Ótrúlegt hvaða smáatriði standa í sumum

Ég hef séð nokkra velta sér upp úr því hversvegna Paul sótti ekki um vegabréfsáritun beint til Íslands. Mér finnst með ólíkindum að fólk geti séð það sem eitthvað grunsamlegt. Heldur einhver að hann hafi ætlað að setjast að á Ítalíu en frétt svo af því hvað bótakerfið á Íslandi er frábært og ákveðið að koma hingað í staðinn?Hvað gerir örvæntingarfullur maður sem hefur sætt pyndingum og óttast um líf sitt? Leggst hann í rannsókn á því hvernig skuli staðið að formsatriðum? Eða pillar hann sig bara burt?

Vissi Paul yfirhöfuð að það væri hægt að fá vegabréfsáritun til Íslands? Ef ég hefði vitað að ég þyrfti að ferðast til Ítalíu fyrst, hefði ég sennilega ályktað að ég þyrfti fyrst að fá vísa þangað og ef ég hefði óttast um líf mitt er ekkert ólíklegt að ég hefði viljað gefa villandi upplýsingar um það hvert ég væri að fara. Rakst hann á vandamál þegar hann ætlaði að sækja um? Var t.d. einhver á skrifstofunni sem hann hafði ástæðu til að óttast? Var einhver stimpill týndur?

Það geta verið ótal atriði sem skýra það hversvegna Paul sótti ekki um vegabréfsáritun til Íslands á meðan hann var í Nairobi. Raistar og bjánar (mér sýnist reyndar að þetta tvennt fari oft saman) hljóta að geta fundið eitthvað bitastæðara en það til að gera hann grunsamlegan.

mbl.is Ástandið enn ótryggt í Kenía
 

One thought on “Ótrúlegt hvaða smáatriði standa í sumum

 1. ————————————–

  Kæra Eva!    Paul er hófstilltur, rólegur og kurteis maður. Það er því langur vegur frá að þú gerir honum einhvern greiða með þeim orðaforða sem þú notar í skrifum þínum um hans mál.

  Þegar maður er að berjast fyrir hógvært og kurteist fólk, er mikilvægt að haga framgöngu sinni á þann veg að hún sé því fólki til sóma, sem verið er að berjast fyrir.

  Paul á allt gott skilið, líka að viðsemjendum hans sé sýnd kurteisi. Eins og hann mundi sjálfur gera. 

  Guðbjörn Jónsson, 9.7.2008 kl. 09:37
  ————————————–

  Takk fyrir innleggið en ég mun eftir sem áður kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Stofnun sem hegðar sér eins og Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra sem hefur afstöðu Björns Bjarnasonar til friðar- og mannúðarmála, eiga engu virðingu skylda.

  Hafi Paul Ramses eitthvað við orðfar mitt að athuga, mun ég taka við þeim athugasemdum frá fólki sem þekkir hann og styður hann af fullri einurð en ekki einhverjum sem er tvístígandi í afstöðu sinni.

  Eva Hauksdóttir, 9.7.2008 kl. 10:36

  ————————————–

  Ég tek undir orð Guðbjarnar hérna.

  það eru til lög um leiðbeiningarskyldu yfirvalda fyrir útlendinga. Þessi lög eru brotin á hverjum einasta degi. Útlendingum er refsað fyrir að lesa ekki íslensku ÁÐUR en þeir koma inn í landið.

  Að hringja í ÚTL er martröð fyrir Íslendinga og ráðgáta fyrir útlendinga. Prófa bara.

  Að klippa og klístra lög kunna allir. UTL er ótrúleg stofnun.  Lögleg enn siðlaus.  Ísland er líklegast eitt það flóknasta land fyrir útlending að koma til á öllum Norðurlöndum.

  Að við eru eyja og það má samt ekki sækja um á staðnum er eitt furðuverkið.

  Íslenska málið og starfsfólk sem ekki gerir fólki grein fyrir að reglur á Íslandi eru öðruvísi, bitnar á útlendingum.

  það var það meira virði fyrir lögfræðinginn að verða frægur í sjónvarpinu, enn að vinna vinnuna sína. átti að skrifa kæru enn notaði tíman í annað. Mjög klassískt.

  Gaman að sjá Íslending reyna að ganga yfir götu t.d. í Saigon. Þeir bíða alttaf eftir að umferðin stoppi. þeir fara ekkert yfir. Þeir verða að leigja sér Víetnama til að leiða sig yfir götuna og fara í vægt taugaáfall á leiðinni.

  Svona er þetta hér líka..

  Óskar Arnórsson, 10.7.2008 kl. 04:52

  ————————————–

  Ég hef enga trú á því að Katrín hafi skilað kærunni degi síðar en að hún ráðgerði af því að hún hafi verið upptekin við að bora í nefið. Það er mikilvægt að svona kærur séu vel unnar. Það hefði tafið málið ef kærunni hefði verið vísað frá vegna formgalla eða annars smáatriðis.

  Eva Hauksdóttir, 10.7.2008 kl. 10:05

  ————————————–

  Ég hef trú á því. Alveg ótrúlegt hvað einföldustu hlutir geta vafist fyrir manni. það er annars satt. þetta með lögfræðinginn veit ég að sjálfsögðu ekkert um. þekki marga og þeir eru margir hverjir eins  misjafnir og starfsfólk UTL. Kanski þetta hefði fengið annann farveg ef Hildur Dungal hefði ekki verið í fríi. Hún er kona og Haukur er kall. Það þarf oft ekki meiri mun í afgreiðslu á málu. Konur eru betur gefnar enn kallar með undantekningu. á konu og 6 dætur og þær segja þetta allar við mig. og það hrikalegasta af þessu er að þetta er satt, með undantekningum eins og í öllu..

  Óskar Arnórsson, 10.7.2008 kl. 11:55

  ————————————–

  ..Eins og Guðbjörn bendir réttilega á. það er of mikið af staðhæfingum í mörgum málum. Og þá verður til misskilningur. Ég hef oft farið í uppnám yfir misskilningi. Oftast yfir mínum eiginn..

  Óskar Arnórsson, 10.7.2008 kl. 11:57

Lokað er á athugasemdir.