota börn og beita þau öðru ofbeldi. Þær eru bara næstum aldrei kærðar. Er ekki ástæða til að vara börn við slíkum konum?
Ef ég kynni töfraráð til að koma í veg fyrir ofbeldi skyldi ég varpa af mér öllum tepruskap. Ég kann það ekki. Kannski hafa píkutalssamtökin svarið. Vonandi eru þau á réttri leið. Mig langar samt að vita hvort píkutalsaðferðin er byggð á vísindum eða hvort þetta er algjör tilraunastarfsemi.