-Skil ég rétt að þú sért sátt við þetta fyrirkomulag eins og það er, en hafir áhyggjur af því að ég taki upp á því að gera meiri kröfur? spurði ég.
-Já, ég get ekki neitað því. Þú virðist vilja meira. Svo hef ég líka velt því fyrir mér hvernig þetta yrði ef við eignuðumst barn.
-Ég held að þú þurfir ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Hann vill ekkert eignast barn með þér, sagði ég.
Ég fann að hún fyrtist við en hún hélt ró sinni.
-Hann er ekki tilbúinn eins og er en það kemur nú fyrir að fólk skiptir um skoðun, sagði hún fremur kuldalega. Svo er nú ekki útilokað að þú spilir inn í þá afstöðu. Þetta nálgast tvíkvæni og það er nógu flókið fjölskyldumynstur þótt hann þurfi ekki að sinna uppeldi líka.
-Hvernig geturðu líkt þessu við tvíkvæni? sagði ég, eilítið gröm. Ég vakna ein á morgnana, sofna oftar en ekki ein á kvöldin, sé ein um fyrirtækið, heimilið og reikningana, er án hans þegar þið farið saman í frí og get ekki einu sinni kynnt hann fyrir vinum og vandamönnum. Hvað á það skylt við tvíkvæni þótt hann sé hjá mér þegar þú nennir hvort sem er ekki að sinna honum?
Ég fann að ég var á leið með að reiðast og vildi helst ljúka samtalinu sem fyrst.
-Hvern fjandann viltu mér annars? Viltu að ég banni honum að koma til mín svo þú getir stofnað einhverja fokkans kjarnafjölskyldu? sagði ég og reyndi ekki lengur að leyna gremjunni.
-Ég sagði þér að ég ætlaði ekki að biðja þig að slíta þessu. Hann fyndi sér hvort sem er einhverja aðra. En það vill svo til að ykkar samband kemur mér við og ég nú svona að velta því fyrir mér hvar ég stend. Vilt þú kannski að ég fari frá honum svo þú þurfir ekki að vakna ein? sagði hún og það var greinilega sigið í hana líka.
-Nei! sagði ég. Ég vil það ekki neitt. Ég er reyndar ekki jafn sátt og þú þykist vera. Ég hef alveg hugsað um hvernig væri að búa með honum EF hann kæmi að eigin frumkvæði en ég er nú samt ekki eins spennt fyrir því og þú heldur. Til hvers svosem? Hann sefur fram að hádegi ef hann kemst upp með það svo ég myndi hvort sem er vakna ein. Ég hef séð inn í bílskúrinn ykkar og held að ruslaskrímslið myndi flytja út með honum en ekki þér og fyrir mér er drasl uppspretta mikillar óhamingju. Auk þess yrði hann þá eins og grár köttur heima hjá ÞÉR svo ég fengi fleiri galla en kosti. Ég hef fyrir mína parta tekið þá afstöðu að þetta sé „as good as it gets“ svo þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því að ég ætli að rugga bátnum.
Henni virtist létta. Gott ef örlaði ekki á brosi. Ég var rétt í þann veginn að jæja mig út þegar hún byrjaði aftur.
-En hvað ef kemur að því að hann vill eignast barn? Verður þú þá sátt við að hafa minna af honum að segja en áður?
-Hann vill alveg börn. Bara ekki með þér, sagði ég. Og þér finnst nú væntanlega smekklegra að hafa hann með í ráðum ef þú ætlar honum að fjölga sér?
-Við kúgum ekki hvort annað. Ég neyði hann ekki til barneigna en hann hindrar mig heldur ekkert í þeim ef það er það sem ég vil. Ef kemur að því að mig vantar barn þá get orðið mér úti um það án hans aðkomu. Samt er það nú svo, að á meðan hann býr mér en ekki þér kæmi það í hans hlut að leika pabbann.
Ég kláraði vatnsglasið á meðan ég hugsaði næsta leik. Var mér illa við hana? Nei. En mér þótti ekki sérlega vænt um hana heldur. Það var hún sem vildi hitta mig og þegar skrattinn býður ömmu sinni á kaffihús getur hann búist við öðru en sméri og rjóma. Ég dró andann og taldi upp að tíu.
-Veistu svolítið, einu sinni átti ég vin sem vildi ekki eiga brauðrist með konunni sinni. Hann kveikti ekki á muninum á opnu sambandi og skuldbindingarlausu, fyrr en þau fengu sameiginleg heimilistæki í jólagjöf. Ég held að okkar maður geri sér alveg grein fyrir þeim mun en samt vill hann ekki eignast barn með konunni sinni, hvað segir það okkur?
-Að hann sé í krísu kannski, svaraði hún pollróleg. Allavega ekki að hann vilji ekki skuldbindingar því við höfum helling af þeim nú þegar. Hvað varð annars um brauðristina?
-Það veit ég ekki. Þau eignuðust barn tveimur árum síðar. Þau hanga saman á vansældinni að meðaltali 10 mánuði á ári og skilja svo í nokkrar vikur þess á milli. Brauðrist er nefnilega ekki mjög alvarleg skuldbinding gæskan. Ekki hús og bíll heldur. En barn er skuldbinding og okkar maður veit það.
-Minn maður reyndar, ekki okkar.
-Þinn maður, gott og vel, þinn maður veit að barn er skuldbinding og hann vill ekki slíka skuldbindingu.
-Hann er heldur ekkert að fara eignast barn með þér, sagði hún og reyndi að halda kúlinu en tókst það ekki alveg. Ég ákvað að svara ekki.
-Af hverju verður fólk eins og þið, spurði hún.
-Eins og við hvernig?
-Þú veist vel hvað ég á við.
-Þú talar eins og það sé sjúklegt eða rangt að hafa annan smekk en þú sjálf.
-Ég þekki engan sem þætti þetta ekki skrýtið. Annars er ég ekkert að dæma neinn. Ég er bara að pæla í því af hverju hann er svona mikið hjá þér. Það hlýtur að vera eitthvað meira en þetta.
-Kannski segir hann satt. Kannski bara elskar hann mig svona mikið.
-Kyssist þið?
-Skiptir það máli?
-Nei en mig langar samt að vita það.
-Spurðu hann þá.
Hún hikaði ekki, sýndi ekki svipbrigði og röddin bar hvorki vott um ákveðni né umkomuleysi. Það var öllu heldur eins og hún væri að svara símakönnun um sjónvarpsáhorf vikunnar.
-Ég vil ekki missa hann, sagði hún.
-Þú ert ekkert að missa hann. Ekki til mín allavega, svaraði ég þurrlega.
-Segir þú sem heldur því fram að hlutirnir séu yfirleitt nákvæmlega eins og þeir líti út fyrir að vera, hnussaði í henni.
Ég hló að hætti hetja Íslendingasagnanna.
-Og hvað lít ég út fyrir að vera gæskan? Kona sem helst á karlmanni kannski?
-Þér hefur haldist á okkar manni nokkuð lengi, svaraði hún.
-Okkur, leiðrétti ég. Okkur hefur haldist á honum þó nokkuð lengi.
Og nú, þegar þú situr heima og lest þessar línur get ég bætt því við að það er rétt sem ég segi. Hlutirnir eru venjulega, en ekki alltaf, nákvæmlega eins og þeir virðast vera og þeir sem þekkja ykkur sjá ekki betur en að allt sé í lukkunnar velstandi.