Perrapólitík

7275869158_5e5ec5408d_b-688x451Meðferð fyrir kynferðisbrotamenn er dýr. Of dýr til þess að samfélagið vilji spandera meðferð á hvílík illmenni. Það er að sumu leyti skiljanlegt, það eru margir sem okkur finnst frekar verðskulda stuðning sem fá ekki þá læknismeðferð sem myndi henta þeim best.

En er einhver búinn að reikna út hvað það kostar að hafa kynferðisbrotamenn í fangelsi mánuðum og árum saman og senda þá svo út í samfélagið, líklega til að halda uppteknum hætti? Hvað kostar að veita fórnarlömbum þeirra meðferð? Hvað kostar þjónusta við brotnar fjölskyldur? Hvað kostar lögreglurannsókn og réttarhöld? Nú lýsir hver brotaþolinn á fætur öðrum því yfir að afleiðingarnar af ofbeldinu hafi verið vímuefnamisnotkun og alvarlegir geðsjúkdómar á borð við áfallastreituröskun. Þessi vandamál leiða svo aftur til glæpa til að fjármagna neysluna, vanrækslu á börnum og ofbeldis gagnvart þeim, atvinnuleysis og félagslegrar örorku. Hvað kostar það í krónum talið?

Árum saman hefur kynferðisofbeldi verið eitthvert vinsælasta umfjöllunarefni fjölmiðla og stjórnmálamenn stökkva auðvitað á þann vagn. Hver hræsnarinn á fætur öðrum reynir að skreyta sig með gerviframlagi til baráttu gegn kynferðisofbeldi; menn flagga frösum, stjórnmálamenn stinga upp á ritskoðun og halda klámráðstefnur og málþing um kynbundið ofbeldi. Peningum er ausið í gervirannsóknir, áróðursherferðir og femínistasamtök, fúskurum er hleypt með áróður inn í skólana, allt í nafni samúðar með þolendum. Kynferðisofbeldi er endurskilgreint í þeirri von að hægt sé að refsa fleiri gerendum, enda þráir samfélagið hefnd fremur en þá forvörn sem fælist í enduruppeldi þeirra sem hafa farið yfir mörk annarra en eru ekki beinlínis hættulegir.

En að gera eitthvað raunhæft, svosem að koma á fót „viðeigandi stofnun“ svo sé hægt að losna við stórhættulega glæpamenn af götunni (ekki bara í 2 ár eða 4 ár heldur svo lengi sem þeir eru taldir hættulegir) og veita þeim sem er viðbjargandi almennilega meðferð, að beita meðferð frekar en refsingum í jaðartilvikum, það fær ekki mikinn hljómgrunn hjá þeim sem halda um budduna.

Ástæðan er auðvitað ekki sú að yfirvöldum sé sama um kynferðisglæpi en það er líklega auðvelt að ljúga því að sjálfum sér að ódýrar aðferðir geri gagn. Að því fé sé vel varið sem notað er til þess að leyfa nokkrum einstaklingum að láta ljós sitt skína. Það er ódýrara að gauka smáaurum að konum sem vilja bera á sér geirvörturnar við hljómsveitarundirleik, undir slagorðinu „free the nipples“ en að lappa upp á strákbjána sem setja brjóstamyndir af vinkonum sínum á internetið. Það er ódýrara að fá sjálffræðinga til að predika um meint orsakatengsl píkuraksturs og barnanauðgana en að koma á fót viðeigandi stofnun.

Kannski er það ömurlegasta við þetta að þeir smáaurar sem settir eru í hið tilgangslausa stríð gegn klámdjöflinum, kaupa pólitíkusum sennilega mun fleiri atkvæði en aðgerðir sem með sömu upphæð gætu komið í veg fyrir örfáar hrottalegar nauðganir. Það virðist nefnilega sanngjarnara að setja peninginn í þolandann en perrann.

Ljósmynd eftir Flood G