Örlög kvenna – val karla

Kristín Jóhannesdóttir

Ég á vin sem langaði að verða kvikmyndagerðarmaður. Þegar hann var ungur var kvikmyndagerð ekki kennd á Íslandi. Hann átti lítil börn en enga peninga og var ekki áhættusækinn. Hann vissi að líkurnar á því að hann slægi í gegn voru takmarkaðar og komst að þeirri niðurstöðu að það þjónaði hagsmunum fjölskyldunnar betur að hann veldi sér annan starfsferil. Kannski hefði hann reynt að hasla sér völl á sviði kvikmyndagerðar ef hann hefði átt sæg vina í kvikmyndabransanum en hann tilheyrði engri klíku.

Hann hefur ennþá brennandi áhuga á kvikmyndum. Hann hefur gert nokkrar stuttmyndir fyrir vini og vandamenn en verk hans eru ekki sýnd í kvikmyndahúsum. Hann hefur aldrei reynt að finna sökudólg, hann mat það sjálfur svo að gallarnir vægju þyngra en kostirnir.

Sennilega eru hundruð karla í svipaðri stöðu. Ég hef þó ekki heyrt neinn tala um að kvikmyndaklíkan eða hið opinbera eigi að bregðast við fjarveru skynsamra karla frá kvikmyndaheiminum.

Ábyrgð karla

Þegar karlmaður gefur draum um starf í kvikmyndabransanum upp á bátinn er það val. Þegar kona gerir það sama á það sér dramatískari skýringar. Hvað á þetta að þýða? er spurt en hnussinu er ekki beint að vali kvenna heldur að karlaklíkunni sem hafnar konum.

Kvikmyndasjóður mismunar ekki konum, umsóknarhlutfall kvenna er hinsvegar lágt. Í Kvikmyndaskólanum eru fáar konur í framleiðslu- og leikstjórnarnámi. Áhuginn virðist því minni meðal kvenna. Umræðan einkennist þó af því viðhorfi að karlar séu ábyrgir fyrir dræmri aðsókn kvenna að kvikmyndaheiminum. Iðnaðurinn hafi bundist samtökum gegn konum. Fáar stúlkur velja námskeið í kvikmyndagerð og þar með búum við í hræðilegri drengjaveröld.  Við afhendingu Edduverðlaunanna mótmæla konur ekki áhugaleysi kvenna heldur ofríki karla.

Kannski er langsótt að ásaka karla þegar konur sækja ekki um styrki en það er allavega hægt að skamma þá fyrir að skapa ekki störf fyrir konur. Anna Theódóra bendir á að fáir handritshöfunda síðustu 10 ára séu konur. Að vísu eru 5 þeirra 11 mynda sem byggja á skáldsögum gerðar eftir bókum kvenna. Þau handrit eru yfirleitt unnin af höfundum bókanna í samstarfi við aðra. Um 30% útgefinna skáldsagna eru eftir konur svo ekki hallar á konur þar sem skáldverk eru grunnur að kvikmyndahandriti.

Þegar ekki er byggt á bók er sjaldan sótt til kvenna. Skýringin hlýtur að vera sú að konur sem vilja skrifa kvikmyndahandrit séu sniðgengnar vegna karlrembu framleiðenda. Má þá vel líta fram hjá því að konur eru minna en hálfdrættingar á við karla í flestum tegundum skrifa og hlutfall kvenna í handritagerð og leikstjórn í Kvikmyndaskólanum bendir til takmarkaðs áhuga kvenna á handritagerð.

Anna Theódóra bendir á að konur séu körlum líklegri til að ráða konur til starfa. Er þá lausnin sú að fleiri konur gefi sig í kvikmyndframleiðslu? Sú uppástunga fær dræmar undirtektir. Kannski er auðveldara að lesa körlum pistilinn en að fjármagna kvikmynd?

 

Gefa, veita, styðja, hvetja, breyta

Ég hef spurt hvernig eigi að rétta kynjahallann ef ekki með frumkvæði frá konum. Svörin eru á þá leið að þar sem konur treysti sér ekki í samkeppnina í því karlveldi sem kvikmyndaheimurinn er þurfi að gefa þeim tækifæri, opna þeim leiðir, veita þeim stuðning, hvetja þær sérstaklega. Á facebook kom fram hugleiðing um hvort kvikmyndakarlar, sem geta unnið við erfiðar aðstæður, séu tilbúnir til að breyta störfunum til að hleypa fleirum að, bæði konum og körlum.

Jafnvel þeir sem eru vel tengdir þurfa að berjast og betla, sanna sig og selja til að fá styrki til kvikmyndagerðar. Ólíklegt finnst mér að þeir sem búnir eru að hasla sér völl með sleitulausu streði, fara á hausinn og standa upp aftur, séu til í að breyta starfsumhverfi sínu til þess eins að hleypa keppinautum að. Ef marka má málflutning þeirra sem kvarta undan karlveldinu í kvikmyndaheiminum þurfa konur ekki bara styrki til láta drauma sína rætast, þær þurfa líka sérstaka hvatningu til þess að bera sig eftir björginni. Það hljóta að vera sannkallaðir draumakeppinautar hvers kapítalista. Skiljið þið hvað ég á við?

 

Hvað er til ráða?

Kvikmyndaframleiðendur gera myndir um karla og velja sjaldan konur til handritsgerðar. Það er bara staðreynd. Þegar ég spyr hvort eigi að rétta það með því að setja listamönnum reglur um efnistök og val á samstarfsfólki, kannast enginn við að telja það tæka lausn. Hver á þá að gefa konum tækifæri?

Ein lausnin er sú að fleiri konur fari út í kvikmyndagerð. En hver ætlar að sannfæra varkárar konur um að það sé eitthvert vit í því þegar búið er að meta fyrirhöfnina, álagið og hættuna á gjaldþroti og höfnun?

Sjálfsagt mætti laða konur og óbrjálaða karla að kvikmyndagerð með mannúðlegra vinnulagi. Vinna frá 9-5, aðeins í heimabyggð og gefa frí vegna foreldrafunda. Það hefði hentað vini mínum á meðan börnin hans voru lítil. En ef það er lausnin, getur þá verið að vandamálið sé fremur kapítalismi en karlremba? Eða er þetta tvennt óaðgreinanlegt? Mér sýnist það stundum.

 

Af hverju gera þeir ekki myndir um konur?

Ég skil að karlmenn hneigist til að ráða sína líka til starfa. Mér finnst dularfyllra hversvegna þeir gera ekki myndir um konur. Karlar skrifa um konur. Myndlistamenn nota konur sem myndefni. Af hverju gera karlar ekki alveg eins kvikmyndir um konur?

Ég spurði þennan áhugasama vin minn sem enn í dag ver nánast öllum sínum frítíma í að horfa á kvikmyndir, greina þær og ræða. Svar hans var þetta:

Til eru margar frábærar kvikmyndir um konur. Myndir sem kvikmyndanördar meta mikils en ná sjaldan vinsældum. Konur sýna lítinn áhuga á kvikmyndum og taka ekki þátt í umræðum um þær. Ef þú skoðar imdb.com sérðu að m.a.s. kvennamyndir fá fleiri einkunnagjafir frá körlum en konum. Ef staðan er eins á Íslandi og annarsstaðar; að myndir um konur seljist ekki og konur sýni ekki áhuga á kvikmyndum, af hverju ættu framleiðendur þá að taka slíka áhættu?

Er það kannski málið? Þurfum við konur að taka einhverja ábyrgð sjálfar? Ég játa; ég þekki ekki kvikmyndir Kenji MizoguchiMax OphülsCarls Theodor DreyerPedro AlmodóvarSofiu Coppola eða Michaels Haneke. “Réttupphend“ sem þekkir þessa leikstjóra.

Vel má vera að íslenska kvikmyndalíkan sé gegnsýrð af kvenfyrirlitningu og fullkomlega áhugalaus um sögur kvenna og sjónarhorn. En hér er listi sem gefur smá vísbendingu um það hvað áhorfendur vilja. Er hugsanlegt að kröfur markaðarins spili eitthvað inn í efnisval? Ættum við kannski að sýna myndum um líf kvenna áhuga áður en við fussum yfir því að íslenskir kvikmyndaframleiðendur vanræki konur?